22.02.1932
Neðri deild: 7. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (3879)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Ólafur Thors:

Ég er vanur að taka þátt í afmælisfagnaði „ömmu gömlu“, sem haldinn er árlega hér á Alþingi. Að þessu sinni mun ég þó láta minna af mörkum í þeim fagnaði en venja mín hefir verið. — Frv. þetta er nú borið fram hér á Alþingi í fimmta sinn, ef ég man rétt, og er það órækur vottur hinnar sívaxandi lítilsvirðingar hæstv. dómsmrh. á Alþingi: Eftir að hæstv. ráðh. tvívegis hafði borið frv. fram hér í þinginu, og það í bæði skiptin lognazt út af vegna þegjandi andúðar og fyrirlitningar flokksbræðra ráðh., skyldi maður hafa haldið, að hann hefði látið sér segjast við það, en þó fór á annan veg, því að ráðh. flutti frv. hið þriðja sinn, og var þá þolinmæði flokksbræðra hans svo ofreynd, að tveir þeirra greiddu atkv. á móti frv., og aðrir tveir létu sig vanta við atkvgr., beinlínis í því skyni, að frv. fengi að sofa áfram, enda varð og sú niðurstaðan. Þá bar hæstv. ráðh. frv. fram í hið fjórða sinn á þinginu 1931, og var „amma gamla“ þá drepin með þingrofinu sællar minningar, og nú er hún vakin upp aftur hið fimmta sinn, en það er hugboð mitt, að forlög hennar verði hin sömu enn sem fyrr. (Dómsmrh.: Við sjáum nú til). Má og vel vera, að hæstv. dómsmrh. verði vikið úr stj. eins og í fyrra upp úr þingrofinu, og ætla ég þá, að saman fari karl og kýll. — Vegna þess hugboðs míns um forlög frv. sé ég ekki ástæðu til að fara inn á sjálft málið nú. Að því er snertir þessa. tilraun hæstv. dómsmrh., sem hefir tekið sérstakan mann á laun í algerðu heimildarleysi til þessa eftirlits, verð ég að segja það, að á henni verður ekkert mark tekið um aðstöðu ráðh. til að gera þær ráðstafanir í þessu efni, sem þurfa má þykja. Sýndi ég greinilega fram á það á þinginu 1931, að stj. hefir næg völd í sínum höndum samkv. núgildandi l. til allra nauðsynlegra ráðstafana, og rakti ég þá lið fyrir lið álit þessa merka lögfræðings, sem hæstv. dómsmrh. vitnar í um nauðsyn þessarar lagasetningar, og sýndi fram á, að allt þetta, sem þessi merki lögfræðingur segir um málið, er helber vitleysa. Í trausti þess, að þm. séu enn minnugir þessara röksemda minna, sem og vegna hugboðs míns um giftuleysi þessa frv., sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta ómyndarlega vesældarfrv. að svo stöddu.