26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Páll Hermannsson):

Mér hefir skilizt á þeim hv. þdm., sem hér hafa tekið til máls, að þeir tali um frv. í þeirri mynd, sem það hefir nú, og virði hlutina fyrir sér í sambandi við frv. óbreytt, en taki það ekki eins og n. hefir með brtt. sínum lagt til, að það yrði. Það hefir t. d. verið talað um það, að mótorbátar væru keyptir og þyrfti að veita greiðslufrest á andvirði þeirra, en nú leggur n. til, að heimild til greiðslufrests fyrir bátaútveginn verði numin burt úr frv. N. leggur þannig til, að þrengd verði ákvæði frv. Höfuðtilgangur frv. er sá, að koma í veg fyrir, að svo hart verði gengið að framleiðendum, að þeir geti ekki lengur stundað atvinnurekstur sinn og lendi því í hópi þeirra manna, sem enga atvinnu hafa. Það eru atvinnurekendur, sem fyrst og fremst þurfa á þessari vernd að halda, því að þeir verða að hafa undir höndum talsverð verðmæti, sem ekki má af þeim taka, ef þeir eiga að geta rekið atvinnu sína áfram. Sama held ég að megi segja um þá brtt. hv. 2. landsk., að frv. skuli ekki ná til ógreidds verkakaups. Það mætti segja, að sú brtt. gæti verið réttmæt, ef frv. yrði samþ. þannig, að gjaldfresturinn næði til bátaútvegsins, en ef till. n. yrði samþ., að hann nái aðeins til landbúnaðarins, þá get ég ekki séð, að þessi brtt. hv. 2. landsk. hafi neitt að þýða, því að yfirleitt mun vera mjög lítið um það, að bændur eigi ógreitt kaup til verkafólks.

Þá var hv. 2. landsk. að spyrjast fyrir um það, hvort till. n. væru í samræmi við uppástungur bankastjóranna. Ég skal upplýsa það, að n. hefir að sumu leyti farið eftir till. þeirra, en að sumu leyti ekki. T. d. eru það eindregin tilmæli bankastjóranna, að bátaútvegurinn sé ekki tekinn með í þessu frv., af því að þeir álíta, að í framkvæmdinni mundi það reynast svo, að ómögulegt væri að veita bátaútveginum þessa vernd, viðskipti þeirra væru svo víðtæk, að ómögulegt væri að koma þessum reglum þar að.

Bankastjórarnir komu líka með þær uppástungur, sem n. hefir ekki viljað bera fram, t. d. að ein n. yrði skipuð fyrir allt landið til þess að hafa þessi málefni með höndum. Þetta vildi n. ekki fallast á. Hún áleit, að ein n. fyrir allt landið yrði svo seinvirk, að hún kæmi ekki að nokkru haldi.

Þetta, sem ég hefi nú sagt, gildir að nokkru leyti líka um það, sem hv. 1. landsk. sagði. Ef frv. yrði breytt eins og n. leggur til, ættu sumar af hans aths. ekki við. Öðru máli er að gegna um það, sem hann sagði um 16. gr. Í upphafi þessarar umr. hafði landbn. lagt til, að síðari málsl. 16. gr. felli niður, því að eins og hv. 1. landsk. orðaði það, þá er engin vernd veitt þeim lánsstofnunum og öðrum lánardrottnum, sem kynnu að verða fyrir barðinu á þessu frv., ef það yrði að lögum. N. sá ekki fært að veita t. d. kaupmönnum og kaupfélögum og öðrum, sem kynnu að hafa einhver óþægindi af þessu, þá vernd, sem ef til vill mætti segja, að þeir hefðu rétt til. Hv. þm. sagði, að sú brtt., sem n. ber nú fram, gengi í öfuga átt við bendingar sínar. Það er líka eðlilegt, af því að n. hugsaði sér upphaflega að fella þetta ákvæði alveg niður, en hv. 1. landsk. hefir litið svo á, að í rauninni þyrfti að gera þessi ákvæði víðtækari. Nú hefir n. slegið af sínum fyrri kröfum, að fella þessa málsgr. alveg niður, svo að eftir því, sem n. leggur til nú þá getur atvmrh. úrskurðað, að bú þeirra verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta, ef hægt er að sýna fram á, að þeim hafi stafað veruleg óþægindi eða örðugleikar af framkvæmd þessara laga. Með þessari brtt. er sleginn varnagli við því, að þetta sé gert, nema ástæða þyki til, því að atvmrh. á í hvert skipti að meta, hvort ástæða sé til að veita lánsstofnunum þessa vernd, sem felst í síðari málsl. 16. gr.

Hv. 1. landsk. sagði, að sú stj., sem setið hefði að völdum að undanförnu, hefði verið svo hlutdræg, að það mætti ekki eiga sér stað, að slíkt vald væri lagt upp í hendurnar á henni. Það er nú að verða opinbert leyndarmal, að þessi stj., sem hv. þm. talaði um, verður að líkindum ekki við völd nú framvegis. Þetta veit hv. 1. landsk. eins og aðrir, og þarf hann því ekki að óttast, að þessi stj. fremji nú framvegis neitt ranglæti í sambandi við þetta. Er því þessi ótti hv. þm. að þessu leyti ástæðulaus og ekki vel viðeigandi.