26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það mun nú sumum hv. þdm. finnast, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að bera fram nýtt frv. um skólastofnanir í héruðum landsins, eftir þær framkvæmdir í skólamálum, sem gerðar hafa verið hér á landi hin síðari ár, þar sem lögtekið hefir verið og komið í framkvæmd nýju skipulagi á alþýðufræðslunni. Þetta er að vísu rétt. En þess ber og að gæta, að þetta fyrirkomulag er nýtt og engin reynsla fengin um það enn, að hverju haldi það skipulag kemur. Verður því að álykta, að ekkert sé á móti því að reyna annað fyrirkomulag samhliða, ef einhverjir óska, á þessum málum. Með það fyrir augum hefir meiri hl. menntmn. orðið sammála um að leggja til, að þessi heimild verði veitt, og leggur því til, að frv. verði samþ. með örlitlum breyt. — Minni hl. n. hefir ekki skilað áliti. Er mér ekki kunnugt, hvað hann leggur til málsins, en sennilega mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni undir umr.

Ég get að sinni verið stuttorður um þetta mál. Í því liggja ekki fyrir neinar nýjar upplýsingar. Nægir því að mestu að vísa til nál. meiri hl. Frv. er auk þess kunnugt frá fyrri þingum, þar sem þetta er í 4. sinn, sem það hefir verið flutt, og hefir því verið til umr. áður.

Eins og kunnugt er, þá er frv. þetta samið af sýslumanninum í Rangárvallasýslu, Björgvin Vigfússyni. Hefir hann með frábærri elju og dugnaði barizt fyrir þessu máli undanfarið áraskeið. Hefir hann bæði rætt um málið og ritað og kynnt það landslýð öllum. Munu og flestir hv. þm. hafa öðlazt sérstaka fræðslu frá hendi sýslumannsins um þetta mál, þar sem hann hefir átt tal við þá um þetta mikla áhugamál sitt. Ég vil þó benda á, að einn höfuðkostur þessa frv. er það að gera lýðfræðsluna svo almenna sem kostur er á. Einnig má telja það kost, að frv. gerir ráð fyrir því, að sú skyldukvöð verði lögð á æskumenn í þeim héruðum, sem þetta verður framkvæmt, að þeir vinni sér rétt til ókeypis skólavistar með störfum í þágu hins opinbera. Í því út af fyrir sig geta einnig legið holl uppeldisáhrif eigi síður en sjálfri skólaverunni, ef vel er vandað til um verkstjóra og allt fyrirkomulag við vinnuna. Við flm. höfðum orðið þess varir í samræðum við aðra hv. þdm., að þeir setja það fyrir sig, að eitt ákvæði frv. gæti orðið til þess að binda ríkissjóði fjárhagslegan bagga, án þess að ríkið væri við því búið að inna hann af höndum. Meiri hl. menntmn. hefir talið rétt að koma í veg fyrir þetta og hefir því borið fram brtt. um, að skóla samkv. þessu frv. megi því að eins reisa, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Er það þá að valdi viðkomandi þinga, hvort ástæða þykir til að byggja slíka skóla í hvert sinn. Í öðru lagi hefir verið um það talað, að í frv. væri ekki næg trygging fyrir því, að skólar, starfræktir á þessum grundvelli, heldu áfram að starfa, og ekki væri víst, að ríkið fengi sitt aftur, ef slíkur skóli legðist niður. Er því tryggt með brtt., að ríkið fái sitt aftur, ef hætt yrði að starfrækja slíkan skóla. — Annars vil ég benda á, að fjárhagshliðin vegna þessa fyrirkomulags er sízt hættulegri fyrir ríkissjóð heldur en eftir því fyrirkomulagi, sem nú gildir um héraðsskólana og gagnfræðaskólana. Hér er aðeins ætlazt til, að stofnkostnaður slíkra skóla sé greiddur af ríkisfé, en rekstrarkostnaðurinn lendir á þeim sýslu- eða bæjarfélögum, sem starfrækja skóla eftir þessari reglu. Er engum vafa undirorpið, að útgjöld ríkisins verða miklu minni á þennan hátt heldur en með árlegum útgjöldum rekstrarkostnaðar. Um hitt má fremur deila, hvort þessi leið er ekki óheppilegri fyrir þau sýslu- og bæjarfélög, sem hana fara. En þau verða auðvitað sjálfráð um það, hvort þau binda sér þann bagga.

Ég vil benda á það, að máli þessu hefir stöðugt aukizt fylgi eftir því, sem það hefir betur verið kynnt almenningi, eins og áskoranir um að samþ. það sýna. Sama hygg ég, að raunin sé hér í þessari hv. d. um fylgi þess. Ég hygg því, að það hafi nú orðið nægilegt fylgi hér, svo að það nái nú að ganga fram.

Ég sé, að brtt. eru fram komnar frá hv. þm. Borgf. Ég veit ná satt að segja varla hvernig ég á að skilja þær. Ég vil spyrja hv. flm. þeirra, hvort ekki muni vera var um að ræða prentvillu, hvort fyrir „sýslunefnd Rangárvallasýslu“ hafi ekki átt að standa „sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu“? Till. hans bera vott um, að hann sé hlynntur frv. og telji, að það verði til hagsbóta Því héraði, sem notar þetta fyrirkomulag. En þar sem hv. þm. er þekktur að því að vilja ekki láta sitt hérað verða afskipt, þegar um einhver gæði er að ræða, þá þykir mér eigi ólíklegt, að misprentun hafi orðið í brtt. á þann veg, sem ég hefi lýst. Hitt þykir mér öllu ótrúlegra, að hann sé nú farinn að bera hag Rangárvallasýslu svo mjög fyrir brjósti. Ef svo væri, þá gæti það gert mig afbrýðissaman. Það eru ótrúleg umskipti frá því, sem var í hinum margumtöluðu kartöflum, því að þá vildi hv. þm. ekki gera Rangárvallasýslu allt of hátt undir höfði. En vera má, þó, að hv. þm. vilji nú iðrast þeirra synda sinna og ætli nú að bæta fyrir þær með þessu. Við, sem þetta frv. flytjum, álítum, að það sé komið út fyrir hann grundvöll, sem því var ætlaður, ef brtt. verða samþ. Og að það geti tafið fyrir framkvæmdum skólamálsins innan Rangárvallasýslu, og þar með gert frv. vita gagnslaust.