19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

3. mál, landsreikningar 1930

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

ég þarf ekki miklu að svara hv. 2. þm. Skagf. fyrir þær sakir, að hv. frsm. n. hefir gert það allrækilega. Út af umr., sem orðið hafa út af aths. yfirskoðunarmanna LR., vil ég taka það fram, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að það var vorkunn, þótt skrifstofustjórinn í fjmrn. villtist í ákvæðum l. nr. 16, frá 1925, um breyt. á l. frá 1919 um laun embættismanna, við ákvörðun á dýrtíðaruppbót til Jóns Hermannssonar. 1. gr. laganna hljóðar svo:

„Upphaf lagagreinarinnar skal orða svo: Auk hinna föstu launa fá allir embættis- og sýslunarmenn landsins, sem taldir eru í lögum þessum eða taka laun samkv. öðrum lögum, sem ekki ákveða sérstaklega um dýrtíðaruppbót, og sömuleiðis allir þeir, sem eftirlauna njóta samkv. eftirlaunalögum, eða biðlauna, til ársloka 1928 launabót, sem miða skal við verðhækkun á helztu lífsnauðsynjum“.

Menn taki eftir orðunum: „eða taka laun samkv. öðrum lögum“. Um þetta er ekkert að finna í aths. við frv. annað en það, að uppbótina fái einnig þeir, sem laun taka samkv. sérstökum lögum öðrum en launalögum.

Frsm. meiri hl. n., núv. hv. 4. þm. Reykv., segir:

„Þá er hitt atriðið, sem farið er fram á að breyta og nær eingöngu til þeirra manna, sem laun taka eftir öðrum lögum en launalögum. En undir þetta ákvæði falla aðeins ráðh.“

Síðan talar hann mikið mál um lág laun ráðh. og ver til þess 2 dálkum í Alþt. Þessu svarar þáv. fjmrh., Jón Þorláksson:

„Það gleður mig sérstaklega, að þurfa ekki að gera grein fyrir ástæðum þeim, sem liggja til grundvallar fyrir dýrtíðaruppbót af ráðherralaunum“.

Þá er það orðið uppvíst, að sú eina efnisbreyting, sem gerð er á þessum lögum, er sú, að laun ráðh. skuli falla undir ákvæðin um dýrtíðaruppbót. Hefi ég áður sagt, að rétt væri að taka þetta fram í lögunum sjálfum, úr því að einungis ráðh. er bætt við.

Af þessum ástæðum hefir sú meinloka slæðzt inn í stjórnarráðinu, að aðrir embættismenn en ráðh. falli líka undir þetta ákvæði. Þetta vildi ég taka fram út af orðum hv. 2. þm. Skagf. í 1. ræðu hans í gær. Virtist hann halda, að hér væri aðeins að ræða um framlengingu á þessum lögum, en það var líka um efnisbreytingu að ræða. Annars held ég, að ekki sé ágreiningur milli okkar og hv. fjhn. um þetta atriði, svo að það skiptir ekki mjög miklu máli.

Þá vildi ég aðeins minnast lítillega að það, sem hv. 2. þm. Skagf. hélt fram, að það gæti ekki komið til mála, að kostnaðurinn í stjórnarráðinu hefði aukizt vegna alþingishátíðarinnar. Ég veit, að hann er svo kunnugur því, sem þar er um að vera, að hann veit það, að í sambandi við svo stórfelldar framkvæmdir út á við hljóta störfin í stjórnarráðinu að hafa aukizt stórkostlega.

Og það er líka fleira en þetta, sem hefir valdið því, að störfin í stjórnarráðinu hafa vaxið. Ég vil benda á í því sambandi, að vegna allra þeirra margvíslegu ríkisstofnana, sem settar hafa verið á stofn á síðustu árum, hafa auðvitað störfin í stjórnarráðinu aukizt mikið. Þessar stofnanir standa í stöðugu sambandi við skrifstofur þær í stjórnarráðinu, sem þær heyra undir. Og þeirra vegna eru allskonar störf í stjórnarráðinu orðin aukin frá því, sem var. Ég vil taka til dæmis landsspítalann, útvarpið, ríkisútgerðina og landssmiðjuna, sem standa í stöðugu sambandi við stjórnarráðið og auka náttúrlega störfin þar. Ennfremur alla héraðsskólana og Litla-Hraun, sem talsverð vinna er við í stjórnarráðinu. (MG: Og er þetta allt út af alþingishátíðinni?). Nei, ég var að tala um það í sambandi við það, að störfin í stjórnarráðinu hafa farið vaxandi. En við það, að störfin í stjórnarráðinu hafi farið vaxandi, er það gefið, að kostnaðurinn við aukastörf þar hefir vaxið.

Þá var það eitt lítilsháttar atriði, sem hv. 2. þm. Skagf. var að reyna að gera broslegt, það var út af formi landsreikningsins í efnahagsreikningnum. Hann hélt, að sumar eignir ríkisins, eins og t. d. húsin, mundu ekki hreyfa sig mikið, rétt eins og hann hefði búizt við, að þau mundu við og við taka sig upp og fara að spássera um götur bæjarins eða um hinar dreifðu byggðir landsins. Ég hélt, að hann hefði aldrei gert sér þá hugmynd um þennan lið, eignahreyfingarnar, að nafnið væri tilkomið af því, að eignir ríkisins væri á einhverju flakki fram og aftur, heldur af því, að eignir ríkissjóðs breytist, þannig að sjóðeign hans er breytt í þessar stofnanir, eða þá öfugt, þegar fasteignir eru seldar og þannig breytt í peninga, sem kunna svo aftur að breytast í eitthvað annað. Þetta eru eignahreyfingar. Eignabreyting mætti líka kalla það. Ég fyrir mitt leyti felli mig vel við orðið eignahreyfing. Það er ekki nema réttmætt að draga þessar eignahreyfingar út úr sjálfum rekstrinum, því annars kemur rekstrarreikningurinn til með að sýna óeðlilega útkomu, ef þessar upphæðir eru færðar á hann, sem koma rekstrinum ekkert við. Því það er eins með rekstur ríkisins eins og rekstur einstaklinga, að það má ekki rugla saman því, sem er rekstur, og því, sem ekkert kemur rekstrinum við. Það mundu allir álíta fordæmanlegt í einstaklingsrekstri. Og úr því það er fordæmanlegt í einstaklingsrekstri, þá er það líka fordæmanlegt í rekstri ríkisins.

Ég skal svo ekki lengja umr. mikið úr þessu, enda er nú búið að taka margt fram af því, sem ég áleit nauðsynlegt að segja ú af ræðu hv. 2. þm. Skagf. og ræðu hv. 4. þm. Reykv. Ég vil aðeins lýsa yfir því, að það er síður en svo, að ég sé að telja eftir þessa litlu greiðslu, sem til þessa eina nm. úr alþingishátíðarn. hefir farið. Ég benti aðeins á það út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að n. hefði unnið kauplaust, að það hefði þó mátt benda á, að hún hefði tekið kaup, því þó það væri lítið kaup, þá var það þó kaup. En ég var ekki að telja þessa greiðslu eftir fyrir að halda eitthvað á annað hundrað fundi; sjálfsagt hafa þeir ekki nað 200, því þá hefði n. haldið annað „jubilæum“ til að minnast þess. (MG: Og veizlu ).