23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

243. mál, síldarmat

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er alveg rétt, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að við hofum ekki í þessu frv. tekið upp ákvæði um aflaskýrslur. En það voru víst þær, sem hann átti við. (JAJ: Já). Okkur fannst þessar skýrslur ekki standa í beinu sambandi við lög um síldarmat. Hinsvegar er hægt að taka inn ákvæði um þessar skýrslur, og gæti n. t. d. í samráði við hv. þm. N.-Ísf. tekið þetta til athugunar til 3. umr., ef hann vildi, því að æskilegt væri, að þetta mál tefðist sem minnst héðan af. En um hitt atriðið, ákvæðin um, hvenær síldarsöltun megi hefjast, er það að segja, að fram hjá því hefir n. gengið viljandi, þar sem hún ætlaðist til samkv. þriðju brtt. sinni, að yfirsíldarmatsmaður og undirsíldarmatsmaður í umboði hans hafi úrskurðarvald um söltunarhæfi vörunnar. Þegar yfirmatsmaður hefir úrskurðarvald um söltunarhæfi síldarinnar, ætti ekki að þurfa önnur ákvæði um, hvenær byrja mætti söltunina. N. hefir yfirleitt viljað leggja sem mest vald í hendur yfirmatsmannsins, í því trausti, að til þess starfs verði valinn hæfur maður. En hún hefir líka lagt honum á herðar mikla ábyrgð í þessu efni. — N. virðist óheppilegt, að ákvæði, er snerta gæði vörunnar, komi úr annari átt en frá yfirmatsmönnum. En hinsvegar skal ég fúslega mælast til þess við form. n., að hann stuðli að því að þetta geti orðið, ef hv. þm. N.-Ísf. vildi eiga tal við n. um þetta atriði. Æskilegt væri, að málið fengi afgreiðslu á þessum fundi til 3. umr. og að hv. þm. N.-Ísf. vildi geyma till. sína til þess tíma.