18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

3. mál, landsreikningar 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [frh.]:

Þegar umr. var frestað í gær, var og að fara í gegnum aths. yfirskoðunarmanna LR., og skal nú halda því áfram.

Ég var kominn út að 33. aths., út af kostnaði þeim, nálægt 50000 kr., sem raunverulega höfðu farið til Reykjahælis í Ölfusi, en verið skrifaðar á landsspítalann. En af því að hv. 2. þm. Skagf. hefir farið nokkrum orðum um þetta í sambandi við fjáraukalagafrv., þá get ég að mestu leyti sparað mér að tala frekar um þetta. En hér er vitaskuld um hvorttveggja að ræða, að fyrir þessari greiðslu er engin heimild, og svo hitt, að hér er beinlínis um ranga færslu LR. að ræða, og það í miklu stxrri stíl en ég áður nefndi, þar sem vátryggingargjaldið á róðrarbátnum á Laugarvatni var fært á sótaragjöld o. fl. á húseignum ríkisins í Reykjavík. Þetta er náttúrlega í sjálfu sér alveg óhæfilegt, og þá alveg sérstaklega þegar það er bersýnilegt, að með þessu er verið að fela fjárhæð, sem eytt er umfram allar heimildir.

Ég skal nú ekki segja, til hvers þessar 50 þús. kr. hafa farið; ég er því ekki kunnugur. En ég hefi heyrt, að þarna í muni vera m. a. kostnaðurinn við það, að gróðurhús landsspítalans —– (JAJ: Það var gróðurhúsið á Vífilsstöðum.) — já, það er rétt, það var gróðurhúsið á Vífilsstöðum, sem var flutt austur að Reykjum í Ölfusi, og kostnaðurinn við það var skrifaður á Vífilsstaðahælið, svo hann er nú ekki þarna í. En þetta er náttúrlega ákaflega einkennileg regla, ef á að fara að taka hana upp, að sá er látinn borga hlutinn, sem lætur hann af hendi. Það er alveg eins og ef ég seldi húsið mitt og ætti svo að borga það líka. Þetta er að vísu að taka úr einum vasanum og láta í annan, þar sem ríkið á báðar stofnanirnar, en það er þó til að rugla allar skýrslur um kostnaðinn við hverja einstaka stofnun ríkisins, og má slíkt alls ekki eiga sér stað.

Þetta er í svari stj. fóðrað með því, að nú sé landsspítalinn að setja upp framleiðsludeild á Reykjum, og er sagt í svarinu, að það sé stórfé, sem landsspítalinn spari á því árlega að hafa þessa framleiðsludeild þarna austur í Ölfusi. En ég er hræddur um, að það komi fram á sínum tíma, að reikningurinn yfir húreksturinn þarna á Reykjum sýni allt annað en sparnað.

Þá skal ég aðeins minnast á 39. aths. Hún er um 2845 kr., sem borgaðar hafa verið Sigurði Einarssyni, sem áður var prestur, fyrir eftirlit með húsnæði ýmsra skóla. Hér er auðsjáanlega um að ræða eina af þessum borgunum, sem þannig stendur á, að einhver maður þarf að fá fé, og þá er sjálfsagt að finna eitthvert málamyndastarf handa honum. Þegar svo stj. sá, hvílík vandræði það voru að foðra þetta, hefir hún gert sér hægt um hönd og bent á einn skólann, sem sé verzlunarskólann, og sagt, að hann hafi tekið sér til inntekta þessa gagnrýni prestsins á húsnæðinu, svo sem vera bar, og komið sér upp nýju húsnæði.

Þetta er auðvitað allt saman eins mikil fjarstæða og það getur verið, og er mér ákaflega vel kunnugt um það, því ég hefi verið í skólanefnd verzlunarskólans nú um nokkuð mörg ár. Og ég get upplýst það, að það var mörgum árum áður en þessi maður, sem ég hefi annars ekkert á móti — hann var sjálfsagt eins hæfur og einhver annar til að hafa þetta húsnæðiseftirlit, ef þess hefði verið nokkur þörf — á að hafa verið að gagnrýna þetta húsnæði, sem skólanefndin var búin að sjá, að það væri mjög ófullkomið. Og það, sem stóð í vegi fyrir, að úr því yrði bætt, var eingöngu fjárhagsatriði. Það var hvað eftir annað reynt að ná kaupum á húsum, sem þóttu heppileg skólasetur, en fjársöfnun til þeirra kaupa strandaði alltaf. En svo tókst þetta loks, og það var safnað nokkru fé og ráðizt í að kaupa það hús, sem skólinn er nú fluttur í, og eru þau kaup gersamlega óviðkomandi eftirliti þessa húsnæðisgagnrýnanda stj.

