04.06.1932
Neðri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Fjhn. þessarar d. bar hér fram frv. samkv. tilmælum mínum um verðtoll af tóbaksvörum, og var tilgangurinn með því frv. sá, að afla ríkissjóði aukinna tekna með verðtolli af tóbakinu, og ætlaðist ég til, að tóbakseinkasalan gæti haldið sínum ágóða, sem rynni í byggingar- og landnámssjóð og til verkamannabústaðanna, eftir sem áður, og kæmi þetta fram í verðhækkun á tóbakinu. En eins og hv. þdm. er kunnugt, var þetta frv. fellt í Ed., og varð það til þess, að ég snerist til fylgis við þennan lið þessa frv. eins og hann er. — Eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, hefi ég lýst yfir því, að ég muni ekki lata 1. verka aftur fyrir sig, en framkvæma þau þannig, að verkamannabústaðirnir fái það tillag, sem þeim ber af ágóða einkasölunnar og fallið verður í þeirra hlut, þegar l. ganga í gildi, og stendur þetta enn óbreytt af minni hálfu, ef ekki verða gerðar aðrar breyt. á þessum lið frv. en sú, sem ég nú mun bera fram, og er á þá leið, að tekjur tóbakseinkasölunnar skuli ekki renna lengur í ríkissjóð en til 1. júlí 1933, í stað þess, að þetta er nú bundið við árslok 1933, eins og frv. enn er. Þykir mér sem þessi linkind ætti að vera fullnægjandi fyrir hv. Alþýðuflokksmenn, og vænti ég því góðra undirtekta frá þeim um þetta.