23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

3. mál, landsreikningar 1930

Magnús Guðmundsson:

Það er auðfundið, að ég hefi komið við hjartað í hæstv. dómsmrh. í gær eða fyrradag, þegar ég talaði um fjárgreiðslurnar til Laugarvatnsskóla. Hann hefir nú haldið tvær ræður til þess að reyna að svara mér, aðra sem stóð í halfan annan klt., og hina í klt. Nú vil ég skora á hæstv. ráðh. að fara ekki burt úr d., en hlýða á svar mitt, því að það er sannarlega ekki vandi að hrekja það, sem hann hefir sagt.

Ég skal taka það fram fyrst og fremst, að mér dettur ekki í hug að verja mig fyrir persónulegum arásum hæstv. ráðh. Það er siður hans, eins og kunnugt er, þegar ráðizt er á gerðir hans og hann krafinn reikningsskapar, að þá verður honum það eitt fyrir að reyna að úthúða andstæðingunum með persónulegum ásökunum, í staðinn fyrir að verja sín verk, en það reynir hann aldrei af þeirri einföldu ástæðu, að það er aldrei á hann borið annað en það, sem satt er.

Út af því, sem hann sagði um notkun mína á hestum ríkisins, þegar ég var ráðh., þá skal ég taka fram, að það er allt rangt og ósatt, sem hann sagði um það mál. Aftur á móti viðurkenndi hann að hafa notað bæði hesta, varðskip og fólksbifreiðar ríkisins í pólitíska þágu um kosningar. Hann segir, að ég sé á móti því, að ríkið eigi og noti bifreiðar. Ég hefi aldrei sagt það, að ég væri á móti því, að ríkið ætti bifreiðar, sem það notaði til nauðsynlegra hluta, en þegar eytt er á 4 árum yfir 100 þús. kr. í bílkostnað í snattferðir stj., þá er ég viss um, að enginn maður í landinu skoðar það annað en óhóf.

Hæstv. dómsmrh. hældi sér af því, að hann hefði haldið 40 fundi í leiðangri sínum á varðskipi ríkisins kring um landið vorið 1930. Það getur vel verið, að þetta sé rétt; hann hafði varðskipið í þessum leiðangri víst í heilan mánuð, og á hraðskreiðu skipi má fara mikið um á svo löngum tíma. Hann mótmælti því ekki, að þessi ferð varðskipsins hefði kostað 60 þús. kr., en sagðist hafa gert þetta fyrir alla flokka jafnt. Það er þó ekki satt, því að kunnugt er, að hann neitaði hv. þm. G.-K. um far með varðskipinu. Hann vissi sem var, að þessi hv. þm. var enginn vinur hv. ráðh. og mundi verða ráðh. snarpur andstæðingur á fundunum. Hæstv. ráðh. kærði sig því ekki um að flytja hann með, og fann þá upp á því, að halda því fram, að þessi hv. þm. hefði gerzt brotlegur við landhelgislögin og því væri ekki viðeigandi að flytja hann sem frjálsan mann á varðskipi. Nú vita það allir, að þessi hv. þm. hefir hvorki orðið sekur við landhelgislögin eða önnur landsins lög og að þetta var bara yfirskynsástæða. Hitt er satt, að einn af skipstjórum þessa hv. þm. hefir einu sinni gerzt brotlegur við landhelgislögin, en það er náttúrlega allt annað en að það hafi verið hv. þm. sjálfur.

