12.03.1932
Neðri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Mér þótti miður, þegar ég heyrði þá yfirlýsingu hjá hæstv. fjmrh., að hann mundi ekki taka til greina þá till., sem við þm. Rang. höfum komið með, að nokkur hluti af þessum skatti færi til að styrkja flutninga til hafnleysishéraðanna. Hann viðurkenndi þó rétt þessara héraða í öðru orðinu, og er enda ómótmælanlegt, eins og ég tók fram síðast, að þessi héruð, sem hafnleysið þjáir mest, verða mest útundan með styrk til flutninga sinna.

Hæstv. ráðh. sagði, að betra væri, að slíkur styrkur væri tekinn upp í fjárl. en að veita til þess nokkrum hluta af þessum skatti, en ég fæ ekki skilið þá röksemdaleiðslu. Það er ekkert annað en að taka úr þessum vasanum, en ekki hinum, því að svo er til ætlazt, að allur þessi skattur renni í ríkissjóð — og verður þá ekki séð, hver munur er á því, að styrkurinn sé ákveðinn hér eða með fjárlagaákvæði.

Það er miklu réttara, að þessi styrkur kæmi sem víst hundraðsgjald af skattinum, því að eftir því sem þessi flutningatæki eru meira notuð, þá verða þessar tekjur meiri, svo að styrkurinn færi á hverjum tíma eftir því, hve mikið þessi flutningatæki eru notuð. — Eftir því, sem flutningarnir, og umferð eykst, vex þá einnig styrkurinn og er það í alla staði réttmætt.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að rétt væri að styrkja þessi héruð með því að veita þeim fé í fjárl., en ég hefi samt ekki getað séð bóla á því í fjárlagafrv. því, sem hér hefir verið lagt fyrir þingið, og eftir því, sem allt útlit bendir til, þá býst ég við, að langt verði þangað til þessi styrkur verður tekinn þar upp.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á það, að þetta væri ekki bein skattaálagning á þessi flutningatæki, því að með þessu væri aflað tekna, sem færu til að bæta vegina, og því betri sem vegirnir væru, því auðveldari flutningar og því minna slit á bílunum og eyðsla á benzíni. Það er rétt, að ef þessum tekjum væri varið til að bæta vegina, að auki við það fé, sem nú er til þess varið, þá hefði hæstv. ráðh. nokkuð til síns máls. En ég býst ekki við, að þetta sé meiningin, þó að frv. verði samþ., heldur eigi að létta af ríkissjóði þeim fjárframlögum, sem veitt hafa verið í fjárl. hingað til, en eigi að flytjast yfir á flutningatækin sjálf. þau eiga að bera allt viðhald veganna, a. m. k. hefi ég skilið hæstv. ráðh. svo. Og þá sé ég ekki að þessi héruð séu betur komin en áður, eða neitt sé unnið til að gera vegina betri og draga úr eyðslu og sliti flutningatækjanna, sem um þá fara. þetta er ekkert nema tilraun til að koma vegaviðhaldinu yfir á flutningana sjálfa, og það viðurkenndi hæstv. fjmrh. að nokkru leyti í sinni framsöguræðu.

Ég tók það fram, síðast þegar ég minntist á þetta mál, að ég teldi þennan skatt eiga nokkurn rétt á sér, en höfuðókostur hans er sá, að þessir nauðsynjaflutningar til þeirra héraða, sem eingöngu verða að nota landflutninga, eru, eins og hv. þm. Seyðf. tók fram, skattlagðir jafnvel hærra en fólksflutninga- og „luksus“-bílar. Þetta er ómótmælanlegt, þar sem vitanlegt er, að það er allt að helmingi meira benzín, sem flutningabifreiðar þurfa, heldur en fólksflutninga- og „luksus“-bifreiðar, en svo er til ætlazt, að aðalskatturinn verði á benzíninu. Ég vil beina því til hæstv. fjmrh. og hv. þdm. yfirleitt, hvort þeir viti þess nokkur dæmi í siðuðu landi, að skattlagðir séu flutningar á nauðsynjavörum manna út um landið. Það mætti með jafnmiklu réttlæti skattleggja vöruflutninga milli hafna og með ströndum fram á strandferðaskipunum. (ÓTh: Það er gert með kolatolli og skipagjöldum.) Þau gjöld eru ekki á innanlandsflutningum. Að vísu veit ég, að þess eru dæmi í öðrum löndum að skattur er lagður á benzín, en þar er það ekki notað til þess að knýja aðalflutningatækin, þar eru flutningar að mestu með járnbrautum, en hér á landi eru bílarnir einu flutningatækin.

Hæstv. fjmrh. sagði, að erlendis þekktist það ekki, að flutningarnir væru styrktir meira en það, að járnbrautirnar væru gefnar. Við mundum þá ekki heldur sjá ástæðu til að kvarta, ef hæstv. ráðh. vildi gefa vegi fyrir bílana til flutninga á nauðsynjavörum um sveitirnar og gefa bílana líka. En héruðin standa nú að mestu sjálf undir vegakerfinu hér á landi og mikill hluti vegaviðhaldsins hvílir á heim. Hinsvegar mun það ekki vera rétt hjá hæstv. ráðh., að flutningar með járnbrautum erlendis séu hvergi styrktir af ríkjunum. Járnbrautir eru víðast hvar reknar með miklum halla, og rekstrarhallinn er venjulega greiddur af rikjunum. Opinber flutningastyrkur er því venjulega mestur með járnbrautum.

