03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi flutt hér brtt. á þskj. 822 viðvíkjandi Menningarsjóði. Það liggja hér fyrir aðrar till. um sjóðinn og m. a. ein varatill. frá hv. 1. landsk., sem ég vildi raunar heldur en mína, en býst við, að hún hafi minna fylgi og að mín verði fremur samþ. en hans varatill. Eins og hv. 1. landsk. tók fram, þá hefir Menningarsjóður nú síðustu 4 árin fyllt það skarð í okkar þjóðlífi, sem ekki hafði verið hugsað um að fylla áður. Við vitum, að fram að þeim tíma var frá ríkisins hálfu nálega enginn markaður fyrir listaverk okkar listamanna. Þessi markaður er að vísu lítill ennþá, en þó það bezta, sem listamennirnir hafa, og að sama skapi auðgast þjóðfélagið að listaverkum. Nú er þetta svo lítil upphæð, að jafnvel í góðærum er ekki hægt mikið með hana að gera. Og þegar lítið er til þess, með hve mikilli elju og forn listamenn landsins berjast sinni baráttu, bæði á námsárunum og síðar, þá held ég, að deildin ætti að hugsa sig tvisvar um áður en hún lækkar verulega þennan litla sjóð, sem er hið eina, sem landið leggur til í því skyni.

Nokkuð sama er að segja um þann hluta sjóðsins, sem gengur til þess að rannsaka náttúru landsins. Þegar fyrsti náttúrufræðingurinn okkar á síðasta mannsaldri — Þorvaldur Thoroddsen — hóf sínar rannsóknarferðir um landið, naut hann að vísu mjög mikils álits í landinu, en þó var stöðug barátta um það, hvort hann ætti að fá þennan litla styrk, er hann fékk til ferðanna, sem stundum var veittur, en var stundum felldur niður. Þetta sýnir, hve miklum erfiðleikum starfið var bundið. Og þeir hafa ekki minnkað. Við háskólann er ekkert embætti fyrir náttúrufræðing. En þessi sjóður er byrjaður að styðja hina ungu náttúrufræðinga á þann hatt, sem aldrei hefir verið gert áður. Þar sem menn finna það, að á þessum krepputímum þurfi að gera nokkuð fyrir bændur landsins, fyrir atvinnurekendur við sjóinn, fyrir verkamennina, þá vildi ég jafna þessum tveim stéttum, listamönnum og náttúrufræðingum, við þá, og þeir eru sannarlega ekki betur staddir, enda er þetta svo lítið, sem hér um ræðir, að það munar ekki neinu verulegu fyrir þjóðarbúskapinn.

Um þriðju deild sjóðsins, sem vinnur að bókaútgáfu, er hið sama að segja, og hún er farin að bera mestan ávöxt fyrir almenning að því leyti, að sjóðurinn hefir nú þegar gefið út margar góðar bækur.

Í haust kemur þar út lögbók Íslendinga, ein hin þýðingarmesta bók, sem gefin hefir verið út hér á landi um margra ára bil. Það er afarerfitt fyrir rithofunda landsins að fá bækur gefnar út hjá forleggjurum nú sem stendur. Erfiðleikarnir eru það miklir, að þessi litli sjóður stendur undir talsverðu af þeirri bókaútgáfu, sem um er að ræða í harðærinu. ég hefi því orðað þetta þannig til þess að koma til móts við þá, sem hafa eitthvað viljað lækka þetta, að leggja til, að 1/4 teknanna gangi til ríkisins fram til ársloka 1933. Ég geri þessa till. einungis af því, að ég hefi meiri von um, að þetta verði samþ., heldur en varatill. hv. 1. landsk., og seinni hl. till. minnar lýtur einnig að því, að lögin um Menningarsjóð gera ráð fyrir því, að reikningsskil sjóðsins séu 15. apríl ár hvert og að þessi reikningsskil hafa verið gerið nú, þannig að ef ekki fengist helmingur af tekjum sjóðsins fyrir yfirstandandi ár, þá yrði sjóðsstjórnin í vandræðum með verk, sem hún hefði byrjað á, og menn, sem hún hefir samið við, sérstaklega af því að hún gerði a. m. k. ráð fyrir, að sjóðurinn stæði óbreyttur þetta fram á árið. Það þarf ekki langar ræður um þetta, og ég ætla ekki að bæta neinu við það, en tel þó töluvert betra, að till. á þskj. 822 verði samþ. heldur en frv. eins og það er nú, ef menn ekki vilja samþ. varatill., sem leggur til, að gr. falli alveg niður.

Þá vildi ég minnast á till. hv. 1. þm. Reykv., sem ég hefi ekki orðið var við, að hann hafi mælt fyrir. Það er svo með þennan lið, eins og svo marga aðra, að ég hefi einungis getað fengið mig til að greiða atkv. með frv. vegna hinna alveg sérstöku erfiðleika, sem landið á í, og af því, að sú stofnun, sem þessi lög eru að undirbúa — þjóðleikhúsið —, er komin yfir hinn hættulega punkt, og að héðan af verður ekki hætt við það, eins og lá við borð fyrir tveim árum, þegar andstæðingur leikhússmálsins vildu fresta framkvæmdum til þess að ná sjóðnum til annara hluta. Ég vil því taka það fram, að ég álít það að vísu fullkomlega eðlilegt, að hv. 1. þm. Reykv. komi með þessa till., og ég hefði hiklaust fylgt henni, ef ég áliti ekki, að málinu sé nú þó svo borgið, að það yrði ekki eyðilegging, þótt framlag til byggingarinnar falli niður 1–11/2 ár.

Út af till. um byggingar- og landnámssjóð og verkamannabústaðina er það mála sannast, að það er alveg sérstakt neyðarúrræði að fella niður fjárframlag til þeirra. Ef batnaði í ári t. d. nú í sumar og vörusalan í haust yrði betri en viðbúið er, þá álít ég sjálfsagt að taka þessa breyt. aftur á þinginu í vetur, vegna þess, að umbætur á húsakynnum hinna starfandi manna í kaupstöðum og sveitum er eitt hið þýðingarmesta þjóðmál. En eins og ástandið er nú, þá hefir og byggingum viða á landinu verið frestað vegna kreppunnar. En ef lögin um byggingar- og landnámssjóð stæðu óbreytt, þá myndi sjóðurinn eflast og meira verða byggt aftur seinna. Það er að vísu sárt fyrir stuðningsmenn þessa máls að sjá þessa hreyt. gerða, þótt um stundarsakir sé, en þar sem þetta er að nokkru leyti gert til þess að greiða fyrir bændum landsins vegna kreppunnar, þá réttlæti ég mína atkvgr. í þessu máli með því, að sveitafólkinu liggi ennþá meira á þessu augnabliksgagni, hjálp til vaxtagreiðslu, en hinu, sem er stærra framtíðarmál, sem þó verður ekki fullnægt neitt verulega eins og stendur. Ég mun því greiða atkv. með þeim lið, sem um þetta fjallar, en vil þó hugsa mér hann möguleika, að árferði og kringumstæður geti breytzt þannig, að ég óski, að málið verði aftur tekið til meðferðar og breytt í sitt fyrra horf á næsta þingi.