Hér er því bersýnilega um að ræða fjárveitingu, sem var algerlega óheimil og gersamlega gagnslaus. Það er hrein fjársóun í heimildarleysi. Upphæðin er að vísu ekki stór, en „á mjóum þvengjum . . . . “. Og það gerir ekki svo mikinn mun, hvort það er stórt eða lítið, þó auðvitað að réttu lagi eigi að segjast meira á því, sem mikið er.

Þá kem ég að 43. aths. yfirskoðunarananna, um Arnarhólstúnið, og er reyndar ekki mikið um hana að segja, en dálítið er þó gaman að athuga það, að Arnarhólstúnið er metið til eignar á 1141 þús. kr., en tekjur af því hafa orðið kr. 10,05. Það er næstum gaman að þessari nákvæmni, að 5 aurarnir skyldu nú ekki einu sinni týnast; það sýnir, að það er svo sem haldið vel utan um féð ! ! !

Þá er ekki síður gaman að svari hæstv. dómsmrh. við aths., því að það er með nokkuð nýstárlegum blæ. Og af því að það er gaman að því, ætla ég að lesa úr svarinu. Hann byrjar á að tala um, að þarna hafi verið sett upp mynd hins fyrsta landnámsmanns. Svo kemur, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrstu árin eftir að mynd þessi var reist, var ekkert hirt um blettinn og myndina. Sóðaskapur hinn mesti var oft sýnilegur við myndastyttuna, og bletturinn í kring að fara í flag. Ómerkileg girðing var í kring, og „draugur“ í hliðinu, þar sem gengið var upp að styttu Ingólfs“.

Við könnumst nú svo vel við þetta, Reykvíkingar, því á Arnarhóli er nú komið hlið í staðinn fyrir „drauginn“, og hafa birzt af þessu myndir í verkunum, sem töluðu, bæði á fundum og annarsstaðar.

Svo stendur ennfremur: „Er það eini gróni völlurinn, sem börn höfuðstaðarins eiga aðgang að“. — Ekki er nú mikið sagt. Að vísu er ekki ofmikið af grónum blettum hér í bænum, og það er náttúrlega allt of lítið um leikvelli, en víðar sjást þó börn á grónum völlum en á Arnarhólstúni, enda þarf þess við, því hann, er ekki mjög mikið notaður, gróni bletturinn sá.

49. aths. hefir hv. 2. þm. Skagf. minnzt nokkuð á, enda er hann kunnugri því máli en ég, en aths. fjallar um byggingu Arnarhváls. En þarna er bersýnilega um tvennskonar brot að ræða. Annað er það, að byggingin fer stórkostlega fram úr því, sem heimilað var, að hún mætti kosta, en það voru 225 þús. kr., en hún hefir kostað kr. 363100,73, og svo var það beinlínis sett að skilyrði, að þetta húsnæði yrði ódýrara en það, sem áður var notað. En nú er það komið í ljós, að það húsnæði, sem skrifstofurnar nú hafa hjá landinu, er miklu dýrara en það, sem þær höfðu hjá sjálfum embættismönnunum hingað og þangað um bæinn, og sem fjargviðrast var mest um, að þeir skyldu leigja skrifstofupláss hjá sjálfum sér. Það eru að vísu þægindi að hafa allar þessar skrifstofur á einum stað, en þó er það aðgætandi, að staðurinn er alls ekki hentugur. Það er að vísu ekki löng leið þarna upp eftir, en þó svo löng, að menn finna til þess að fara þetta, í stað þess að þeir gátu rækt sín erindi hér niðri í bæ áður. Ef menn hafa t. d. 3 korter eða klukkutíma yfir að ráða, eins og venjulegt er — ég þekki þetta svo vel, því ég hefi venjulega 1 klukkutíma til miðdags, og þarf þá ýmislegt að útrétta —, þá er mikill munur að geta rækt öll sín erindi hér niðri í miðbæ eða að þurfa að fara upp í Arnarhvál til þess.

Svo er nú þess utan, sem stj. á nú náttúrlega ekki sök á, að húsið hefir mistekizt að öðru leyti; þannig hefir t. d. gengið í það vatn og valdið Skemmdum. Svo einnig að þessu leyti er það mislukkað.