Hæstv. fjmrh. minntist á, hvað bifreiðaskatturinn yrði hár samkv. þessu frv. og taldi, að hann yrði ekki þungbær. Hafði hann það eftir vegamálastjóra, að skatturinn mundi verða 2 kr. á hverja smálest fyrir 100 km. vegalengd. En ég hefi það eftir bifreiðastöð, sem hefir mikla reynslu um flutninga á vegum hér austanfjalls, að þessi skattur muni ekki verða undir 5–6 kr. af hverri smálest fyrir slíka vegalengd, af því að vegirnir eru oft slæmir og bílarnir eyða þá miklu meira benzíni en ella. Það má ekki miða þessa áætlun við það, þegar vegirnir eru beztir að sumarlagi. Ég get ekki fallizt á, að flutningaþörf á meðalheimili yfir árið sé ekki meiri en 4–5 bílhlöss. Ef hæstv. ráðh. hefir miðað við þetta, er hann samdi frv. sitt, þá skil ég betur og get frekar afsakað afstöðu hans nú til þessara héraða, og þar sem hann þá líka hefir gert sér alranga hugmynd um skattgreiðslu af hverri smálest. Þetta sýnir ókunnugleik hæstv. ráðh. á flutningaþörf heimilanna. Flutningaþörf meðalheimilis, sem þarf að flytja allar nanðsynjavörur að og frá heimilinu, er áreiðanlega miklu meiri en 4–5 smálestir á ári. Við skulum t. d. nefna mjólkurflutningana í þeim sveitum, þar sem mjólkurbúin starfa. Eftir því, sem ég þekki sjálfur til nú, munu ekki minna en 7–8 smálestir frá hverju meðal heimili á ári af mjólkinni einni, og víða þarf að flytja hana um 50–60 km. veg til búanna. Síðan bætist svo allt hitt við. Ég hygg, að nær lægi væri að áætla 10–12 bílhlöss á ári á meðalheimili, og með segjum 5 kr. skatti á hvert verður það upphæð, sem margan bóndann munar um.

Hæstv. ráðh. talaði um, að koma mætti betra skipulagi á mjólkurflutningana en nú væri og að heimilin austanfjalls þyrftu ekki að flytja mjólkina til Rvíkur. Það getur vel verið, að eitthvað megi bæta úr núverandi erfiðleikum við mjólkurflutningana, en þó verður alltaf langur og erfiður flutningur austan úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslum til mjólkurbúanna, sem nú starfa. Ég bið hv. þdm. að athuga, að hér er ekki um smáræðisskatt að gera á þessum flutningum, og þó að mjólkin sé ekki öll flutt til Rvíkur, þá þurfa bændur að flytja þangað þá vöru, sem unnin er úr mjólkinni. Með bættum samgöngum á að koma meira fjör í framleiðsluna í sveitunum og aðrar framkvæmdir þar; samhliða því vex flutningaþörfin á tilbúnum áburði, kraftfóðurvörum og byggingarefni o. m. fl. Hvernig getur svo hæstv. ráðh. hugsað sér, að flutningarnir séu ekki meiri en 4–5 smálestir á meðalheimili? Með auknum framförum í sveitunum vex flutningaþörfin og flutningamagnið, og eftir því verður þessi flutningaskattur þyngri og tilfinnanlegri fyrir bændur.

Með tilliti til okkar, sem búum á Suðurlaglendinu, er hér ekki farið fram á beinan flutningastyrk í þeirri brtt. á þskj. 97, sem við flytjum við frv., heldur að þau héruð, sem ekkert gagn hafa af strandferðum ríkisskipanna, fái að losna við a. m. k. nokkurn hluta af þeim nýju álögum, sem hér er farið fram á að leggja á þau. En af því að við viðurkennum, að benzínskatturinn sé í vissum tilfellum réttlátur, þá flytjum við till. í því formi, að þessi héruð fái hluta af skattinum endurgreiddan sem styrk.

Það er okkar mesta mein, hvað bílaflutningarnir eru skipulagslausir, og með félagsskap og samtökum bænda mætti gera þá ódýrari, ef kostur væri á ákveðinni fjárupphæð árlega til þess að létta undir með þeim og koma því í fast og ákveðið horf.

Ég hefi ekki aflað mér upplýsinga eða gert yfirlit um það, hvort héruðin austanfjalls hafi fengið meira fé til vegagerða og vegaviðhalds en öll önnur héruð samanlögð, eins og vikið var að af einhverjum hv. þdm., og mun ég ekki deila um það nú. En meðan það er ekki sannað samkv. skýrslum um fjárframlög til vega í landinu, þá leyfi ég mér að halda því fram, að héruðin sunnanlands hafi ekki fengið meiri fjárframlög til vega og brúa en önnur héruð, og þó hefir Suðurlaglendið verið afskipt strandferðastyrknum, eins og kunnugt er. Það er mikill galli, að strandferða- og flutningastyrk þeim, sem ríkissjóður veitir, skuli ekki skipt eftir flutningamagni í hinum einstöku héruðum landsins og eftir aðstöðu þeirra til að flytja að sér og frá. Þá fyrst fengist eitthvert samræmi, sem réttlæti væri í.