01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (3407)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. Snæf. benti á, að hér væri um allháa fjárupphæð að ræða, eða um 40 þús. kr., sem verja mætti samkv. þessu frv. úr ríkissjóði, og það er vitanlega rétt, að þetta er allhá upphæð, eins og nú standa sakir. En á hitt má líta, að hér er aðeins um heimild að ræða, og í öðru lagi er ótvírætt gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæðum, sem fylgja frv., að framkvæmdir verði á annan hátt til að byrja með; þar er ætlazt til, að stj. leigi geymsluhús fyrir vörurnar, og ég held, að ég hafi getið þess í fyrri ræðu minni, að landbn. ætlaðist til, að þessi leið yrði farin í bili. Sami hv. þm. benti á, að þetta bjargráð kæmi ekki að notum nema takmörkuðu svæði: Það er að vísu rétt, en þetta er aðeins byrjunin, og það er rétt, að hún sé gerð í langfjölmennasta hluta landsins, það hefir vitanlega mesta þýðingu. Í Reykjavík er langmestur markaður fyrir innlenda framleiðslu.

Hv. 2. landsk. var að spyrjast fyrir um, hvort n. hefði nokkuð kynnt sér, hvort líkur væri fyrir, að húsrúm fengist leigt hér í bænum til vörugeymslu. Ég skal játa, að n. hefir ekkert grennslazt eftir því, enda ekki talið það sitt hlutverk. En í hv. Nd. mun það hafa komið til orða, að hægt væri að nota kjallara þjóðleikhússins. Ég veit ekki, hvort hann er nothæfur, en ef svo er, þá sé ég ekkert á móti því, ef ekki þarf að kosta þar miklu til umbúnaðar áður. Hv. 2. landsk. benti á, að frv. kæmi að talsverðu gagni fyrir framleiðendur, sem vildu rækta meiri kartöflur en þeir gera nú; en það kemur líka þjóðarheildinni að miklu gagni að því leyti, að það sparar innkaup á erlendum vörum. Sami hv. þm. benti á, að þörf mundi vera fyrir þessa geymsluskála víðar en hér, og er það vafalaust rétt, en brýnust er hún hér á Suðvesturlandi og því eðlilegast, að þar sé byrjað. Annars minnir mig, að í frv. til breyt. á jarðræktarlögunum, sem var hér til umr. í þd. í gær, séu ákvæði um að greiða fyrir byggingu slíkra geymsluskála með styrkveitingum samkv. jarðræktarlögunum. Hv. 2. landsk. spurðist fyrir um það, hvort frv. ætti að skiljast á þann hátt, að í því fælust tvennskonar heimildir til stj., fyrst og fremst til þess að byggja geymsluskala og í öðru lagi til að leigja geymslurúm til bráðabirgða. Landbn. lítur svo á og ætlar stj. að leysa málið á hann hatt, sem henni virðist tiltækilegast.