30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. hafa báðir hafnað þar, að ríkið tapi á einkasölunni, af því að þá sé svo mikið smyglað, en þeim bregzt alveg að sýna fram á, að meira sé smyglað, þegar einkasala er. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að eina eftirlitið, sem dygði, væri það, þegar hver innflytjandinn líti eftir öðrum. Ég hefi ekki þekkt þann eltingaleik á milli innflytjenda á tímum frjálsrar verzlunar, enda ekki nema um 3–4 innflytjendur að ræða. Ég veit ekki til, að þeir hafi kært hver annan fyrir smygl. Og smyglun á tóbaki, sem menn ætla sér að neyta sjálfir, á sér alveg jafnt stað, hvort fyrirkomulagið sem haft er. Smyglunarhættan er yfirleitt ekkert meiri, þó einkasala sé, alveg eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram.

Um neyzlu tóbaks ræður árferðið miklu, og þá einnig það, hve mikil áherzla er lögð á að koma vörunni út. Það liggur í hlutarins eðli, að salan verður meiri, þegar hér voru um 18 tóbaksbúðir. Þær hafa að vísu verzlað eitthvað með sælgæti líka, en á tóbakinu hafa þær lifað. Umsetningin verður ólíkt minni, þegar aðeins er til ein sérverzlun með tóbak, eins og var síðast, þegar tóbakseinkasalan starfaði. Svo þegar hún var afnumin, þá spruttu sérverzlanir upp. Þetta er næg skýring á því , sem þessir hv. þm. voru að tala um, að tóbaksneyzla minnkaði nokkuð, þegar einkasala væri starfandi, þó vitanlega haldist ríkistekjurnar eins uppi fyrir því vegna einkasöluverðsins.

Ég vil svo að lokum endurtaka þá ósk mína, að frv. fái að ganga til n., en ef hv. þm. neita, að málið nái fram að ganga, þá eiga þeir það við sína ágætu samvizku og geta fagnað því, að þeir hafi verið mótfallnir auknum tollum á óþarfa á þessum hættutímum.