03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ekki fallizt á það, að þessi n. verði rétt skipuð samkv. till., þar sem S. Í. S. og Fél. ísl. botnvörpuskipaeigenda er ætlað að nefna menn í hana. Ég held, að heppilegra væri, að þeir fulltrúar, sem eiga að vera fyrir landbúnað og sjávarútveg, væru skipaðir af Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélaginu. Að því er sjávarútveginn snertir, þá hefir Fél. ísl. botnvörpuskipaeigenda sérstöðu, þar sem það er aðeins fyrir eina tilgreinda veiðiaðferð. En Fiskifélagið er fulltrúi allra veiðiaðferða og hefir því aðstöðu til að líta meir á hag alls almennings, er fiskveiði stundar, hvort heldur sem er á stærri eða minni skipum eða bátum. Svipað er því varið með S. Í. S. og Búnaðarfél. Ísl. Ég held því, að heppilegra væri að breyta þessu og færa það í það horf, sem ég nú hefi lýst. Eins hygg ég, að það væri heppilegt, að Heimilisiðnaðarfél. Íslands ætti fulltrúa í n. Það hefir auk margs annars látið skinnaverkun nokkuð til sín taka.

Hér er um mörg verkefni að ræða. Þarf því að athuga vel, hvernig bezt yrði varið því fé, sem hægt væri að leggja af mörkum í þessu skyni, þegar til framkvæmda kemur. Það dugir heldur ekki að koma fram með till., er kostar milljónir að framkvæma, heldur verðum við að fikra okkur fram smátt og smátt. Undirstaðan þarf að vera sú, að allt strandi ekki á féleysi. — Ég mun koma með brtt. viðvíkjandi skipun n. til síðari umr.