25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vildi aðeins benda á það, að það er miklum vandkvæðum bundið að samþ. þessa till. á þskj. 473, vegna þess, að oft stendur svo á hjá togurum á ísfiskveiðum, að það gæti geri mikinn fjárhagslegan skaða að samþ. till. Þegar togarar eru rétt aðeins við að fylla sig og að því komnir að sigla til Englands með aflann, þá mundu þeir sennilega fara út, þótt þá vantaði 200-300 körfur af fiski, til þess að missa ekki af markaði, því að venjulega stendur svo á, að von er á góðum markaði einmitt um nýárið. Ef þeir ættu að liggja í höfn með aflann, þá er hætt við, að hann seldist ekki eins vel, því að innilega á höfnum er hættuleg fyrir þann fisk, sem búið er að ísa, því að þegar ísinn bráðnar, lekur hann niður á fiskinn og skemmir hann. Að öðru leyti eru íslenzku togararnir orðnir svo illa settir með sínar ísfiskveiðar, að óhugsandi er, að þeir geti haldið lengi áfram. Vökulögin gera það að verkum, að skipshöfnin á þeim verður að vera um 20 manns. Við slík lög eiga nokkrar þjóðir ekki að búa, enda komast þær af með 12–13 manns á sínum skipum við ísfiskveiðar. Okkar ísfiskveiðar verða því svo dýrar, að þær þola ekki samkeppnina við aðrar þjóðir. Ef þessi ákvæði verða samþ., þá mun það enn auka á erfiðleikana, í sumum tilfellum a. m. k. Gæti það í ýmsum tilfellum numið þúsundum, jafnvel tugum þúsunda króna fyrir útgerðarmann og skipshöfn. Nú má einnig líta á það, að allir togararnir hafa útvarpstæki, og síðan farið var að varpa út guðsþjónustum, er hlustað á þær á hverju skipi. Það væri að vísu æskilegt og gott, að skipshafnirnar mættu eiga frí þessa daga, en það myndi í ýmsum tilfellum geta bakað bæði útgerðarmönnum og sjómönnum svo mikið tjón, að ég tel ófært að samþ. þessa brtt.