En það er ekki þetta, sem var ástæðan til þess, að hæstv. ráðh. vildi ekki hafa þennan hv. þm. með. Hann vildi ekki hafa hann sem andstæðing á fundunum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég væri á móti því, að Sigvaldi Kaldalóns hefði fengið Keflavíkurhérað. Ég hefi ekkert á móti því út af fyrir sig, en honum var veitt það með rangindum, af því að um það sótti læknir, sem átti að ganga fyrir eftir réttum veitingarreglum. En það, sem ég hefi sérstaklega við þetta að athuga, er, að hann er keyptur fyrir ríkisfé til þess að taka við þessu embætti. Hæstv. ráðh. endurtók það, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni, að þetta væri herkostnaður, sem ríkið yrði að greiða vegna deilunnar við læknana. En því sagði hæstv. ráðh. ekki þetta í svarinu við aths. yfirskoðunarmanna LR.? þar segir allt annað, sem sé, að hann hafi verjð fluttur úr Flatey nauðugur og það hafi verið gert samkv. stjskr. Hæstv. ráðh. sá nefnilega, þegar búið var að rífa niður rétta svar hans, að það gat ekki staðizt. Það var alls ekki hægt að vísa í stjskr. í þessu sambandi. Eftir henni hafði ekki verið farið. Og þá kemur hann og segir það, sem satt er, að þetta er nokkurskonar herkostnaður við herferð gegn læknunum — kostnaður, sem ríkið verður að greiða. Hitt er vitaskuld, að ef hann hefði ekki beitt rangsleitni í veitingu þessa embættis og annara, þá hefði aldrei komið til neins herkostnaðar. Það er vitanjegt, að einhver þekktasti og hezti læknir landsins, Jónas Kristjánsson á Sauðárkróki, sótti um þetta hérað og átti að fá það, og hefði hann fengið það, þá var ekki um neitt stríð eða herkostnað að ræða. Því er það ekki ríkissjóður, heldur ráðh. sjálfur, sem á að greiða kostnaðinn. Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann hefði aðallega hætt við að veita Jónasi Kristjánssyni Keflavíkurhérað vegna þess, að hann hefði átt að vera norður í Skagafirði að agitera fyrir mér. Það getur nú líka verið ástæða, en ég verð að segja hæstv. ráðh. Það, sem hann nú sjálfsagt ekki heyrir, því að hann er vanur að flýja úr d., þegar honum er svarað, að ég hefi aldrei beðið hann um hjálp í þessu og mun ekki gera. Að því er snertir eftirlaun mín, þá vísa ég til þess, sem ég sagði áður við hæstv. ráðh. Þau eru samkv. lögum, og ef hann álítur það ekki vera, þá skora ég á hann að afnema þau. Hann hefir valdið til þess, ef hann getur fengið hæstv. fjmrh. til þess. Ég tók það fram, að þessi eftirlaun væru frá þeim tíma, sem ég var sýslumaður og skrifstofustjóri í stjórnarráðinu. Svo skulum við þá bara láta skera úr því, hvað rétt sé í þessu efni. Ég skal heldur ekki deila við hæstv. ráðh. um það, hverjir hafi sigrað í læknadeilunni. En gömul regla er það, að sá, sem greiðir herkostnaðinn, er jafnframt sá, sem bíður ósigur. Sigurvegarinn er ekki vanur að greiða herkostnað. Nú skilst mér, að það sé hæstv. ráðh., sem greiðir herkostnaðinn, og hefir hann þar af leiðandi beðið ósigur. En hann greiðir ekki sjálfur, heldur úr þeim sjóði, sem hann var yfir settur. — Auðvitað dettur mér ekki í hug að fara út í mál rússneska drengsins. Það er alkunnugt, að þessi hæstv. ráðh. stóð þá að miklu leyti á bak við það mál og var algerlega á drengsins bandi. En nú fer hann ekki lengra en það, að það hafi verið réttmætt að gera þessar ráðstafanir, sem gerðar voru. Þarf því ekki að fara frekar út í það, En að því leyti, sem hann var að tala um byssukaup, sem gerð hafi verið 1921, þá er það ekkert annað en tóm ósannindi og tilbúningur frá rótum.