En hvað sem því líður, þá er það bersýnilegt, að stj. hefir ekki haft neina heimild til að eyða meira fé í húsið en 225 þús. kr., eða eiginlega að reisa húsið, úr því svona fór, að leigan fyrir skrifstofurnar í því varð dýrari en áður var.

Þá er það nú síldarbræðslustöðin á Siglufirði. Ég þarf ekki mikið meira um hana að segja en búið er; ég minntist á hana við umr. um fjáraukal., og hv. 2. þm. Skagf. líka. Þetta er náttúrlega langstærsta upphæðin. Þarna hefir verið eytt um þriðjungi meira í eina verksmiðju en leyft var að nota til að byggja fleiri verksmiðjur. Þetta sýnir, að það er ekki varlegt að leggja út í svona fyrirtæki meðan ekki hefir verið gerður nema ófullkominn undirbúningur og áætlanir.

Í 59. aths. spyrjast yfirskoðunarmenn LR. fyrir um það, hvernig standi á mismun, liðlega 40 þús. kr., sem ber á milli skipaútgerðar ríkisins og reiknings landhelgissjóðs um kostnað vegna landhelgisgæzlunnar. Svarið er, að þetta sé fyrir risnu. Ef menn muna eftir, hve mikið var talað um það áður, að stj. greiddi hestahald úr landhelgissjóði og ýmislegt annað, þá mun mörgum finnast það undarlegt, að sömu mennirnir, sem héldu uppi ádeilum um þessi efni fyrir nokkrum árum, skuli nú þurfa ekki minna en 40 þús. kr. til risnu, og eyða þessu úr landhelgissjóði. Það stendur sem sé í svarinu:

„Umræddur mismunur er kostnaður við risnu, bifreiðar, hestahald og fleira, sem greitt er að öllu úr landhelgissjóði“. Svo er sagt, að grg. fylgi. Ég hefi nú ekki séð hana, en þessa nánari grg. hafa yfirskoðunarmennirnir sjálfsagt fengið.

Svo er nú náttúrlega aths. eins endurskoðandans, Magnúsar Guðmundssonar, hv. 2. þm. Skagf., um Laugarvatnsskólann. Ég skal ekki fara út í að ræða hana framar en gert hefir verið, enda geri ég ráð fyrir, að hann geri það, því hann er kunnugri þeim hnútum en ég. En það er augljóst af aths. hans, að til skólans hefir verið varið greipilega miklu fé algerlega umfram allar heimildir, og má auðvitað ekki við svo búið standa.

Hann dregur rétta fram í 3 liðum:

1. að ríkissjóður hefir lagt fram miklu meira en helming,

2. að margfalt meira hefir verið eytt en fjárlög heimiluðu, og

3. að framlagið á móti hefir ekki verið tryggt.

