15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Þorláksson:

Ég vil leiða athygli að því, að sú tilhögun um þessa n., sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 376 frá þeim hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Eyf., að n. vinni kauplaust, er hin sama og samþ. var hér í lagaformi að því er snertir raforkumál landsins. (JBald: Í henni eru launaðir embættismenn). Þetta álít ég hentugt fyrirkomulag. Það fyrirbyggir það, að starfið í n. verði notað til þess að gefa pólitísk bein eða bitlinga.

Þessu máli verður samkv. brtt. á þskj. 376 svo skipað, að það fellur í verkahring sjálfra félaganna, sem njóta eiga góðs af starfi n., að meta og yfirvega, hvaða rannsóknir eigi að gera. Ég álít farsælast að veita þeim aðilum nokkuð frjálsar hendur um, hvað gera ber. Hin brtt., á þskj. 399, er um að takmarka útgjöldin öll við ákveðna upphæð. Mér skilst að sú till. muni takmarka um of getu n. til að vinna að því, er hún telur nauðsynlegt. Ef sú till. verður samþ., er ég hræddur um, að hún verði til þess að gera starf n. óþarflega lítilfjörlegt. Ég mun því heldur fylgja till. á þskj. 376 en till. hv. 2. landsk.