Þá er það viðvíkjandi skólunum. Hæstv. ráðh. reynir alltaf að snúa því þannig, að ég sé á móti þessum skólum, af því að ég hefi „kritiserað“ þá aðferð, sem þessi ráðh. hefir haft gagnvart Laugarvatnsskólanum. Þetta er vitaskuld alveg rangt. Ég hefi ekkert við skólana að athuga og veit, að þeir eru að ýmsu leyti góðar stofnanir. Mitt álit á þessu kemur bert fram í því, að mér hefir ekki dottið í hug að ávíta fyrir að greitt hefir verið bæði til Reykholtsskólans og Reykjaskólans meira, en heimilað var í fjárl. En það, sem ég ávíta, er, að lögin um héraðsskóla skuli hafa verjð þverbrotin. þetta er að ganga á hag ríkissjóðs og hans rétt, því að auðvitað leggur ríkissjóður þá miklu meira fram, og það er svo með Laugarvatnsskólann, að til hans hefir ríkissjóður lagt á 3. hundrað þús. kr. fram yfir það, sem lög standa til. Það er ekki til neins fyrir hæstv. ráðh. að reyna að snúa sig út úr þessu með neinum strákapörum, — með því að segja rangt til um afstöðu manna til málsins. Það, sem yfirskoðunarmönnum LR. er skylt að vita samkv. fyrirmælum stjskr., er, þegar ráðh. leyfir sér að þverbrjóta skýr og greinileg lög, hvort sem er í þessu efni eða öðru. — þá sagði hæstv. ráðh., að allir þessir skólar, sem hann hefði sett á stofn, kostuðu ekki meira en Sæmundur Halldórsson hefði kostað. Ég verð að segja það, að ég hefi aldrei orðið var við neina fjárveitingu úr ríkissjóði til Sæmundar Halldórssonar. Aldrei nokkurn tíma. En ef það er meiningin, að gera mig og minn flokk ábyrgan fyrir töpum bankanna á Sæmundi Halldórssyni, þá ætla ég fyrst að byrja með því að athuga, hve mikið af tapinu á honum hefir skapazt eftir að framsóknarmenn tóku við stjórn. Ef virkilega á að reyna að snúa því þannig, að skrifa það þeim flokki til syndar, sem var við völd, þegar tapið varð, hygg ég, að þá komi í ljós, að mjög mikill hluti tapanna hafi myndazt á stjórnararum framsóknarmanna. En þetta kemur annars ekkert þessu máli við, nema það sé meiningin, að það eigi að teljast þeim flokki til syndar, sem þá sat við völd. Það má vel vera, að ég ræði eitthvað frekar um þetta í sambandi við annað mál hér á dagskránni, og skal ég því sleppa því að svo stöddu.

Þá er það viðvíkjandi upphituninni á Laugarvatni. Mér þykir hún há, 18 þús. kr. á ári. Hefi ég borið þetta saman við aðra skóla hér, og enginn reynzt eins kostnaðarsamur og þessi. Ég held því, að rétta sé mikið oftalið, og það er rangt hjá hæstv. ráðh., þegar hann segir, að upphitunarkostnaður fari að mestu leyti eftir nemendafjölda. Það gerir hann auðvitað ekki. Það kostar ekki meira, og heldur minna þó, að hita upp stofu, sem í er fjöldi nemenda, heldur en jafnstóra stofu, sem væri því nær tóm, svo að það er ekki að miða við þetta. Það er stærð húsanna, sem þessu ræður mest, og ég hefi ekki tök á að bera hana saman, á t. d. Laugarvatni, Hólum og Hvanneyri. En ég get ímyndað mér, að það sé allmikil stærð á þessum húsum þarna á Laugarvatni, því að svo hafa þau orðið dyr. Það mun vera á 7. hundrað þús. kr., sem búið er að leggja þarna í byggingar, m. ö. o. um 1 milljón, sem komin er þarna í þetta fyrirtæki, ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það eigi að reikna hitann þarna á 300 þús. kr.

Ég get skotið því hér inn í, þar sem hæstv. ráðh. var að tala um einhverja jörð, sem ég ætti vestur á Breiðafirði, og sagði sögur um, að mér dettur ekki í hug að svara því öðru en lýsa því yfir, að ekkert af því, sem hann sagði, var satt — ekki nokkurt orð.

