19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Einar Arnórsson:

Mér skildist á ræðu hv. þm. Borgf. síast, að ekki mundi af n. hálfu verða gengið inn á brtt. hv. 4. þm. Reykv., þar sem hann gerir það að till. sinni, að það verði tryggt, að verð á innlendum kartöflum fari ekki fram úr því, sem það mundi vera á markaðinum, ef salan væri frjáls. (BÁ: Hvenær hefir hann sagt það?) Það hefir nú svo lengi verið talað um þetta mál, að kartöflurnar eru sjálfsagt farnar að spíra! En sé þetta, sem ég hygg, rétt munað hjá mér, þá sést, hver tilgangurinn er með þessu frv. Ef þetta er misskilningur minn, þá vona ég, að hv. þm. Borgf. leiðrétti. (PO: Það er bezt, að hv. þm. fái að berjast við sjálfan sig! ). Nei, það er bezt, að hv. þm. segi hreint og undandráttarlaust, hvað n. vill í þessu efni. Sé hún á móti þessu.

Þá er sýnt, að hún vill, að þetta verki til verðhækkunar. (MG: Öll n. hefir gengið inn á að samþ. þessa brtt. — PO: Hv. þm. er þá að berjast við sjálfan sig!). Það er ágætt, ef n. hefir gert það. Þarf þá ekki að deila meira um það atriði.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði talið till. hv. þm. Rang. betri en frv. Af því vildi hann svo draga þá ályktun, að ég gerði það til þess að geta sjálfur neytt útlendra kartaflna og útilokað innlendar kartöflur frá markaðinum. Þetta er vitanlega hreinasti misskilningur og sýnir bara það, að hv. þm. hefir ekki notið sinna náttúrlegu gáfna í þessu máli. Till. þessar voru um það að setja 2 kr. toll á hverju tunnu af kartöflum, sem inn er flutt frá 1. ágúst til 1. marz. En slíkur tollur yrði vitanlega til að hækka verðið á kartöflum og bæta þar með hag framleiðenda.

Þessir hv. meðmælendur frv., þm. Borgf. og þm. Mýr., hafa báðir verið að tala um, að þeir væru með þessu að beita sér fyrir hagsmunum alls landsins. Þetta er auðvitað ekki rétt. Með frv. er ekki verið að bæta hagsmuni kaupstaðabúa og annara þeirra, sem verða að kaupa kartöflur og enga aðstöðu hafa til að geta ræktað þær sjálfir. Hér er verið að stuðla að því tvennu, að varan verði dýrari og í öðru lagi, að hún verði verri, því oft mundi hún vera orðin spillt, þegar fram á útmánuði kemur. Látum nú vera, að þeir væru með frv. að efla hag fram leiðenda. Þá var það þó ofurlítið nær því sanna. En þó væri það heldur ekki rétt, því það er sjáanlegt, að fyrir þessum. hv. þm. hefir ekkert annað vakað en að sitja sem bezt að krásinni sjálfir og hlynna að fáeinum kjósendum sínum. Þeir hefðu átt að orða þessa setningu svo: að þeir væru að gæta hagsmuna nokkurs hluta — og þó mjög lítils — framleiðenda. Að það væri rétt orðalag, sannast af þeirri yfirlýsingu þeirra, að þeir vilja ekki unna öðrum framleiðendum að koma sinni framleiðslu á frjálsan markað. Þetta sýnir einmitt heilindin, þegar þeir eru að bregða öðrum um föðurlandssvik. Allt þeirra hjal um verzlunarjöfnuð og utanríkisverzlun er hreinasta bábilja í þessu sambandi. Og ef það er ekki meining þeirra, að frv. þetta nái lengra en þeir sjálfir halda fram, að það eigi að ná, þá er það alveg óþarft. Þeir vita það vel eins og allir aðrir, að íslenzk jarðepli eru keypt fremur en útlend. Menn vilja að öðru jöfnu kaupa það, sem íslenzkt er, og það því fremur, sem innlendu jarðeplin eru talin betri vara en þau útlendu. Hv. þm. Mýr. lét svo um mælt, að við, sem talað höfum gegn þessu frv., værum dulbúnir útlendingar í formi útlendra kartaflna, eða þetta var a. m. k. meiningin með því, sem hann sagði. En þm. Reykv. gætu eins sagt, að þeir væru dulbúnir sérhagsmunamenn. (ÓTh: Ég held nú, að þeir séu ekki dulbúnir.). Jú, þeir eru að reyna að vera það. Annað mál er hitt, hvernig þeim tekst það. Þeir segjast vera að hugsa um og vinna fyrir alla landsmenn með þessu. Í þeim hjúp eru þeir að reyna að hylja sig. Hitt er annað mál, þótt gáfaður maður, eins og hv. þm. G.-K. er, sjái í gegnum voðina, að þeir eru eingöngu að hugsa um sjálfa sig og fáeina kjósendur sína. Ef það hefði verið vitað fyrirfram, að umr. um þetta mál yrðu svo langar sem raun er á orðin, þá hefði mátt ná sama tilgangi á ódýrari hátt, þann, að láta þessa hv. þm. og þessa fáu kartöfluframleiðendur, sem þeir eru að vinna fyrir, fá dálitla fémútu úr ríkissjóði. Það hefði kostað minna en þessar löngu umr.

Eins og alltaf, þegar um sérhagsmunamál er rætt, þá hafa umr. orðið mjög heitar. Þótt hv. þm. Borgf. sé að jafnaði maður kappsamur og fylginn sér, þá hefir hann samt borið mál þetta fram með meira offorsi og kappgirni en venjulegt er, og svo að úr hófi hefir keyrt. Af því að nokkrir menn hafa verið svo djarfir að andmæla þessu fóstri hans, hefir hann látið á þeim dynja ýmsar skammir. Hann hefir t.d. kallað þá kommúnista, eða mig a. m. k. Og hv. þm. Mýr. hefir kallað okkur dulbúna útlendinga, sem í þessu sambandi getur þýtt það eitt, að við séum að gera Íslandi það ógagn, sem við getum í þessu máli.

Hv. þm. Mýr. var eins og faríseinn, sem einhversstaðar er sagt frá. Hann kom fram á gatnamótum, barði sér á brjóst og sagðist ekki vera eins og aðrir menn. Hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. komu nú fram og sögðust vera fúsir til að afsala sér og sinni sveit öllum rétti til kartöflusölu. Það mátti helzt skilja það svo, að þeir ætluðu nú að fórna sveitum sínum á altari þessa máls. En ég vil biðja þessa hv. þm. að gera það ekki, heldur framleiða eins mikið og þeir geta af kartöflum og örfá sveitunga sína til hins sama sem mest þeir mega, því að ég vil fá sem mest af íslenzkum kartöflum. En ég býst við, að þessar sveitir mundu ekki geta framleitt nóg af kartöflum handa Reykvíkingum, og þó kæra þeir sig ekki um, að úr Fljótshlíð, úr Árnessýslu eða af Rangarvöllum komi kartöflur hingað á markaðinn. Og þá er það ekkert óeðlilegt, að mönnum detti í hug, að þeir séu að berjast á móti flutningastyrk til þessara sveita, af því að þeir vilja ekki fá kartöflur úr þessum sveitum til að keppa við þeirra framleiðslu.