07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (3304)

243. mál, síldarmat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það var nokkuð tímanlega á þingi, að sjútvn. þessarar hv. d. flutti frv. um síldarmat. Það frv. var samið á sama grundvelli og frv. um sama efni, er mþn. 1927 samdi og lagt var fyrir Alþingi 1928. Þetta frv. lagði n. til grundvallar með lítilfjörlegum breyt., en hélt stefnu þess að mestu leyti. Og við samningu frv. hafði n. með í ráðum Jón Bergsveinsson yfirsíldarmatsmann.

Frv. þessu var tekið vel hér í hv. d. og gekk greiðilega í gegnum hana. En þegar til hv. Nd. kom, brá svo við, að hv. sjútvn. þeirrar d. umsteypti því, svo að þegar það kemur hingað aftur, þá er það allt annað frv. Þó að frv. hefði verið breytt að orðalagi, þá var ekkert við það að athuga, en hér er um gerólíkar stefnur að ræða, svo að mikið ber á milli.

Frv. það, sem sjútvn. þessarar hv. d. flutti, lagði til grundvallar, að öll síld yrði metin við söltun. Þessu hefir hv. sjútvn. Nd. hafnað og fengið samþ., að öll síld, sem út er flutt yngri en þriggja vikna, skuli undanþegin mati. Auk þess er gengið svo frá útflutningsmatinu, að látið er nægja, að skoðaðar séu 4–6 tunnur af hverjum 100, sem út eru fluttar, og mega þá allir sjá, um hverskonar mat er að ræða, þegar ekki er skoðað nema 4–6% af þeirri síld, sem út er flutt. Í því sambandi vil ég benda á, hve langt við mundum komnir að vinna fiskimati okkar það traust, er það nýtur, ef við hefðum ekki gert hærri kröfur til matsins en að skoða 4–6 pakka af hverjum 100, sem út eru fluttir.

Í frv. sjútvn. Ed. var miðað við, að öll síld skuli metin við söltun og verði svo undir umsjón matsmanna þangað til hún er flutt út og þá er framkvæmt endurmat, ef hún hefir legið lengri tíma en 3 vikur.

Þar sem svo mikið ber á milli sjútvn. í hv. Nd. og Ed., hefir n. hér ekki séð sér annað fært en að breyta frv. aftur í það sama horf og hv. Ed. afgr. það frá sér. Og þannig er frá þessu gengið í brtt. á þskj. 616.

Ég tel óþarft að hafa langt mál um þetta. Hv. d. hefir áður sýnt fullan skilning á máli þessu, og geri ég því ráð fyrir, að hún gangi að brtt. n. Ég vil taka fram, að það er erfitt að bera saman fiskimat og síldarmat. Þó að síldin sé fiskur, er mat á henni miklu skyldara mati á kjöti. Ég geri ráð fyrir, að sjálfsagt þyki, að mat á kjöti fari fram áður en saltað er niður í tunnurnar og kjötið þá skoðað, í stað þess að rifa upp úr tunnunum og skoða hvern bita.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu. Ég hefi lyst fyrir hv. d., hvað sjútvn. deildanna ber á milli og vænti því, að brtt. okkar verði samþ. og frv. endursent hv. Nd.

Annars skal ég engu spá, hvernig fer um frv., en mín sannfæring er, að það sé ekki betri lausn á málinu að samþ. það eins og hv. Nd. hefir gengið frá því. Þá getum við alveg eins látið allt standa eins og það er um eitt ár enn.

Ég læt þá staðar numið hér og vænti, að hv. d. lati sér nægja þessar skýringar og fallist á brtt. okkar á þskj. 616.