12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (3803)

15. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. var mjög hneykslaður á því, að ég taldi það einungis formsatriði, eins og fimmtardómsfrv. er nú, hvort þar væri ákveðið að leggja skyldi hæstarétt niður eða ekki. Kvað hann einkennilegt, að við skyldum ekki vilja fella þetta ákvæði úr frv., ef við teldum það þýðingarlaust. Það er einmitt af því að við teljum rétta skaðlaust formsatriði, að við teljum alveg óþarft að fella það burt. Mér finnst það mjög eðlileg afstaða, að vilja ekki samþ. breyt., sem maður álítur á engan háatt til bóta, út því frv. einu sinn liggur svona fyrir.

Það er rétt hjá hv. þm., að þetta atriði hafði nokkra raunverulega þýðingu eins og frv. var upphaflega lagt fyrir þingið, þegar eftir því var ekki skylt að flytja Hæstaréttardómarana yfir í fimmtardóminn. Þá gat þetta orðið til þess, að hæstaréttardómararnir fengju ekki að ganga inn í fimmtardóminn, ef dómsmrh. vildi svo við hafa, og var þá talað um, að það mundi vera stjórnarskrárbrot. En nú, þegar búið er að setja það ákvæði inn í frv., að hæstaréttardómararnir flytjist yfir í fimmtardóminn, er ekki um annað að ræða en að breyta nokkuð starfsháttum réttarins og færa hann í svipað horf og æðstu dómstólar annara menningarlanda eru komnir í, og þá hefir ákvæðið um að leggja hæstarétt niður ekki raunverulega þýðingu fyrir nokkurn mann. Hitt, sem talað hefir verið um, að þetta sé fordæmi, sem vont sé, að löggjafarvaldið skapi sjálfu sér, er einskisvert atriði. Löggjafarvaldið getur hvort sem er alltaf gert það, sem því þóknast, innan þess ramma, sem stjskr. setur.

Hvernig stóð á því, að landsyfirdómurinn var ekki gerður að æðsta dómstóli landsins á sínum tíma? Hann var lagður niður og dómararnir úr honum fluttir yfir í hæstarétt, sem síðan hefir verið æðsti dómstóll landsins. Það hefði alveg eins mátt breyta landsyfirréttinum í æðsta dómstól, láta dóminn haldast með sama nafninu, en fá honum hendur úrslitadómsvald í landinu. En það kvartaði enginn yfir því, að hin leiðin var farin, og það er engin ásæða til að kvarta undan því, þó sama leið sé farin nú. (JAJ: Þá var verið að breyta dómaskipun landsins). Það er líka nú verið að skapa nýjan rétt undir nýju nafni með nýjum starfsháttum. Það er ekki nema stigmunur á þeirri breyt., sem gerð var, þegar landsyfirdómurinn var lagður niður, og þeirri, sem nú er gert ráð fyrir. Landsyfirdómurinn var raunverulega æðsti dómstóll landsins í allflestum málum, því það voru ekki nema örfá mál, sem fóru héðan til hæstaréttarins danska.

Hv. þm. er mjög vantrúaður á, að ákvæði frv. um skyldufélagsskap málafærslumannanna verði til bóta, og sagði, að þetta væri verið að lepja upp eftir öðrum. Mér þætti gaman að því, ef þessi hv. þm. vildi benda mér á stofnun í landinu eða þátt í löggjöf okkar, sem ekki er að einhverju leyti „lapin“ annarsstaðar að, eins og hann vill orða það. Er ekki á öllum sviðum reynt að fara eftir heim erlendu fyrirmyndum, sem skástar eru álitnar? Hæstaréttarlögin sjálf, sem þessi hv. þm. og flokksbræður hans vilja endilega halda í, eru að miklu leyti sniðin eftir dönskum lögum, m. ö. o. lapin frá Dönum, svo ég noti orðalag hv. þm. Það er ekki neitt nýtt, þó við sækjum fyrirmyndir að okkar löggjöf til annara þjóða, enda er það ekki nema sjálfsagt. Ekki höfum við fundið upp að hafa dómstóla, við höfum lært það af öðrum og notað okkur annara reynslu því sviði sem öðrum.

