25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

28. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Mér þykir mikið fyrir því að verða að bera það fram, að mér þykir hv. samþm. minn helzt til trúgjarn, ef hann heldur, að vökulögin hafi orðið til að vernda heilsu manna og krafta, og að menn hafi, áður en þau komu, gerslítið sér út af erfiði á fiskiflotanum. Ég er nú einn elzti útgerðarmaðurinn hér og hefi því haft gott tækifæri til að fylgjast með þessum málum frá upphafi. Og ég veit ekki til þess, að einn einasti sjómaður hafi misst heilsu og farið í land af þeim ástæðum. Allt, sem um þetta er sagt, er bara hreinn og beinn loddaraleikur, sem leikinn hefir verið hér í d. hvað eftir annað, þegar þessi atriði hafa verið á dagskrá. Eins og ég sagði, þá hefi ég fylgzt vel með þessu. Og ég get fullyrt, að engir menn eru yfirleitt hraustlegri en einmitt togarahásetarnir. þeir hafa hvorki verið beittir ófrelsi né þrælkun. þeir hafa fengið sín sumarfrí, fengið að fara í land, þegar svo hefir staðið á, og mátt fá menn fyrir sig í staðinn. Þeir hafa haft miklu frjálsara og hollara líf en nokkur sveitabóndi hefir. Ég segi þetta, svo að hv. samþm. minn sé ekki lengur að fleipra með þetta alveg út í bláinn.

Þá sagði hv. þm., að íslenzku togararnir fengju meiri afla en þeir útlendu. Þetta má nú rétt vera hvað magn snertir. En það skilur, að íslenzki fiskurinn er yfirleitt stærri. Er hann því meiri að vöxtum en sá fiskur, sem Englendingar fiska. Við höfum t. d. ekki nema 1/10 hluta af kola á móts við þá. Þótt við því kunnum að hafa tugum smálesta meiri fisk en þeir, þá er ekki þar með gefið, að við fáum hlutfallslega eins mikið verð fyrir okkar afla, heldur hvert á móti, vegna þess hvað stórfiskurinn, sem viðeinkum veiðum, er verðminni. Það er því ekki hægt að bera saman magn aflans, nema bera saman tegundirnar líka.

Íslenzku fiskimennirnir þurfa yfirleitt að nota hvern þann dag, sem afla er að fá. Hinir dagarnir, þegar ekkert er hægt að aðhafast, verða nógu margir fyrir því, og alveg nægjanlega margir til hvíldar fyrir hásetana. Svo óstöðug er veðráttan hjá okkur. Og ég vil engum banna að bjarga sér, þegar afli býðst. En þetta, sem hér liggur fyrir, er einn angi af þeirri hugsun. Og með vökulögunum var enn meira að því gert. Það getur verið, að ánægjubrosið minnki á vörum þeirra manna, er að slíkum lögum standa, þegar þeir næsta haust kunna að sjá, að ekki er lengur hægt að gera út, af því að við, sökum of mikils mannahalds vegna vökulaganna, þolum ekki samkeppnina við Englendinga, þegar tollurinn þar bætist ofan á þennan dauðadæmda atvinnuveg, sem engar líkur eru til, að þá geti haldið áfram. Þá geta þeir hlakkað, sem að þessu hafa unnið, yfir því, að hásetarnir fái mikinn svefn og góða hvíld. Því hvar verður gleðina að finna, ef ekki þar? — Þá verður nógur tími til að svara því, ef við þá ekki verðum allir dauðir.