03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3270)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jónas Þorbergsson:

Ég vil leyfa mér með fáum orðum að gera grein fyrir viðhorfi mínu til þessarar till. Mér þykir hún hafa tekið miklum stakkaskiptum í Ed., og þeim ekki til bóta. Mun ég því ekki geta fylgt henni óbreyttri út úr deildinni. Ég lít svo á, að í raun og veru sé ekkert hættulegt fyrir málið, þó að till. sé vísað til stj. Eins og kunnugt er, hefir stj. borið þessa till. fram eftir áskorun Iðnaðarmannafélagsins. Með því að vísa till. til stj. væri henni falið að ráða fram úr málinu. Teldi ég það viðunanlega afgreiðslu, þar sem þetta er áhugamál stj. sjálfrar, enda þótt hitt sé rétt, að skýr fyrirmæli þingsins myndu veita stj. sterkari aðstöðu til framkvæmda.

Ég tel það sérstaklega athugavert við till. eins og hún liggur fyrir, að hún mælir svo fyrir, að n. skuli starfa kauplaust. Ég hygg, að Alþingi bresti heimild til þess að skipa svo fyrir. Og gæfi það slík fyrirmæli, myndi það einungis binda hendur stj. í málinu og verða til hindrunar því, að verkið yrði vel af hendi leyst.

Ég mun nú þrátt fyrir þetta greiða atkv. með till. til síðari umr., í trausti þess, að þá komi fram brtt., sem ég teldi viðunanlegar.