28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Magnússon:

Ég vakti athygli á því við 2. umr., að eftir orðalagi 16. gr. eru þær lánsstofnanir eða verzlunarfyrirtæki, sem lenda í greiðsluörðugleikum vegna ákvæða þessara laga, vernduð fyrir því, að bú þeirra verið tekin til skiptameðferðar meðan lögin eru í gildi, ef skattaframtöl þeirra sýna, að þau eigi fyrir skuldum. Hinsvegar er ekkert í þessari gr., sem hamlar því, að einstakir skuldheimtumenn geri aðför hjá þessum fyrirtækjum. Gæti því farið svo, að einn eða fáir af skuldheimtumönnunum næðu í allar eignirnar, sem til væru, en hinir sætu eftir með ekki neitt. Hafa verið gerðar tilraunir til þess að lagfæra þetta, en hv. dm. hafa litið svo á, að ekki væri ástæða til þess og felldu brtt. þær, sem fram hafa komið í því skyni að kippa þessu í lag, en hinsvegar hafa þeir samþ. frv.-greinarnar. Ég álít ósæmilegt af Alþingi að samþ. svona ákvæði, því að þau brjóta í bága við ákvæði í hegningarlögunum, er leggja refsingu á menn fyrir að gera skuldheimtumönnum sínum mishátt undir höfði, en með þessu ákvæði er raunverulega verið að löghelga þann verknað.

Eftir frv. nær fresturinn aðeins til þeirra skulda, er stofnað hefir verið til fyrir 1. jan. 1932, en ekki þeirra, sem yngri eru. Þeir menn, sem eiga yngri kröfur á þessa atvinnurekendur, geta þá fengið dóm á skuldunautana, gengið að þeim og gert þá insolvent, eða ófæra um að borga skuldir sínar, enda þótt þeir hafi átt fyrir skuldum, þegar þeir fengu gjaldfrestinn. Það er alkunnugt, að nauðungaruppboð gefa sjaldan sannvirði þeirra hluta, sem seldir eru. Þessir ágallar eru í mínum augum einir út af fyrir sig svo miklir, að frv. er öldungis ófært til þess að verða að lögum.