25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2993)

310. mál, Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætlaði aðeins að spyrja um eitt eða tvö atriði í þessu máli, þó að það sé að nokkru leyti óþarfi eftir ræðu hæstv. dómsmrh. Ég vildi spyrja um það, hvort ekki mætti eiga það víst, ef þessi till. yrði samþ., að þessi tveggja ára undirbúningsdeild yrði starfrækt. Eins og kunnugt er, þá varð ágreiningur um málið á þinginu 1929 og 1930, hvort hér skyldi vera undirbúningsdeild eða ekki. Ég hefi alltaf verið þeirrar skoðunar, að bezta fyrirkomulagið væri að hafa 6 ára óskiptan skóla og var hvað eftir annað flm. að því að breyta skólanum í það horf. Sú skoðun ætti að hafa ennþá meiri rétt á sér eftir að skólinn á Akureyri er kominn upp, því að eins og hæstv. dómsmrh. minntist á, þá varð þessi óheppilega skipting mest til að greiða götu manna frá Akureyrarskólanum inn í 4. bekk menntaskólans í Reykjavík. Eftir að sú ástæða er burt fallin, mundi heppilegast að hafa 6 ára óskiptan skóla. Hinsvegar get ég verið samþykkur þessari till. með þeirri skýringu, að þessi undirbúningsdeild verði starfrækt, því að þá er stefnt að því, að hér verði raunverulega, fyrir þá sem óska, 6 ára óskiptur skóli.

Ég er ekki samþykkur því, sem stendur í grg., að þetta sé aðallega fyrir Reykjavíkurbúa, því að fyrir þá, sem vilja fá framhaldsmenntun, er langheppilegast að nema frá byrjun við sama skóla, því að þótt mögulegt sé að samræma nám í þessum skóla við almenna ungmennafræðslu, þá hljóta þeir skólar þó að verða með talsvert öðrum blæ en þeir skólar, sem byrja námið frá upphafi og halda því svo áfram stig af stigi. T. d. má taka tungumál. Það er mjög æskilegt fyrir þá, sem ætla sér að nema þau til hlítar, að byrja þegar í stað hjá beztu kennurum, og þá með það fyrir augum að læra málið vel, og er þá vitanlega byrjað á því, sem í raun og veru er þyngst, en það er málfræði og önnur slík undirstöðuatriði, sem nauðsynleg eru þeim, sem ætla sér að læra málið til hlítar. En ég get vel ímyndað mér, að við tveggja ára skóla mundi mest áherzla verða lögð á að geta skilið almennt bókmál og að geta bjargað sér í málinu, sem kallað er, en minni áherzla lögð á undirstöðuatriðin, sem nauðsynleg eru til framhaldsnáms. Á hinn bóginn álít ég það kost, ef þeim, sem stunda nám við unglingaskóla og eru sérlega góðir námsmenn, er gert hægara um vik að komast inn í lærdómsdeild menntaskólans.

Annars þyrfti alls ekki að útiloka menn frá þessu. Munurinn er einungis sá, hvort þeir eiga að geta komizt inn í lærdómsdeildina án prófs eða hvort þeir þurfa að taka inntökupróf, og skal ég ekkert segja um, hvernig á að haga þessu, ef till. verður samþ., hvort á að láta próf manna frá þessum skólum nægja sem inntökupróf í lærdómsdeildina eða ekki. Það er líka önnur spurning í sambandi við þetta mál, sem ástæða er til að fá svarað nú, og það er, hvort eigi að takmarka tölu þeirra, sem fengju inngöngu í lærdómsdeildina eða hvort allir eiga að fá að komast þarna að, sem taka það próf, sem gefur rétt til að ganga upp í lærdómsdeildina.

Annars skal ég ekki tefja þetta mál frekar að svo komnu, en skal lýsa því yfir, að ég er till. samþykkur með þessu fororði.