Svar hæstv. dómsmrh. er sennilega alveg gersamlega einstakt í sinni röð sem svar við aths. við landsreikning. Það er ein ógurlega löng Tímagrein um nærri því að segja allt mögulegt milli himins og jarðar annað en það, sem það á að vera um. Það er byrjað á vísindalegum fróðleik um það, hverjar verið hafi tekjur Skálholtsskóla til forna, og á þeim fróðleik reisir svo ráðh. sögulega kröfu Suðurlandsundirlendisins til þess að fá sinn skóla. En á fjárveitingu eða fjárlagaheimild frá Alþingi til skólans er ekki minnzt einu orði í svarinu. Um það vantar allar skýringar. Þar er t. d. meðal annars beint tekið fram, að veitt skuli til skólans helmingur kostnaðar, allt að vissu hámarki. Og hæstv. dómsmrh. var á þeirri skoðun þegar verið var að byggja sundhöllina í Rvík. þá voru veittar 100 þús. kr. úr ríkissjóði og ekki meira, þó það nægði ekki til að greiða helming kostnaðar. Gagnvart Laugarvatnsskólanum hefir ráðh. allt annan skilning; þar segir hann, þó að aðeins hafi verið til hans veittar 30 þús. kr., þá sé heimilt að greiða til skólans hundruð þúsunda, ef þarf til þess að ríkissjóður greiði helming kostnaðar. En þó tekur alveg út yfir, þegar farið er að athuga reikning yfir stofnkostnað Laugarvatnsskóla. Þá eru þar t. d. ýmsir liðir, sem alls ekki geta talizt til stofnkostnaðar, eins og t. d. listaverk og málverk, sem skólanum hafa verið gefin og virt eru á 6150 kr. Slíkt getur vitanlega ekki talizt til stofnkostnaðar. Þá má nefna leikfimishús, sem byggt var árið 1931 og kostaði að sögn 20 þús. kr. Eftir því sem mér er bezt kunnugt, þá var þessi bygging fyrst reist sem sýningarskáli árið 1930 og stóð þá hérna bak við alþingishúsið. Þessi skáli var svo rifinn og fluttur austur. Ég skal ekki segja um það, hvort þetta er allur kostnaðurinn við þetta leikfimishús, fyrir utan það, að nemendur skólans unnu að því að rífa skálann hér og byggja hann austur frá, en það er a. m. k. víst, að ekki hefir nærri eins mikið verið lagt til þessa húss frá oðrum og þetta tillag ríkissjóðs nemur. Hitt er rétt, að nemendur skólans unnu mikið að byggingu þessa húss. Ráðh. segir, að þeir hafi framkvæmt það á sama tíma og nemendur sumra annara skóla hafi setið á gildaskála við tóbaksreykingar og víndrykkju. þetta er náttúrlega fullyrðing út í loftið og alveg eins hægt að segja, að þeir nemendur, sem ráðh. miðar við, hafi einmitt á þessum tíma verið að nema og lesa. Hitt er aftur kunnugt, að það hefir orðið vart við mikla óánægju meðal nemenda og aðstandenda þeirra út af þessari vinnu, út af því, að nemendurnir skyldu vera teknir til þessara þegnskyldustarfa frá lærdóminum. Hópur af þeim var sendur hingað, til Rvíkur til þess að rífa skúrinn, en aðrir unnu fyrir austan að uppsetningu leikfimishússins. Nemendur og aðstandendur þeirra litu svo á, að þeir væru ekki sendir í skólann til þessa starfa, heldur til að læra.

Langmerkilegasti liðurinn í stofnkostnaði skólans er þó hitareikningurinn. Ráðherrann reiknar sem sé hverahitann með stofnkostnaði skólans og metur hann á 311067 kr. sem tillag frá héraðinu, og út frá þessu mati kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ennþá eigi ríkið eftir að leggja geysimikið til skólans til þess að kosta hann að hálfu. Matsverðið á hitanum ákveður ráðh. með því að gera samanburð á því, hvað kostað hefði að framleiða hitann með kolum, sem búið væri að flytja austur að Laugarvatni. Sá kostnaður verður árlega 18664 kr., sem hann lítur á sem vexti af þeim höfuðstól, er felist í hitanum og verður þá 311 þús. kr. Hann líkir þessu við það, ef grafið hefði verið í jörð á skólalóðinni og þar fundizt 311 þús. kr. Ég get helzt líkt þessari hugmynd við frásögn, er ég sá í blaði nýlega um einn íslenzkan listamann, er virti öll íslenzk listaverk frá landnámstíð til vorra daga 50 millj. kr. virði. Þeir menn, sem framleiddu þessi listaverk, hafa sama sem ekkert verið styrktir, segir hann, en nú gefa þeir þjóðinni þessi 50 millj. kr. verðmæti. En um leið og hann framvísar þessari merkilegu gjöf, þá fer hann fram á, að ríkið endurgreiði listamönnunum örlitla upphæð samanborið við gjöfina, aðeins 2 millj. kr., sem varið verði til þess að byggja yfir listasöfnin viðunanlegt hús o. fl. Það er ekki alveg ólíkt með 300 þús. kr. hitann á Laugarvatni. Annars verður dálítill árekstur, ef ætti að fara að heimfæra uppgerð hitareikninganna á sama hátt upp á suma aðra alþýðuskóla, t. d. Reykholtsskóla og Reykjaskóla. Á báðum þeim stöðum hefir ríkið lagt til hitann, og hygg ég, að það geti orðið dálítið erfitt fyrir héruðin að leggja þar á móti ríkinu.

