10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Ég sé ekki ástæðu til að ræða almennt um þetta mál nú. Það hefir áður verið vikið að ástæðunum fyrir því, að frv. þetta er fram komið, og þeirri þörf að breyta lögunum um bifreiðaskatt og hækka hann. Ég skal ekki fjölyrða um það, heldur víkja að brtt. þeim, er meiri hl. fjhn. ber fram á þskj. 103.

Það hafa áður komið fram tilmæli og tillögur ýmsra manna um það, að sá hluti skattsins, sem lagður verði sýsluvegum, verði hækkaður nokkuð. Hefir komið fram till. um það, að þessi hluti verði hækkaður úr 10%, eins og stungið er upp á í frv., og í 20% af öllum skattinum. Eins og sjá má af nál., þá vill meiri hl. n. fara hér mitt á milli og leggur til, að hann verði 15%. N. lítur svo á, að hér sé mjög í hóf stillt, og telur ekki sanngjarnt að hækka þann hlutann meira. Bifreiðaskatturinn er eingöngu ætlaður til þess að halda við gerðum akvegum og bæta þá, en ekki til nýlagninga. Samkv. upplýsingum vegamálastjóra eru nú gerðir þjóðvegir um 1400 km. á lengd, en sýsluvegir um 200 km. Hlutfallið er 1 á móti 7, og lætur því nærri að réttur hlutur sýsluvega í skattinum sé 15%. Það verður rúmlega hlutfallstala þeirra; en svo lítið er fram yfir, að ekki þýðir að fást um það.

Það hefir verið nokkurt ágreiningsmál áður, hvort kaupstaðirnir ættu að fá nokkurn hluta bifreiðaskattsins til viðhalds innanbæjarbrautum sínum, og einn nm. hefir skilað sérstöku nál. og leggur það til, að kaupstaðirnir verði hans aðnjótandi að nokkru. Ég ætla að vísu ekki að ræða um þetta nál. hv. 1. minni hl. að svo stöddu, en vil þó geta þess, að meiri hl. getur ekki fallizt á, að bæjarsjóðirnir fái hluta af bifreiðaskattinum til viðhalds vega í bæjunum eða til götugerðar þar. Í þeim kaupstöðum, sem flestar bifreiðar eru í, er svo ástatt, að allmikið af vegum innan lögsagnarumdæma þeirra er í þjóðvegatölu og því viðhaldið kostað af ríkissjóði. Svo er það í Reykjavík og svo er það víðar. Það kemur líka til greina, að svo er til ætlazt, að 20% af skattinum verði beinlínis varið til að malbika vegi, og eftir þeirri reynslu, sem fengin er, þá má ætla, að mest verði að því unnið á þeim stöðum, sem kaupstaðirnir hafa mest not af. t. d. hérna fyrir innan bæinn. Meiri hl. lítur því svo á, að kaupstaðirnir muni njóta allmikilla hlunninda af skattinum og því ekki þörf að ákveða sérstaklega beint framlag til þeirra af honum.

Nokkuð öðru máli gegnir þó um tvo bæi, Ísafjörð og Siglufjörð. Þar er svo ástatt, að bifreiðar, er þar eiga heima, geta ákaflega Iítið komizt á þjóðvegi landsins. Þess vegna gæti verið álitamál að ákveða þessum tveim bæjum einhvern hluta skattisins til götugerðar þar. En meiri hl. n. gerir þó ekki till. um það, því bæði er það, að fáar bifreiðar eru í þessum bæjum báðum, og svo er ekki útilokað, að þessir kaupstaðir komist bráðlega í vegasamband við önnur héruð.

En það er einn kaupstaður, sem hefir algerða sérstöðu í þessu efni. Það eru Vestmannaeyjar. Þar eru nú orðnar æðimargar bifreiðar, og svo er ástatt, að þær geta alls ekki notað vegakerfi landsins, hvorki nú né síðar. Í sumar flutti hv. þm. Vestm. till. um það, að 1/ 10 hluti af því, sem sýsluvegunum er ætlað, gengi til ræktunarvegarins í Vestmannaeyjum; verði till. meiri hl. n., um að hluti sýsluveganna verði 15%, samþ., mundi þetta nema 11/2% alls skattsins: Meiri hl. n. aðhyllist ekki þessa tilhögun, að tiltaka ákveðna upphæð í þessu skyni. En meiri hl. n. telur réttmætt, að ræktunarvegurinn í Vestmannaeyjum njóti sömu kjara og sýsluvegir landsins, og flytur brtt. þess efnis. Fer það þá eftir till. vegamálastjóra í hvert sinn og verður undir atvikum komið, hvað mikinn hluta þessara 15% ræktunarvegurinn fær. Hann verður í því efni jafnrétthár og hver einstakur sýsluvegur.

Að lokum vill meiri hl. n. fella niður að heimta jafnt framlag úr sýslusjóði eða sýsluvegasjóði móti framlagi af bifreiðaskatti. Ástæðan fyrir þessu er aðallega sú, að þegar sýslur hafa tekið upp sýsluvegasjóði með fullu tillagi, þá eiga þær hvort sem er heimtingu á helmings framlagi úr ríkissjóði, og þá er ekkert unnið við það fyrir þær að fá þessa hlutdleild í bifreiðaskattinum. Þær fá helmings framlag hvort eð er. En hlutur hinna sýslufélaganna, sem ekkert vilja leggja í sölurnar fyrir bættar samgöngur, verður betri, og sýnist ekki rétt að verðlanna hað. Með því að fella þetta ákvæði niður, þá standa allar sýslur jafnt að vígi.

Ég skal geta þess, að í brtt. meiri hl. er ofurlítil villa. Í 2. brtt. c-lið stendur: „síðasti málsl.“ o. s. frv., en á auðvitað að vera: síðasti málsl. fyrri málsgreinar.

Ég vona, að þessa lítilfjörlegu villu megi leiðrétta án brtt. í prentun.