11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (3596)

8. mál, erfðaleigulönd

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. tók sér nú fyrir hendur að gera aths. við 3. gr. frv. og áleit, að eftir henni væri hægt að taka þær jarðir, sem samkvæmt l. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða eru ætlaðar til almenningsnota. Samskonar ákvæði og stendur í 3. gr. frv. hefir staðið í jarðræktarl. frá 1923. En þrátt fyrir það ákvæði hefir þó jafnan verið borið undir Alþ., þegar sala á slíkum jörðum hefir farið fram. Svo var t. d. gert með sölu á Garðalandi á Akranesi. Ég hygg, að svo muni og hér verða gert og að engin hætta verði á, að þessar jarðir verði teknar án vilja og vitundar þingsins. Þar sem búið er að ákveða, að jörð eða jarðarpartur skuli vera tekin fyrir bústað handa embættismanni, eða annars þess. er 1. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða ákveða, þá er ekki hægt að taka það til annara afnota, nema eftir sérstökum lögum. Þetta bið ég hv. 4. þm. Reykv. að athuga.