30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. landsk. talaði um, að það hefðu verið samningar milli Framsóknarfl. og jafnaðarmanna á síðasta þingi, að tóbakstollinum yrði ekki breytt. Um slíkan samning hefi ég aldrei heyrt talað. Um hitt var rætt, hvernig skyldi varið og skipt ágóða af tóbakseinkasölunni. Ég skil ekki, að nokkur hv. jafnaðarmaður hafi getað búizt við því, að sá samningur þýddi, að tóbakstollurinn stæði óbreyttur um aldur og æfi. Hitt var miklu líklegra, að honum yrði breytt mjög fljótlega. Hér er nú ekki á ferðinni nein allsherjarbreyt., heldur spor í rétta átt, því að verðtollur ætti yfirleitt að koma á alla vöru í stað þungatolls. Við ættum ekki að fælast slíkan toll sem þennan, meðan miklu hærri tollur er á tóbaki sumstaðar á Norðurlöndum og í Englandi. Samkomulag það, sem varð á síðasta þingi, náði að minni vitund ekki lengra en til þess, hvernig ágóðanum af tóbakseinkasölunni skyldi varið. Og þar sem hv. 1. landsk. var að dylgja um það, að einhver sérstök fríðindi hefðu fylgt þessu samkomulagi, þá er það vitanlega alveg tilhæfulaust. Slíkir samningar liggja ekki lengi í laginni. Þeir hljóta fljótlega að koma á daginn. Það er því alveg óþarft að tala um fríðindi, og það veit hv. þm. líka eins vel og ég. Um tóbakstollinn fóru engir samningar fram né samtal tun samninga fyrir framtíðina. Ég hefi oft heyrt hv. 1. landsk. minnast á það samband, sem verið hafi milli jafnaðarmanna og Framsóknarfl. áður. nú má eins telja, að slíkt samband sé milli jafnaðar- og sjálfstæðismanna. En öll slík viðskipti flokka á milli eru „kontant“ og hljóta í eðli sínu að vera það. Framtíðarviðskipti koma þar ekki til greina.

Ég hefi í frv. gert ráð fyrir því, að ágóðinn af tóbakseinkasölunni rynni til þeirra stofnana, sem til er tekið í l. frá síðasta þingi, svo allt á að halda sér. Mér kemur því á óvart, ef hv. 2. landsk. greiðir atkv. gegn þessu frv. Hann sér þó þá bliku, sem dregur upp, þar sem sú till. er nú fram komin í Nd. að taka allan ágóðann af einkasölunni og leggja hann til ríkissjóðs. Hv. þm. á því hér um það að velja, hvort hann vill missa hálft reifið eða allt. Ef hann velur síðari kostinn, þá má hann sjálfum sér um kenna.

Að ég hefi leitað samninga við hv. 1. landsk., er misskilningur. Það hefi ég hvorki gert hér í d. né bak við tjöldin. ég hefi aðeins lýst þörf þjóðarinnar eins og hún blasir við öllum flokkum. Hv. þm. tala eins og það ástand komi ekki við nema einum flokki, en það kemur sannarlega við öllum flokkum, og það ættu þeir að hafa drenglund til að viðurkenna. 1924, þegar líkt var ástatt og nú, var ég einn, sem hjálpaði hv. 1. landsk. með að fá tekjur, og þó voru þær tekjur teknar með tolli á nauðsynjavöru.

Hv. 1. landsk. spurði um það, hverjir atvinnuvegir væru, er nú þyldu að bera auknar byrðar eða álögur. Hér er nú ekki verið að leggja á neinn atvinnuveg, heldur aðeins á tóbaksnautnina. Ég hefi einmitt valið þennan tekjustofn til þess að þyngja ekki á atvinnuvegunum. Ef hv. þm. meinar það, sem hann segir, þá ætti hann að taka undir þetta frv. og minnast þess, að þegar hann sjálfur tók við stjórn, þá þurfti hann á auknum tolltekjum að halda. Eins vil ég benda hv. þm. á, að eftir það góðæri, sem hefir verið annarsstaðar eins og hér, þá hefir þó engin þjóð, sem ég þekki til, komizt hjá því að hækka skatta nú þegar að kreppir. Hér ætti þá samkv. kenningu hv. þm. að vera aðeins ein þjóð, úti á hala veraldar, sem ekki þyrfti að auka tekjur ríkisins. Og af hverju? Af því, að áliti hv. 1. landsk., að illa hefir verið farið með tekjur ríkisins á undanförnum árum. Ég skal nú ekki að þessu sinni fara út í þá löngu sálma. Ég vil aðeins leggja áherzlu á, að ástandinu verður nú að taka eins og það er. Og fram úr örðugleikunum verður að ráða, alveg eins og hv. 1. landsk. vildi gera 1924 og fékk til aðstoð andstöðuflokks síns.