Hv. 4. þm. Reykv. taldi, eins og raunar hv. 2. þm. Reykv. líka, engin vandkvæði á að fá nægilega marga hæfa menn í æðsta dómstólinn og lagaprófessorsembætti háskólans, þó fastir dómendur væru 5. Ég er jafnsannfærður um, að það yrði erfitt að fá reglulega hæfa menn í þessi átta embætti, eins og lögfræðingastétt okkar er nú skipuð. Er það sérstaklega vegna þess, að dómaraembættin eru ekkert eftirsóttar stöður. Ýmsir af hinum betri lögfræðingum sitja í öðrum betri stöðum, eða vilja ekki útiloka sig frá opinberu lífi á þann hátt, sem heimtað er af dómurum æðsta dómstólsins.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði á móti frv. nokkuð almennt, eins og hann hefir gert hér áður. Aðalástæða hans gegn frv. er sit, að það hafi upphaflega verið flutt í einhverjum ljótum tilgangi. Ég vil minna hann á, að nú er búið að breyta þeim ákvæðum frv., sem andstæðingar þess munu hafa byggt á, þegar þeir töluðu um, að verið væri að ofsækja dómara hæstaréttar. Nú er búið að ákveða, að þeir flytjist yfir í fimmtardóm. Ef tryggja á þeirra rétt betur, verður að gera það með stjórnarskrarbreyt., koma í veg fyrir, að dómsmrh., hver sem hann nú er, geti látið þá fara úr réttinum, þegar þeir hafa náð 65 ára aldri. Um það gildir alveg það sama, hvort sem við búum áfram við hæstaréttarlögin eða fimmtardómsfrv. verður samþ. eins og það er nú. Það er því alveg einskisverð ástæða móti frv. eins og það er nú, þó þessi hv. þm. ímyndi sér, að það hafi, upphaflega verið borið fram í þeim ljóta tilgangi að ofsækja núv. hæstaréttardómara, sem auðvitað er ekki annað en órökstudd fullyrðing.

Hv. 2. þm. Skagf. beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvernig stæði á því, að við vildum halda prófrauninni fyrir málafærslumennina, en ekki fyrir dómara réttarins. Þar er ólíku saman að jafna. Það er sitt hvað, hvort dómararnir eiga að skera úr, hvort þeir vilja fá þennan eða hinn manninn inn í réttinn sem samverkamann sinn eða dæma um, hvort menn eru hæfir til að flytja mál fyrir réttinum. Ég hygg, að ekki sé hægt að benda á neitt tilfelli um, að málafærslumanni hafi verið neitað um að flytja mál fyrir hæstarétti af pólitískum ástæðum, en hinsvegar gæti verið rík ástæða til þess fyrir dómarana að hindra, að maður þeim andstæður í skoðunum taki sæti í réttinum sem samverkamaður þeirra, ef hlutdrægni kemst að á annað borð.

Hv. 2. þm. Reykv. svaraði nokkuð því, sem ég hafði rætt um 2 síðustu málsgr. 8. gr. í sambandi við þær brtt., sem meiri hl. allshn. hefir borið fram. Hann talaði um, að eftir gr. eins og hún er nú, væri forsrh. bundinn við að fara eftir ákvörðun ráðherrafundar, þegar hann gerir till. um veitingu dómaraembættisins til konungs. En ég vil benda honum á, að hvað þetta snertir er orðalagið alveg það sama í frv. og brtt. okkar; Í báðum stöðum er sagt, að veitinguna skuli „taka til meðferðar“ á ráðherrafundi. Það er ekkert tekið fram um það, að sá ráðh., sem till. á að gera til konungs, eigi að fara eftir ákvörðun ráðherrafundarins og í öðru lagi er ekkert tekið fram um það, að ráðherrafundurinn þurfi að taka nokkra ákveðna ályktun.

Hv. þm. taldi það aðalkost frvgr. eins og hún er nú, að eftir henni væri æðsta manni þjóðarinnar falið að gera till. til konungs um veitingu æðstu dómaraembættanna. Ég get ekki séð, að það sé neitt heppilegra, að æðsta manni þjóðarinnar sé falið það, heldur en æðsta manninum innan þessarar starfsgreinar, sem er dómsmrh. Það er miklu „logiskara“ að fela þetta æðsta manninum á því sviði þjóðmálanna, sem það heyrir undir.

