18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þar var einungis eitt atriði í ræðu hv. þm. Snæf., sem ég vildi koma að hér, því að mér fannst það í raun og veru vera aðalatriðið í gagnrýni hans á frv. Hann bar fram þrjár ástæður til þess, að hann gæti ekki verið frv. fylgjandi. Fyrsta ástæðan, sem hann nefndi og sem hann leggur því mesta áherzluna á, var sú, að engin knýjandi þörf væri til þess að gera þessar ráðstafanir. Til rökstuðnings því sagði hann, að menn, sem ættu skuldir hjá öðrum, gengju ekki hart að á slíkum krepputímum, vegna sinna eigin hagsmuna. Þetta er rétt hjá hv. þm., það sem það nær. Þetta á við um viðskipti eða stofnanir, sem eru í rólegum gangi og munu ætla sér að hafa viðskipti áfram, eða m. ö o. að skuldaeigendur hafi bolmagn til að sýna biðlund og hafa beinan hag í að reyna að búa sem bezt að skuldunautum sínum. En það er því miður ekki nema í fáum tilfellum, sem þessu er þannig varið. Við vitum það, svo að ég fari inn á einstaka hlið þessa máls, að núna jafnóðum og kreppan færist yfir hafa svo og svo mörg verzlunarfyrirtæki orðið að stöðvast. Lánsstofnanir hafa ekki getað staðið undir þeim og þau hafa orðið að stöðvast. Þess vegna er það svo nú, að það liggur við, að eigi að fara að innheimta harðlega af mönnum svo og svo mikið af kröfum. Víða úti um land á að fara að heimta inn skuldir og ganga hart að mönnum vegna fyrirtækja, sem sumpart eru að fara um eða á þeirri leið að fara um. Í mínu litla kjördæmi eru 2 slík fyrirtæki. Það mun vera þannig um marga, sem þarna eiga hlut að máli, að lánsstofnanir hafa selt þessar skuldir til einhverra, sem gera sér að atvinnu að innheimta skuldir og reyna að hafa upp úr því. Þessir menn hafa ekki þá aðstöðu eins og stofnanir, sem hv. þm. vitnaði í, „solid“ verzlunarfyrirtæki, sem hugsa til áframhaldandi viðskipta. Þar sem þessir menn ætla ekki að halda áfram viðskiptum, þá ganga þeir helzt að mönnum til þess að fá það, sem þeir eiga, því að síðar geta þeir e. t. v. ekki fengið neitt. í mínu litla kjördæmi stendur svo á um hálft héraðið. Við getum borið niður á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum, þar sem svipað stendur á, og ég hygg einnig í kjördæmi hv. þm. Snæf. og víðar. Í mínu kjördæmi mega menn horfa upp á það, hvernig gengið er að fólki, sem stendur í skuldum við fyrirtæki, sem ekki er hægt að reka lengur. Það getur legið fyrir, ef engin löggjöf er sett og ef fullri hörku er beitt, að það verði leyst upp svo og svo mörg heimili og menn reknir frá búum sínum og teknar frá þeim skepnurnar og seldar á uppboði og látnar fyrir lítið verð. Ég veit, að það er víða um landið, sem þessu er þannig varið.