Þessi vörutegund, sem hér er lagt til að verði tolluð, er sú, sem til þess er notuð í flestum öðrum löndum. Það er sama, hver stjórn situr að völdum, hvort það eru heldur konservatívir, sócialistar eða framsóknarmenn. Alstaðar hafa verið auknir tollar, og eins bar, sem einkasala er á tóbaki. Ég vildi nú gjarnan fá upplýsingar hjá þeim hv. þm., er enga tolla vilja leggja á tóbakið, og þá heldur ekki á eignir manna eða tekjur, hvar þá eigi að fá hina nauðsynlegu tekjuauka. Ég veit að vísu, að hv. l. landsk. segir, að ekki þurfi á neinum auknum tollum að halda, en það er ekkert nema „oppositions“fullyrðing og mælt án allrar ábyrgðartilfinningar. Þegar verðtollurinn fer ur 21/2 millj. niður í 1,4 millj. og þegar vörutollurinn minnkar um helming 3 síðustu mánuði ársins, þá þarf vitanlega eitthvað í staðinn. — Það verður bæði að spara og auka tekjurnar. Allur þingheimur veit, að ef hv. 1. landsk. væri í mínum sporum nú, þá hefði hann orðið að fara að nákvæmlega á sama hátt og ég geri.

Ég vona nú, að hv. þm. bendi á, hvar taka eigi þá tekjuauka, sem taka þarf. Má vera, að hann geti bent á eitthvað það, sem við getum komið okkur saman nm. Þótt hv. 1. landsk. segi, að vonzka þeirra, sem með völdin hafa farið, hafi verið mikil, þá ætti hann þó að taka tillit til þess, að vonzka tímanna er nú svo mikil, að hún hefir aldrei verið meiri áður. Og ég býst við, að hv. l. landsk. tæki þunglega í það að fara með fjármálastjórn þessa lands, þó honum væri boðið það, ef hann ætti enga tekjuauka að fá, og ekki nóg með það, ef hann vissi, að líka ætti að fella úr gildi þá tekjustofna, sem gefið hafa tekjur í ríkissjóð síðan 1924. Árið 1924 fékk hv. 1, landsk. þá tekjuauka, sem hann þurfti og vildi. Þeir voru þá lagðir á til að forðast yfirvofandi vandræði, en ekki til að borga skuldir. Þetta er rétt, þótt hv. 1. landsk. hristi höfuðið. (JónÞ: Ég var ekki að hrista höfuðið). Hv. þm. hefir þá bara hrist það af vana, án þess að nokkur innri sannfæring fylgdi. Þessir skattar voru lagðir á með aðstoð Framsóknarfl., og eins og ég sagði, þá áttu þeir að vera til að forðast yfirvofandi vandræði, þótt svo rættist úr, að þeir gengju að nokkru til greiðslu á skuldum. Þessir skattar voru að vísu lækkaðir nokkuð 1926, en það var þó eigi gert fyrir forgöngu hv. 1. landsk., sem þá var fjmrh. Það var fjvn. Nd., sem átti frumkvæðið að því, en hv. 1. landsk. var víst tregur til að gera þá lækkun. Þessir skattar voru svo hækkaðir aftur 1928, þegar það hafði synt sig, að tekjuhalli hafði orðið á ríkisrekstrinum síðustu tvö árin. Skýrslur hv. 1. landsk. um þetta atriði hafa ekki verið réttar. Hið sanna er, að sú tollalöggjöf, sem Framsóknarfl. hefir átt við að búa, er óbreytt frá þeirri löggjöf, er hv. 1. landsk. bjó við árin 1924, 25 og 26. En að tekjurnar hafi reynzt nokkuð misjafnar, þótt löggjöfin væri hin sama, stafar af misjöfnu árferði.

