07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (3788)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki mikið að tala um fiskveðin. Það kom nefnilega ljóst fram í ræðu hv. 1. landsk., að hann hefir sterka tilhneigingu til þess að hallast á þá sveif, að bankarnir tapi þessu fé. Það var aðeins það, sem ég bjóst við frá honum.

Annars get ég sagt þessum hv. þm. aðra sögu. Einn af stærstu og hraustustu glímuköppum þessa lands er Sigurjón á Álafossi. Nú kom það fyrir, að maður einn afskaplega lítill og lítilfjörlegur vildi gera samanburð á sér og honum, en eins og kunnugt er, eru litlir menn ákaflega afbrýðissamir gagnvart þeim stóru. Ég skil því hv. þm. ofur vel. Hann er ekki aðeins lítill vexti hið ytra, heldur engu síður að því er sálina áhrærir. Hann veit þetta sjálfur og finnur til sívaxandi gremju við alla, sem geta meira gert en hann. Lítilleiki hans verður uppspretta að hatri hans og öfund.