21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2839)

30. mál, vigt á síld

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að það sé réttast fyrir hv. þm. Barð. að bera engar áhyggjur út af því, hvernig ég greiði atkv. hér í hv. d., og að honum sé nóg að gæta sjálfs sín. Ég held, að hann eigi erfitt með að fa nokkra til að trúa því, að Kveldúlfur hafi kúgað sjómenn í þessu efni, þegar reynslan hefir sýnt, að þeir sjómenn, sem við hann hafa skipt, hafa haft hærri laun heldur en ráðherrar hafa hjá okkur, og það á sama tíma og aðrir sjómenn, sem hafa lagt inn síld hjá öðrum verksmiðjum, bera sama sem ekkert úr býtum. Annars vil ég segja það um þetta mal, að það er þannig undir komið, að það er frá mínu sjónarmiði eitthvert hið ljótasta þingmál, sem ég hefi kynnzt nú um síðastl. 20 ár, því tilgangur þess er sá einn að reyna að sverta einn hv. þingbróður. Það er sýnt og sannað og viðurkennt, að sjómennirnir hafa haft langbezt upp úr vinnu sinni hjá þessu félagi, sem einmitt er verið að reyna að gera tortryggilegt. En ef þessi tilraun heppnast, þá verður afleiðingin sú, að sjómennirnir, sem þarna eiga hlut að máli, verða líklega sviptir þessum möguleika til atvinnu, og það betri atvinnu en völ er á annarsstaðar. Afleiðingarnar bitna á sjómönnunum, og þær eru ekki góðar, og tilgangurinn er sá, sem ég tók fram, og hann verður ekki til þess að gera málið fegurra.