Svo er það þessi makalausa „transaktion“ eða féglæfraaðferð, sem hæstv. ráðh. vildi við hafa, hvað snertir heita vatnið á Laugarvatni. Hálflenda jarðarinnar er keypt fyrir 16 þús. kr., en svo er hún reiknuð skólanum sem framlag á móti ríkissjóði fyrir 316 þús. kr. Þetta er nú það, sem ég kalla „brask“ — svo stórkostlegt, að ég get ekki líkt því við neitt annað en þetta Kreugersbrask í Svíþjóð, og það var það, sem hæstv. ráðh. hafði eitthvað sviðið, og vildi hann sverja fyrir það alveg, að hann og hans stj. hefði komið nálægt Kreuger. En það er nú svo, að hún hefir einmitt komið nálægt honum, því að stj. hefir tekið lán hjá L. M. Ericson, sem var eitt af félögum Kreugers, svo að stj. ætti ekki að sverja fyrir hann, eins og hæstv. ráðh. gerir. Hitt er aftur alrangt hjá hæstv. ráðh., að ég hafi nokkurn tíma átt við mann, sem heitir Kúlu-Andersen. Hann hefir a. m. k. hundrað sinnum nefnt þennan mann –mann, sem ég hefi aldrei séð né heyrt.

Svo er hæstv. ráðh. að hæla sér af því, hve mikinn þátt hann hafi tekið í lántökunni 1930. Ég skal ekki um það segja, en hitt hefi ég séð, að hann er a. m. k. vottur undir samningnum, sem gerður var um lánið. En ekki var svo mikið traustið, að hann fengi að skrifa undir fyrir landsins hönd, heldur var hann bara hafður sem vottur. Svo gaf hann í því tilefni út yfirlýsingu viðvíkjandi skuldum ríkissjóðs — yfirlýsingu, sem hann hefir sjálfur sagt seinna, að hann hafi vitað, að var röng. En hann mátti til að gera það, sagði hann, til þess að ekki kæmist upp, að skrökvað hefði verið um ríkisskuldirnar hér heima. Þetta hefir hann sjálfur sagt í sínu eigin blaði með sínu nafni undir.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta mikla álit, sem væri á Laugarvatnsskólanum, væri eiginlega að miklu leyti mér að þakka, því að ég hefði fundið svo mikið að, að skólinn hefði orðið fyrir það frægur, og ráðh. hafði fengið meiri frægð af þessu máli heldur en hann í rauninni ætti skilið. Ég hélt satt að segja, að það væru skólarnir sjálfir, sem ættu að skapa sér frægðina, en ekki umtal um þá, og ég hefði kosið það heldur, að skólinn hefði orðið þekktur vegna sjálfs sín, en ekki vegna umtalsins um hann. Hæstv. ráðh. kvaðst hafa orðið þess var, að burgeisarnir færu þarna austur til þess að láta sér líða vel, því að þar sé svo gott að vera. Ég hélt reyndar ekki, að hann hefði byggt skólann til þess, heldur væri hann reistur í allt öðrum tilgangi. En það lítur út fyrir, að skólinn sé farinn að þéna allt öðru augmuniði en tilgangurinn var í byrjun, en það má vel vera, að hægt sc að sameina þetta tvennt, og hefi ég ekkert við það að athuga. En það mun vera rétt, að hæstv. ráðh. hafi fengið meiri sóma en hann á skilið fyrir þetta. Ég get vel undirskrifað það, því að hans sómi getur aldrei orðið minni en hann á skilið. Hann á nefnilega engan sóma skilið fyrir það, að hafa þverbrotið lög landsins vegna þessa skóla. Hann gat farið að eins og viðvíkjandi öðrum skólum og eins og hans skylda er, þ. e. a. s. eftir lögum landsins. En það, sem er allra verst í þessu máli, er það, að ráðh. skuli ætla að reyna að komast út úr þessum lögbrotum sínum með því, sem eru sannnefndir fjárglæfrar.