02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

140. mál, fækkun prestsembætta

Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir ekki undarlegt, þó hv. flm. leggi lítið upp úr því, sem ég segi um þetta mál, þegar hann telur marklaus þau svör, sem koma um það frá miklum hluta þjóðarinnar. Tek ég mér því alls ekki nærri þau ummæli hans.

Annars virðist mér hv. flm. vera farinn að draga saman seglin frá því, sem hann fullyrðir í grg. till. Hann segir sjálfur hreint út, að það taki því naumast að hreyfa við því skipulagi, sem nú er í þessu efni, til þess að breyta því í smáum stíl. Um það atriði er ég honum alveg sammála. Og það var einmitt álit meiri hl. kirkjumálan., að það væri um svo smávægilegar breyt. að ræða, sem gera mætti án þess að skaða hina kirkjulegu starfsemi, að það tæki því ekki að gera þær. Það getur vitanlega hagað svo til á einstaka stað, að gera mætti að skaðlitlu breyt. í þá átt að stækka prestaköll, en það er svo óvíða, að það hefði sama og enga raunverulega þýðingu, hvorki frá sparnaðarsjónarmiði né með tilliti til starfseminnar.

Hv. flm. taldi það ekki rekast á hjá sér, þó hann talaði um það hvorttveggja í senn, að þetta væri sparnaðartill. og hitt, að með því að fækka prestunum væri ætlunin að bæta kjör þeirra, sem eftir yrðu. Hann kvaðst geta hugsað sér, að t. d. 60 prestsembætti væru afnumin og að helmingurinn af því, sem þannig sparaðist, væri látinn renna í ríkissjóð, en hinum helmingnum væri varið til að bæta upp laun prestanna, sem eftir yrðu. En hvaða gróði yrði nú þetta fyrir ríkissjóð? Byrjunarlaun presta eru ekki nema 2000 kr., svo hér væri ekki um neina afskaplega sparnaðarupphæð að ræða. Auk þess fengju prestarnir, sem eftir yrðu, enga raunverulega uppbót með þessu lagi. Ég býst jafnvel við, að kjör þeirra yrðu raunverulega lakari en nú er. Það mundi auka þeim svo mjög kostnað að taka við svo stórum prestaköllum, að það borgaði sig ekki fyrir þá, þó þeir fengju svo sem þúsund kr. meira í laun; það væri ekki nema fyrir auknum ferðalögum, og tæplega það. Ég hefi sjálfur reynslu í þessu efni. Ég þjónaði um nokkurt skeið tveimur prestaköllum, og segi ég það hreinskilnislega, að ég vildi ekki hafa þau auknu störf áfram, þótt mér yrðu greiddar 1000 kr. til viðbótar. Myndi það ekki svara kostnaði fyrir hin auknu störf og ferðalög.

Hv. flm. minntist á það, að hann hefði mikla tilfinningu fyrir prestum og högum þeirra. En ég get sagt honum, að okkur, sem störfum fyrir kirkjuna, er annara um hana og berum hana meira fyrir brjósti en eiginn hag. Skiptir það atriði engu máli, sem hann fór inn á, að í sumum héruðum séu messuföll tíð. Alstaðar, hvar sem leitað er í starfsmannastétt þjóðfélagsins, finnast misbrestir, jafnvel í hans eigin stétt, og ekkert starf og enga stétt má dæma eftir því einu, sem áfátt kann að vera.

Þá blandar hann því saman, er raddir komu fram um það 1903 að fækka prestunum, og því viðhorfi, sem nú er. Það hafa engar raddir komið fram um þetta frá kirkjunni nú. Enda hefir þessi fækkun verið að fara fram allt fram á þennan dag. Sá samdráttur, sem áætlaður var 1907, er ekki einu sinni allur kominn til framkvæmda ennþá. Held ég, að eftir sé að leggja niður 2 prestaköll enn samkv. till. kirkjumálan. 1907. Þær ástæður, sem nú eru, krefjast því ekki frekari fækkunar, vegna þeirra aðgerða, sem á undan eru gengnar, — síður en svo.

Vil ég svo enda mál mitt með því að undirstrika það, sem hv. 1. þm. S.-M. benti á, að fækkun þessi myndi aðallega lenda á sveitunum, en yrði vafalaust engin í kaupstöðum og kauptúnum. Skil ég ekki, að það geti verið vilji kjósenda í sveitum, að teknir séu af þeim þessir menn, sem þrátt fyrir galla sína og bresti, sem þeim hafa að ýmsu fylgt sem öðrum, hafa þó á liðnum öldum verið þeim á ýmsa lund styrkur í andlegum og veraldlegum efnum.