26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það má segja um alla skóla, að þeir séu til að auka erfiðleika manna og baka þeim útgjöld. En það má þá líka fylgja með, að þeir veiti þekkingu. Það er vitanlegt, að áður urðu menn skipstjórar an þess að ganga á, en þó þótti rétt að setja á stofn stýrimannaskólann og heimta af þeim þekkingu. Þar voru í byrjun mismunandi próf, er gerðu mismunandi kröfur til þekkingar manna og veittu mismunandi réttindi. Í lögunum um vélstjóraskólann frá 1915 er líka gert ráð fyrir, að þar verði tvennskonar próf, líkt og á sjómannaskólanum. Mér skilst, að hv. þm. telji helzt ekki þurfa neina skóla fyrir vélstjóra, og þótt þeir hafi á engan skóla gengið, telur hann þá jafnhæfa til að starfa á stórum skipum sem smáum. Hann gerir sér ekki að góðu, að þeir fái réttindi á smærri skipum, heldur líka þeim stærstu. mér finnst hv. þm. vera nokkuð langt á eftir tímanum með þessa skoðun sína.

Ég ætla ekki að deila um það, hversu hæfir þessir menn eru til að gegna þessum störfum. Ég er sannfærður um, að sumir þeirra eru vel hæfir, en ekki allir. Hv. þm. fullyrti, að ekki mundu aðrir fá meðmæli en þeir, sem hæfir eru. Ég vona, að hann þekki samt lífið svo vel, að hann viti, að ýmsum tekst að hafa sér út vottorð, þótt skilyrði þeirra séu vafasöm. Þar kemur kunningsskapur og vensl til greina. Sannleikurinn er sá, að við nm. lítum svo á, að þannig mundi kannske að einhverju leyti verða farið einmitt um þá menn, sem hv. þm. flutti frv. sitt um. Hinsvegar hafði n. fyrir sér eindregin mótmæli gegn slíkri afgreiðslu málsins. í bréfi frá vátryggingarfélögunum er svo tekið til orða:

„Sérstaklega viljum vér taka það fram með tilliti til þeirrar ábyrgðar, sem vér tökum á oss, að oss þykir mikið á því ríða, að þeir menn, sem vélum skipanna stjórna, hafi svo fullkomna bóklega og verklega menntun sem auðið er. Teljum ver það með öllu óhafandi, að menn, sem engrar menntunar hafa notið í þessari grein, fái heimild til vélstjórnar, meðan aðrir vinnast til. — — Vér getum þess, að ver þorum ekki að ábyrgjast nema samþykkt slíkra frv. kunni að hafa óheppileg áhrif á vátryggingariðgjöld íslenzkra skipa“.

Skipaskoðunarstjórinn segir: „Alstaðar í heiminum er unnið að því að auka þekkingu þeirra manna á starfi sínu, er stunda siglingar, en hér virðizt eiga að stiga stórt spor aftur á bak. Nýlega hafa verið haldnar alþjóðaráðstefnur í Lundúnum um öryggi mannslífa á sjónum, og einn þátturinn í ákvæðum Lundúnasamþykktarinnar er sá, að gæta þess, að skipin séu vel mönnum skipuð“.

Loks hefir eftirlitsmaður með gufuvélum, Gísli Jónsson, eindregið mælt á móti þessari lagasetningu. (Gegn slíkum mótmælum hefir n. ekki treyst sér að ganga.

Þar sem n. leggur til, að komið verði á fót námskeiði samkv. 2. gr. 1. 1915, þá er þar með ekki farið fram á annað en það, sem ætlazt var til í upphafi, að gert yrði. N. leggur því ekki neinn nýjan kostnað á ríkissjóðinn, en hún hefir komizt að raun um, að hjá þessum kostnaði yrði ekki komizt. Hvernig þessu yrði hagað, skal ég ekkert segja um. Um það hefir engin reglugerð verið sett, svo ég viti. En jafnvel þótt ekki yrðu miklar kröfur geðar um námið, þá fengist þó dómur hæfra manna um þessa vélstjóra, í stað vottorða einhverra og einhverra, e. t. v. venzlamanna, samkv. frv. Í því liggur geysimunur.

N. heldur því fast við þá afstöðu sína, að ekki beri að flaustra þessu máli af á þennan hátt, heldur fara eftir því, sem gert var ráð fyrir í upphafi, og þessum mönnum gefinn kostur á að ganga undir minni háttar próf.