25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2999)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Mér þykir það leiðinlegt, að þessi góði og mæti maður, hv. samþm. minn, skuli hafa misskilið svo hrapallega það, sem ég sagði, vegna þess, að hann hefir ekki kynnt sér frv. og brtt. á þskj. 473. En á hvorugu því þskj. er um annað að ræða en að banna veiðar á sjálfum stórhátíðunum, en þær eru eins og kunnugt er ekki margar. Hitt er hvergi farið fram á, að banna að vinna á öðrum helgidögum, eins og mér þó virtist hv. samþm. minn skilja það. Þetta er því alger misskilningur. Hitt er annað, að ég hefi enga trú á því, að sunnudagavinna muni yfirleitt vera til blessunar, hvorki þeim, sem vinna hana, né þeim, er verða hennar aðnjótandi. Þá er það misskilningur hv. þm., að helgidagafriðunin sé frá trúarbrögðunum runnin að öllu leyti og að hér sé því um helgislepju að ræða, eins og hann orðaði það. Ég get frætt hann á því, að hvíldardagurinn er ekki upp tekinn eingöngu sem trúarboð, heldur er hann sprottinn jafnframt upp af hagnýtri fræði frumþjóðanna, og vitrir menn sáu, að hann var líka hagnýtur fyrir menningarþjóðir nútímans.

Ég er alveg sannfærður um það, að það er ekkert hermdarverk unnið með því, þótt betur sé tryggður en verið hefir almannafriður á helgum dögum og hvíldardögum þjóðkirkjunnar.

Hv. þm. var að tala um, að sjómennirnir mundu heldur kjósa fiskinn en hvíldina. Svo mikið væri þó eftir af þeim kjarki og karlmennsku, sem hefði einkennt sjómannastéttina, sagði hann. Ég minnist nú þess, að hv. þm. eða skoðanabræður hans sögðu eitthvað svipað, þegar togaravökulögin voru til umr. Þá var viðkvæðið, að sjómennirnir sjálfir kysu að þræla svefnlausir áfram, þangað til þeir dyttu út af sofandi og uppgefnir, heldur en að sofna og endurnærast til starfs síns. Ég veit nú, að hv. þm. er fyrir löngu búinn að sjá, að þetta var mesti misskilningur. Og það er einmitt meðfram vökulögunum að þakka, að enn er kjarkur og dugur í íslenzku sjómönnunum. Þennan kjark og dug er hægt að murka úr þeim með of miklum þrældómi og skammsýni. — Mér er kunnugt um það, að fiskimennirnir þrá að halda hátíðir á heimilum sínum og með ástvinum sínum, eins og aðrir menn, og hvílast engu síður en við, sem í landi vinnum og erum þakklátir fyrir að fá hvíld frá okkar störfum. Ég vil taka það fram, að þótt þetta sé einnig trúarlegt atriði fyrir mér, þá er helgidagahvíldin einnig hagfræðilegt atriði í atvinnuháttum hverrar þjóðar, og til þess ættu hv. þm. þó að taka tillit.

Þá spurði hv. þm., hvort ég vildi draga upp þá helgislepju í mínu héraði að banna mönnum heyvinnu á helgidögum. Ég get sagt hv. samþm. mínum, að ég brýni það fyrir mönnum þar, bæði leynt og ljóst, og þykist sjálfur gefa þar eftirdæmi, að vinna svo lítið á helgidögum sem unnt er. Ég er sjálfur framleiðandi og hefi þó enn ekki notað sunnudagana um sláttinn til heyþurrkunar og aldrei orðið neitt hált á því. Og ég býst ekki við, að ég breyti um þá skoðun, að helgidagavinna sé jafnan til ills eins, ef mögulegt er að komast hjá henni. Sú skoðun er ekki eingöngu af trúarlegum rótum runnin hjá mér, heldur og einnig af þeirri sannfæringu, að það sé nauðsyn hverjum manni, sem starfar vel, að geta hvílzt og endurnært krafta sína öðru hverju.