01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (3409)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Jón Jónsson:

Ég verð að segja það, að ég átti alls ekki von á þessum undirtektum, sem þetta litla frv. hefir fengið. Hv. ræðumenn hafa talað um, að hér væri um stórfelld útgjöd að ræða fyrir ríkissjóð, en sú upphæð, sem heimiluð er samkv. 1. gr. frv., er allt að 40 þús. kr. Hv. ræðumenn minnast lítið á það, að með þessu frv. og öðru, sem drepið var því miður við 3. umr. í Nd., væri hægt að spara þjóðinni mikil útgjöld út úr landinu. Samkv. hagskýrslum hefir verið greitt út úr landinu á aðra millj. kr. fyrir garðavexti árlega. Mér finnst, að það þurfi að gera allt til þess að spara slíkar greiðslur og styðja þjóðina til þess að búa sem bezt að sínu, jafnvel þótt fórna þurfi til þess 40 þús. kr. greiðslu úr ríkissjóði. Það er ekki mikið, ef það hefir veruleg áhrif til þess að auka garðræktina. En nú þarf ekki að ráðast strax í þá byggingarframkvæmd, sem frv. gerir ráð fyrir, því að eins og hv. frsm. benti á, þá er stj. heimilað með bráðabirgðaákvæði að byrja með því að leigja geymslurúm fyrir vörurnar, og þá verða útgjöldin lítil fyrst í stað. Ég álít það mjög óviðeigandi, ef Alþingi synjar um styrk til þeirrar tilraunar, sem hér er farið fram á til viðreisnar framleiðslunni. Á þessum krepputímum eigum við að sækja sem minnst til útlanda, og ég minni aftur á það, að hér er um að ræða útgjöld, sem nema á aðra millj. kr. árlega. Það er ekki lítilsvert, ef hægt væri að snúa þessu við og láta þessar krónur renna í vasa innlendra framleiðenda. Þess vegna vona ég, að þetta litla frv. gangi fram. Um dagskrártill. þá, sem fram er komin frá hv. 2. þm. Eyf., er það að segja, að mér þykir hún taka of miklum vettlingatökum á þessu máli, þar sem skilyrði er sett um það, að fyrirgreiðsla stj. í þessu máli megi engan kostnað hafa í fór með sér fyrir ríkissjóð. Þetta þykir mér helzt til mikil nærsýni og smámunasemi.