01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Ólafsson:

Ég tek undir það með ýmsum hv. þdm., að ég álít, að hv. landbn. hafi unnið furðu gott verk úr jafnveilu efni. En það er ekki vafi á því, að það eru æðimörg vafasöm atriði í þessu máli, og hefir að sumu leyti verið bent á þau hér í hv. d., svo að ég ætla ekki að fara mikið út í þá sálma. En vegna þess að mörg þessara atriða eru svo vandasöm, hefði ég kosið, að n. hefði takmarkað sig meira um þetta efni en hún hefir gert. Ég hefði æskt þess, að sjávarútvegurinn hefði ekki komið inn í þetta mál, vegna þess að ýmislegt er um þann atvinnuvega, sem er annars eðlis en landbúnaðurinn, svo ég er ekki alveg viss um, að heppilegt sé, vegna þess lánstrausts, sem bátaútvegsmenn hafa víðsvegar, að veita þeim þessa vernd. Sá atvinnuvegur er ekki svo staðbundinn, að þótt t. d. verði eigendaskipti að skipi, þá er venjulega kominn kaupandi að því aftur, þannig, að þjóðin saknar í raun og veru einskis. Líka er á það að líta, að atvinnutæki sjávarútvegsins eru fljót að fyrnast. Það er ekki sama, hvernig er farið með þessar fleytur. Það verður oft að taka af mönnum það, sem þeir hafa handa á milli, vegna þess að þeir kunna ekki með það að fara, og slíkum mönnum má ekki fá neina lagavernd, því að það getur komið þeim í koll, sem lána þeim peninga, ef þeir fá að halda áfram að starfa með lagavernd, sem gengur í óheppilega átt. Hinsvegar er það reynsla lánsstofnana, að þeir matsmenn, sem eiga að meta hinar ýmsu eignir víðsvegar á landinu, eru af einhverjum ástæðum svo bjartsýnir, að ekki nær nokkurri átt, að menn eigi fyrir skuldum, þegar þeir telja þá eiga miklu meira. Þetta eru eftirstöðvar af hinu háa verði á öllum eignum, og maður gæti hugsað sér, að sú nefnd, sem skipuð yrði samkvæmt lögum þessum, myndi hika við að telja, að þessi og þessi ætti ekki fyrir skuldum. Hún myndi miklu frekar telja eignir hans hatt, svo hann fengi að halda áfram. En allir geta séð, hversu óheppilegt slíkt væri, sem ég þó hefi fulla ástæðu til að ætla, að viðgangist. Í þessu sambandi má benda á, að ýmsar kvaðir, sem snerta sjávarútveginn, gera ráð fyrir því, að skuldir þær, sem þessi lögvernd standi yfir, falli í gjalddaga, t. d. ýmsar kröfur eins og lögveð, sem geta komið árlega. Hvernig ætti með það að fara, ef slík n. hefði gefið vottorð um það, að þessi maður ætti langsamlega og meira en það fyrir skuldum? Væri í rauninni hægt fyrir lánveitanda að ganga að manninum og láta gera hann upp, ef n. áliti, að hann ætti fyrir skuldum, þrátt fyrir þessi lögveð, sem fellu á eignirnar, og lánardrottinn, sem er næstur á eftir, yrði að leysa út?

Ég hefi tekið fram, að það sér ekki svo mjög á um fiskveiðar, þótt skipt sé um eigendur, og það er enginn héraðsbrestur, þótt slíkt komi fyrir. En með bændur er því svo háttað, að það má heita héraðsbrestur, ef gengið er að bónda, sem hefir fyrir stóru heimili að sjá, og hann gerður gjaldþrota og ófær til að bjargast. Mér er sagt, að sumar sveitir séu svo efnun búnar, að fjölda hreppsbúa myndi verða mjög hætt, ef gengið yrði að nokkrum verst stæðu bændunum, þar sem þeir eru svo krossflæktir í ábyrgðum hver fyrir annan. Og allir geta séð, hve ömurlegt það yrði, ef sú alda gengi yfir landið, að þessir menn yrðu gerðir gjaldþrota og hinir flytu með, sem í ábyrgðirnar eru flæktir. Aðalatriðið í þessu sambandi er, að bændur reynast mjög góðir skilamenn, svo langt sem geta þeirra nær, og það er vitanlegt, að þeir ganga svo nálægt bústofni sínum á þessum árum, að haldist þessir erfiðu tímar áfram, þá hafa þeir enga von um að geta rétt við, þegar góðu árin koma, sem maður verður að vona, að komi áður en langt um liður. Slíkt er héraðsógæfa, þar sem það hendir, og það er þjóðarógæfa, ef bændur yrðu svo staddir þegar eitthvað raknaði úr, að þeir væru búnir að farga bústofni sínum og gætu lítinn þátt tekið í komandi góðærum. Þetta er það, sem upphaflega veldur því, að farið er að hugsa um þessi efni og farið er að reyna að ráða bót á þeim. Og ég vona, að þetta verði lagfært svo í hendi, að hægt verði að reyna það og helzt að setja því það takmark, að það nái einungis til bænda á þessu byrjunarstigi. Því þeim mun meiri vandi er að fylgja þessari nýju ákvörðun, sem fleiri atvinnuvegir eru dregnir inn í hana.