02.04.1932
Neðri deild: 41. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3859)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég ætla að svara hv. þm. N.-Ísf. strax. Það á ekki við að koma með samanburð á strandferðum ríkissjóðs nú og fyrir ófriðinn. Það væri réttara að gera t. d. samanburð á kostnaðinum fyrst eftir að Esja kom og svo eftir að núv. stj. tók við. Erfiðleikarnir á útgerð skipanna aukast alltaf. Þeim hefir fjölgað og dregur úr flutningsmagninu nú í kreppunni og sumar vörur verður að flytja fyrir hálft flutningsgjald vegna lækkandi verðlags. Síðasta ár var óvenjulegt. Þó má geta þess til samanburðar, að 1928 kostaði hver hringferð 12 þús. kr., en nú 9 þús.; svo mjög hefir útgerðarkostnaðurinn lækkað. Spurningin er því hér, hvort fækka eigi ferðunum, taka þær af fólkinu. Það þurfa hv. þm. að taka ákvarðanir um og segja til um skýrt og glöggt án minnstu hræðslu við það, hvort þeir við það missi atkv. fólksins eða ekki.