Það er rétt, að mikið fé hefir eyðzt, og það umfram fjárl. og skuldir aukizt nokkuð. En að einn þingflokkur beri alla ábyrgð á því , get ég ekki fallizt á. Öldugangur sá, sem verið hefir í þjóðlífinu, hefir að nokkru skapað það og kröfur frá öllum landslýð. Ég minnist þess, að þegar Framsóknarstj. var að taka við, þá var ég á fundi fyrir austan með hv. 1. landsk. Þá kvað við sá sónn hjá honum, að Framsóknarfl. vildi ekkert gera til framfara í landinu. Hann ætlaði hvorki að leggja vegi, byggja brýr né leggja síma né annað það, sem heyrði til verklegra framkvæmda, sem hann og hans flokkur hefði ætlað að gera. Þetta kvað hvarvetna við hjá flokksmönnum hans. En svo þegar mikið var gert og svo kreppir að hér sem annarsstaðar, þá skiptir um tóntegund. nú er Framsóknarfl. skammaður fyrir að hafa gert það, sem honum var áður láð, að hann ætlaði ekki að gera. Þessi bardagaaðferð minnir á þá, er Grímur Ægir hafði. Þegar hann fór halloka, þá sökk hann í jörð niður og kom upp annarsstaðar. Og þó margt væri gert fram yfir það, sem fjárl. mæltu fyrir, var það þó flest gert með vitund og vilja þingsins, að svo miklu leyti sem ekki voru fyrir því sérstakar heimildir aðrar en fjárl. Svo var t. d. um landsspítalann. Þar var það frekar af því, að eigi var hirt um að leita formlegrar heimildar, heldur en að fjárveiting til hans væri brot á móti vilja þingsins. Svo mætti margt telja. Annað stærsta lánið, sem tekið hefir verið, var samþ. af öllum flokkum á tveimur þingum og var því ekki tekið gagnstætt þingvilja. En þegar búið er að taka það, þá er skotizt í jörð niður og lostið upp ópi um skuldaaukningu Framsóknarfl. Svona verður það víst um aldur og æfi. Sú stjórn, sem ekkert gerir, er fundin sek. Sú stjórn, sem mikið lætur gera, er líka sek. Þetta hefir hv. 1. landsk. gefið mér tilefni til að segja.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að til þess að bæta hag ríkissjóðs kæmi mér ekki til hugar að spara. Ég sæi enga aðra leið en þá að auka tekjurnar. Þetta segir hv. 1. landsk., og þó veit hann, að í fjárlfrv. því, er cg lagði fyrir þingið, er lagt til, að útgjöld verði spöruð, sem nema 1 millj. kr. Að áætlunin lækkar ekki sem þeirri upphæð nemur, stafar af því, að áætlun um lögboðna liði hefir verið færð upp til hins raunverulega. Einnig hækkar hún vegna aðgerða síðasta þings, og vextir hafa nú verið tilfærðir, sem ekki hafa verið teknir áður. Hv. 1. landsk. segir, að þingið hafi ekki fengið neitt tækifæri til að hugsa um sparnað. Stjórnarflokkurinn hafi ekki viljað leyfa slíkt. Þetta er vitanlega hin mesta fjarstæða. Fjvn. beggja deilda hafa verið önnum kafnar við athugun á því, hvar koma mætti við sparnaði. Og flestar eða allar aðrar fastan, þingsins hafa að meira eða minna leyti haft það til athugunar, hver á sínu sviði, hvar hægt sé að spara. Og á þingfundum er ekki um annað meira talað en sparnað. Hér eru því sannarlega opnar leiðir fyrir sparnaðartill. og sparnaðarumræður. Og það er sannarlega engin ný uppgötvun að bera fram till. um nýja n., er athugi sparnað, þegar þá hún á að vera skipuð hinum sömu mönnum, sem allir eru að reyna að spara, hver á sínu sviði. Nei, hv n. mundi ekkert spara, hvorki þingtímann né annað. Það þýðir ekkert að segja, að annar flokkurinn heimti álögur, en hinn sparnað. Þetta er bara vitleysa. Allir flokkar ættu að hjálpa til þess að fara baðar þessar leiðir hér sem í öllum öðrum löndum, til þess að sigrast á erfiðleikunum.

Ég vil að lokum þakka hv. 1. landsk. þá nærgætni, að vilja gefa mér tækifæri til að vera viðstaddur útför þessa frv. Ég á reyndar bágt með að trúa því og geri það ekki fyrr en ég tek á, að hv. deild felli það frá því að komast í n., jafnaðarmenn vegna þeirrar hættu, sem þeir halda, að sín áhugamál séu í, sjálfstæðismenn vegna tekjuþarfar ríkissjóðs. En þeir ráða vitanlega sínum gerðum. Og ég mun taka mína ákvörðun þegar óstætt er orðið.