Þá skal ég ekki frekar fara út í einstök atriði frv. Ég byggi þá skoðun mína, að frv. eigi að fella, ekki fyrst og fremst á reim einstöku atriðum, sem ég hefi nú sérstaklega gert að umræðuefni, og sjálfsagt er fyrir þingið að samþykkja áminningar með þál. til stj., heldur á því almenna yfirliti, er ég gaf um landsreikninginn í upphafi ræðu minnar um þá gegndarlausu fjársóun stj. langt fram úr áætlunum og heimildum, sem átti sér stað á þessu ári. Alþingi þarf ekki að hugsa sér það, að það haldi virðingu sinni og valdi, ef það leggur blessun sína yfir slíka meðferð ríkisfjár, sem var hér árið 1930 og lengi mun verða í minnum höfð.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að svara ræðu hv. þm. V.-Húnv., þar sem hann talaði um alþingishátíðarnefndina. Ég er ekki sá rétti forsvarsmaður hennar, þótt ég sæti í henni, en ég álít, að það sé svo fjarri því, að nokkuð líkt hafi átt sér stað í störfum hennar því fjársukki, sem var í ríkissjóðnum 1930. Það var fráleitt því, að hátíðin yrði dýrari en búizt var við. Hv. þm. sagði, að n. hefði verið samhent í störfum, og það er rétt. Það var eindreginn vilji n. að gera hátíðina til sem mests sóma fyrir þjóðina og ánægju fyrir innlenda og erlenda gesti, en á hinn bóginn sem ódýrasta. Þó reyndist það, sem eðlilegt var, ekki mögulegt að komast hjá því, að einstöku kostnaðarliðir yrðu eitthvað hærri en búizt var við upphaflega, og ef nefndur endurskoðandi leitaði þannig í þeim þúsundum fylgiskjala, sem fylgja hátíðarreikningunum, þá fyndi hann eitt eða fleiri skjöl, er honum þætti óþefur að. Það hefir sérstaklega verið rætt um borgunina til þess manns, er fenginn var til þess að standa fyrir leiksýningunni á Þingvöllum. Ég skal játa það, að þessi greiðsla er nokkuð há; þó er þess að gæta, að maðurinn varði til þessa starfs mjög miklum tíma og lagði mikið á sig til þess að koma þessum þætti dagskrárinnar í sem bezt lag, enda tókst það vel. Ég talaði við mjög merka útlendinga á hátíðinni, sem þótti leiksýingin með því allra bezta, sem á boðstólum var á hátíðinni, og tóku langmest eftir henni. Við getum sagt, að sá, sem stjórnaði þessari merkilegu sýningu, hafi varið til undirbúningsins hálfu ári kannske meira —, en fyrir starf hans var greitt 6 þús. kr. Þegar hv. þm. er að tala um eyðslu hátíðarnefndarinnar, þá vildi ég bara, að hann ætti kost á að sjá alla þá tugi reikninga, sem n. vægðarlaust skar niður, reikninga, sem þó voru margir hverjir byggðir á venjulegum ástæðum, en þetta var gert af því, að n. hafði löngun til þess að gera hátíðina sem ódýrasta. Það, sem réð útkomunni, var vitanlega ekki, hvort greitt var 100 eða 1000 kr. meira eða minna fyrir örfáa, einstaka liði, heldur hitt sem meira var um vert, að eftirlitið var strangt; það komst enginn eldur í fé alþingishátíðarinnar, og það var nattúrlega ekki hvað sízt að þakka hinum ágæta framkvæmdarstjóra. Það hefir verið fengizt um það, að honum hafi verið borgað 15 þús. kr. fyrir sitt starf. Ég held nú, að það sé ómögulegt að hugsa sér, að hann hefði getað unnið það, sem hann vann, fyrir minni laun. Hann fór frá stórri verzlun, er hann rak, og ég trúi því vel, að hann hafi getað tapað á því öðru eins og því, sem hann hafði fyrir starf sitt. En hitt er ég viss um, að landið hefir sparað meira á því að hafa hann heldur en launin, sem hann fékk. Því að er ekki lengi að muna um hver 5–10 þús. kr. á jafnstórri veltu og alþingishátíðin hafði.

