29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

140. mál, fækkun prestsembætta

Jónas Þorbergsson:

Það er einkum vegna nokkurra ummæla hæstv. forsrh., að ég kveð mér hljóðs í þessu máli. Hann lét um mælt á þá leið, að till. sú, er hér liggur fyrir, væri óþörf, vegna þess að nýlega hefði setið að störfum n. til þess að fjalla um málefni kirkjunnar, að nefnd sú hefði haft til meðferðar athuganir um prestakallaskipun landsins og að hún hefði gefið að loknu starfi yfirlýsingu um það, að hún teldi ekki þörf eða ástæðu til breytinga í því efni.

Það er rétt, að prestakallaskipun landsins var eitt þeirra verkefna, sem kirkjumálanefndinni voru fengin til athugunar. Hitt er ekki rétt, að n. öll hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ástæða til breytinga. Meiri hl. n., sem í voru þrír prestar, birti að vísu yfirlýsingu á þessa leið. En minni hl. n., sem í voru tveir leikmenn, var ósamþykkur þessari yfirlýsingu, lét bóka ágreining og leit svo á, að þetta mikilsverða atriði hefði ekki sætt viðhlítandi athugun í n.

N. hafði þá meðferð um þetta mál, að hún sendi fyrirspurnir til sóknarnefnda, hreppsnefnda og héraðsprófasta, þess efnis, hvort þessir aðilar teldu breytingar æskilegar hver í sínu byggðarlagi, og þá hverskonar, ef þeir teldu breytinga þörf. En nú fór um svör við þessum spurningum eins og oft vill verða, þegar landsmenn eru spurðir slíkra spurninga. Það skortir sjaldan kröfur á þingmálafundum og í opinberum umr. um allskonar sparnað, og ekki sízt fækkun opinberra starfsmanna. En þegar spurningarnar koma heim að bæjardyrum hvers og eins, þá vill koma annað hljóð í strokkinn. Þá er vanaviðkvæðið þetta: „Í guðanna bænum! Það má ekki fækka embættismönnum í mínu héraði“. — Almennar kröfur um sparnað á landsfé og einstakar kröfur um fjárframlög til framkvæmda og opinberra starfa í einstökum héruðum og landshlutum eru ávallt ósamrímanlegar. Minni hl. kirkjumálan. varð því að telja svörin við spurningunum lítils virði. Þau voru að vísu ekki öll á eina leið, en langflestir töldu, að ekki væri æskilegt að breyta neitt til í sínu héraði.

Nú byggði meiri hl. n. yfirlýsingu sína að langmestu leyti á þessum svörum. Hinsvegar verð ég að telja, að málið hafi sætt of lítilli sjálfstæðri athugun í n., án þess að ég vilji eða telji við eiga að gera störf kirkjumálan. að umræðuefni hér í hv. deild.

Því fer þess vegna mjög fjarri, að störf kirkjumálan. hafi á neinn hátt gefið ástæðu til þess, að till. sem þessari sé bægt frá athugun og venjulegri meðferð. — Hitt er og ljóst, að hinar stórfelldu breyt., sem orðið hafa í þjóðlífi okkar síðan næstsíðasta kirkjumálanefnd starfaði, réttlæta það fyllilega og gera jafnvel æskilegt, að þetta atriði sé tekið til ýtarlegrar athugunar.

Það hefir verið bent á það af hv. flm., hve gerbreytt er viðhorfið í sveitum landsins í þessu efni frá því, sem áður var, vegna bættra samgangna. Þar, sem áður var dagleið, er nú 2–3 klst. ferð og þaðan af minna. Fjarlægðir hafa stytzt og jafnvel horfið. Þetta eitt út af fyrir sig gefur ástæðu til að ætla, að prestur gæti nú haft mun stærra svæði til yfirsóknar en áður var.

Við þetta bætist, að ný andleg áhrif streyma nú í fossaföllum yfir þjóðina frá margvíslegum öðrum hliðum en prestanna og kirkjunnar. Blöð, bækur, tímarit og útvarp veita áhrifum sínum og straumum yfir þjóðina með meira flugi en áður hefir þekkzt. Mér virðist svo, og sjálfsagt mörgum fleirum, að kirkjan hafi verið of treg til að færa sér þessi áhrif í nyt og láta þau styrkja sig, en ekki lama. Allir þessir nýju straumar valda því, að aðstaða þjóðarinnar til prestanna er allt önnur en hún var. Sá tími er liðinn, er prestarnir voru hinir einu andlegu leiðtogar þjóðarinnar og hún fór á mis við öll önnur andleg áhrif en þau, sem frá þeim komu.

Og þá vík ég að útvarpinu, sem hefir öll skilyrði til þess að geta orðið sterkur menningarþáttur og um leið það menningartæki, sem ætti að gera það vel fært að fækka prestum til muna. Að vísu liggja ekki fyrir neinar skýrslur um það, hve margir hlusta á útvarpsmessur. En við skulum líta á málið út frá skynsamlegum forsendum. Í sveitum landsins eru kirkjurnar h. u. b. undantekningarlaust óvistlegar, óhitaðar og óskreyttar og hafa lítil skilyrði til að laða fólk að sér. Auk þess er víða örðugleikum bundið að halda uppi kirkjusöng. En síðan útvarpsmessurnar komu og fólk getur hlustað á þær í stað húslestranna gömlu í hlýindum heima hjá sér og jafnframt hlustað á hinn bezta söng og hljóðfæraslátt, sem völ er á, þá liggur í augum uppi, að kirkjunum veitist erfitt að halda velli. Enda er það vitað mál, að kirkjusókn í landinu er stórþverrandi síðan útvarpið tók til starfa.

Skilningur þjóðarinnar á nauðsyn þess að taka útvarpið í víðtæka þjónustu sína hlýtur að fara vaxandi. Það verður ekki aðeins tekið í þjónustu kirkjunnar, heldur einnig í þarfir fræðslu- og uppeldismála miklu meir en verið hefir. Sá tími mun koma, að mikið af fræðslu fer fram á einum stað, en er síðan veitt inn í hvern skóla og jafnvel inn á hvert heimili. Og eins mun vaxa ómótstæðilega sá skilningur, að útvarpsmessur eigi að koma í staðinn fyrir kirkjumessur í sveitum, enda sækir nú þegar í það horf.

Viðvíkjandi einstökum atriðum till. vil ég lýsa yfir því, að ég er í raun réttri sammála till. eins og hún liggur fyrir. En brtt. hv. þm. Mýr. er hinsvegar að mínu áliti skynsamleg eftir ástæðum málsins. Fyrsta sporið hlýtur að vera að gera athugun á því, hve mikið er fært að færa þessa starfrækslu saman vegna breyttra staðhátta. En þótt ég áliti seinni hl. till. alveg réttmætan, tel ég ekki nauðsynlegt að þrýsta honum fram nú og stofna þar með, ef til vill, aðaltill. í hættu. Legg ég því til, að hv. þd. gefist kostur á að greiða atkv. um till. í tvennu lagi, ef till. hv. þm. Mýr. skyldi falla.