Hv. þm. taldi það ekki sambærilegi við þetta, að svipta dómsmrh. t. d. náðunarvaldinu og fá það í hendur forsrh., hvaða ráðuneyti sem hann annars veitir forstöðu, því það væri oft um svo lítilfjörleg mál að ræða, þegar náðun væri veitt. Ég get nú samt bent á náðunartilfelli, sem meiri pólitískur þytur hefir orðið út af heldur en veitingu hæstaréttadómaraembætta, eins og t. d., þegar Ólafur Friðriksson var náðaður hér á árunum. Það væri því engu minni ástæða til, ef á annað borð þarf að fara að taka af dómsmrh. hans vald og fá það í hendur „æðsta manni þjóðarinnar“ til frekari tryggingar, að taka af honum náðunarvaldið, en veitingarvald dómaraembættanna eða tillögurétt um veitingu þeirra.

Hv. þm. (EA) taldi ekki neitt formsbrot þó atvm.- eða fjmrh. væri fengið í hendur veitingarvald dómarembættanna. En það liggur í augum uppi, að auðvitað kemur það algerlega í bága við þá starfsskiptingu, sem ákveðin hefir verið með lögum milli ráðuneytanna. Það eru engin takmörk fyrir því, hvað mikið mætti rugla á milli þeirra á þennan hátt, ef gengið er inn á þá braut á annað borð.

Annars er það eftirtektarvert, að næstum því allar brtt., sem andstæðingar okkar framsóknarmanna flytja eða fylgja fram í þessu máli, miða að því að rýra vald dómsmrh. Það er alveg eins og þessum hv. þm. finnist óhugsandi, að nokkurntíma geti nokkur annar maður orðið dómsmrh. hér á landi heldur en hæstv. núv. dómsmrh., sem heim mun vera sérstaklega illa við. Þeir vilja ekki hafa aukadómara, því þá gæti dómsmrh. fengið tækifæri til þess að skipa menn í réttinn. Þeir vilja endilega halda í dómaraprófið, því það gæti rýrt veitingarvald dómsmrh., og þegar það ekki tekst, þá vilja þeir taka veitingarvaldið alveg af dómsmrh. og leggja það undir ráðherrafund og fela forsrh. að gera till. til konungs um veitinguna. Hv. 4. þm. Reykv. flytur till. um, að dómsmrh. skuli vera skylt að veita leyfi til afrýjunar, þó áfrýjunarfresturinn sé útrunninn; það miðar líka að því að rýra vald dómsmrh. Þannig mætti fara í gegnum allan fjöldann af brtt. hv. andstæðinga frv. Allar miða þær að þessu sama. Það væri verst fyrir þessa hv. þm., ef þetta kæmi heim sjálfum í koll. Það gæti komið fyrir, að einhver þeirra ætti eftir að verða dómsmrh., og væri þá illt fyrir hann hinn sama, ef búið væri að kippa burtu svo og svo miklu af því valdi, sem hann þá gjarnan mundi vilja fá.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það ekki annað en fyrirslátt hjá mér, að ekki yrði hægt að fá nógu marga hæfa lögfræðinga í réttinn, þó fastir dómarar ættu að vera 5, nema þá ef ég ætlaðist til, að farið væri að velja þá eftir stjórnmálaflokkum. Ég hefi áður getið um það, að ég tel vafalaust, að erfitt yrði að fá hæfa menn í þessi 5 dómaraembætti, auk hinna þriggja prófessorsembætta við lagadeild háskólans, þó vitanlega sé ekki bundið við, úr hvaða stjórnmálaflokki þeir eru. Það þýðir ekki að telja upp, að til séu svona og svona margir skrifstofustjórar og sýslumenn á landinu, sem uppfylli skilyrðin til þess að geta orðið Hæstaréttardómarar. Það er ekki víst, að þeir séu hæfir til þess, og það er ekki vist, að þeirra kringumstæður séu þannig, að þeir vilji fara í réttinn. Ég álit, að margir af helztu lögfræðingum okkur kæri sig alls ekkert um það. Mér er t. d. ekki grunlaust um, að hv. 2. þm. Reykv., sem ég tel einna hæfastan okkar lögfræðinga að ýmsu leyti, mundi ekki þiggja það, þó honum væri boðið fast embætti í réttinum.