Þá talaði hv. þm. mikið um veizlu, sem n. hefði haldið sjálfri sér í starfslok. Hann talaði nú alltaf um 100 ára afmæli n., en það átti að vera 100 funda afmæli. Honum þótti afskaplegt að vita til þessarar veizlu og undraðist stórlega, hvað þessir sjö menn hefðu getað etið fyrir mikið. Ég verð nú að segja það, að þessi veizla læstist nú ekki fastar í mitt minni en það, að ég man heldur óglöggt eftir henni. (HJ: Ætli nokkrir muni eftir henni, sem voru þar?). Ég man, að í þessari veizlu voru fleiri menn en þeir, sem voru í n. Það voru ýmsir, sem höfðu unnið með n. án þess að fá nokkra borgun fyrir. Eins og allir vita, þá vann alþingishátíðarnefndin allt kauplaust. hún starfaði í 4 ár og hélt 100 fundi. Ef hún hefði verið milliþingan., þá hefðu bara fundirnir ekki kostað minna en 70–80 hús. kr. Maður ræðir nú í gamni um aðra eins hluti og þessa, þó n. gerðist svo djörf að halda sér þetta afmæli. Það er svo sem hliðstætt því, að bóndi, sem fengi fólkið sitt til þess að bjarga miklu heyi á sunnudegj, gæfi því svo á eftir kaffisopa með pönnukökum og kleinum. (MG: Ekki kleinum líka). Nei, það er satt, það væri of mikið. Það er ekki fyrr en eftir 4 ár, sem nefndin vogar það að halda einskonar „jubilæum“ eftir langt starf og vel af hendi leyst; það er svo sem ekkert ógurlegt. Hv. þm. tók það dæmi til samanburðar við þessa ógurlegu veizlu, ef Alþingi tæki nú upp á því að halda sér veizlu, ef það sæti í 100 daga. Það er svo gott að vita, að þetta hefir verið gert. Alþingi hefir haldið sjálfu sér veizlu og hún kostað hlutfallslega meira en þessi veizla, en svo er þetta tvennt ekkert sambærilegt. Ég hugsa, að ef alþm. ynnu allir kauplaust, þá þætti varla tiltökumál, þó þeir kæmu einu sinni saman sér til skemmtunar.

Annars var það mjög gleðilegt, að alþingishátíðarnefndarinnar var þó loksins opinberlega minnzt. T. d á sjálfri hátíðinni var það nú svo, að það voru flutt minni fyrir öllu mögulegu, meira að segja var farið niður í dýraríkið og mælt fyrir minni hestanna, en n. var ekkert minnzt. Það er mjög gleðilegt, að nú er loks úr þessu bætt og n. minnzt, Ég þá sérstaklega á þann hátt að finna að störfum hennar, þegar þá ekki finnst meira en raun er á, þó leitað sé af jafnglöggum og góðum endurskoðanda og hv. þm. V.-Húnv. er. Nei, fyrsta ræðan á hátíðinni átti að vera fyrir minni n., svo hefði átt að krossa n. með hinum hæstu krossum fyrir mikið og ágætt starf í 4 ár. Ég veit ekki, hvenær er ástæða til að krossa, ef ekki í slíkum tilfellum. Nei, n. starfaði í 4 ár og fékk ekki önnur laun en eina aths. í LR., og svo veizluna; það var þó gott, að hún tók veizluna. Annars vildi ég spyrja hv. þm. að því, hvort honum þyki alþingishátíðin hafa orðið dýr, t. d. samanborið við konungskomuna 1907. Ég býst við, að sú konungskoma hafi orðið álíka dýr og alþingishátíðin, þegar miðað er við mismunandi gengi peninganna. Það er þó ólíku saman að jafna. Á hátíðina var boðið fjölda af hefðarfólki erlendu og fulltrúum frá ýmsum þjóðum og ríkjum, og á hátíðinni mættu þetta frá 30 til 40 þús. manns. Þarna var kappkostað að hafa á boðstólum allt það bezta, sem kostur var á, svo sem músik, söng, ræðuhöld, íþróttir og allar þær skemmtanir, sem hér eru á boðstólum ég held, að það sé varla hægt að láta sér detta í hug, að hátíðin hefði getað orðið ódýrari. En mest af öllu er þd um það vert, hve hátíðin fór prýðilega fram. Það er náttúrlega ekki rétt að þakka n. Það eingöngu, en nokkru mun þar hafa valdið um, hve giftusamlega tókst val á framkvæmdarstjóranum og þar af leiðandi prýðilegt lag á allri stjórn hátíðarinnar eins og undirbúningnum. Það má t. d. nefna löggæzluna, sem var alveg annáluð. Þó eitthvað kunni að hafa mistekizt með einstök atriði, eins og t. d. tjaldstæðin, þá hygg ég, að varla sé hægt að búast við, að unnt sé að halda slíka þjóðhátíð sem þessa svo vel, að enginn þykist geta sett út á neitt. En sízt af öllu hygg ég hvað alþingishátíðina snertir, að hægt sé að finna að því, hve dýr hún hafi orðið, því hún kostaði víst áreiðanlega mikið minna en nokkurn hafði órað fyrir að mundi verða.