15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. tveimur síðustu ræðumönnum má vera fullkomlega ljóst, að það er ekki hægt að létta af verðtollinum, vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs. Um rök þau, sem þeir hafa flutt gegn frv., nenni ég ekki að fást, en vil aðeins minna á það, að verðtollurinn var lögtekinn á krepputímum, árið 1924, fyrir forgöngu tveggja flokka, Framsóknarfl. og Íhaldsfl., sem þá fór með stjórnina, og síðan hafa þessir flokkar staðið saman um að framlengja tollinn. Um afstöðu Alþýðufl. gagnvart verðtollslögunum er það að segja, að hún hefir verið upp og niður, ýmist lítið eða mikið áberandi; stundum hefir hann verið hlutlaus, en venjulegast í andstöðu við tollinn. Þegar þessi tollur var settur fyrir 8 árum vegna fjárhagskreppu, sem þó var miklu minni en sú, sem nú geysar, og ósambærileg henni á allan hátt, þá liggur í augum uppi, að það eru engar ástæður til að afnema hann nú. 4 móti þessu verður ekki mælt með neinum rökum. Hv. þm. Seyðf. hlýtur að vita, að ef felldir verða niður vörutollur og verðtollur, þá mun ganga illa að innheimta á þessum tímum 4–5 millj. kr. í þeirra stað með beinum sköttum í ríkissjóð. Ég þekki enga tíma, sem eru óheppilegri en einmitt kreppuárin til þess að felldir verði niður tollar og óbeinum sköttum breytt í beina skatta. Þessi tollur er bæði réttlátur og eðlilegur, ef honum er hæfilega skipt niður á vöruflokkana og eftir verðgildi þeirra, og enda þótt ástæða væri til að lagfæra verðtollslögin í einstökum atriðum, þá virtist mér hentara að flytja frv. um að endurnýja þau óbreytt, til þess að vekja ekki deilur í þinginu um breytingar á þeim í þetta sinn. Mér þótti líklegt, að þeir þingflokkar, sem hafa fylgt þessum lögum í 8 ár, mundu ekki snúast á móti þeim nú, og að fylgi þeirra yrði traustara, ef lögin væru óbreytt. Ég hafði hugsað mér að leggja síðar fram brtt. um að hækka verðtoll á algerlega óþörfum vörum þetta er nú gert í öllum löndum, eins og kunnugt er.

þetta verðtollsmál er þrautrætt hér í þinginu og ekki ástæða til að deila mikið um það nú. En því miður er það ekki rétt hjá hv. þm. Seyðf., að verðtollurinn gefi um 3 millj. kr. í ríkissjóð. Það er vonandi, að þessir tollar gefi báðir til samans 3 millj. kr. tekjur, en verðtollurinn gefur ekki yfir 11/2 millj. kr., ef útlitið batnar ekki, og það má jafnvel búast við, að þær geti lækkað um helming, eða niður í 3/4 millj kr. Munar það miklu frá því, sem áður var, þegar tekjur af honum voru 2 eða 21/2 millj. kr. Það er ekki rétt áætlað hjá hv. þm. Seyðf. að telja útgjöld af meðalheimili í landinu til ríkissjóðs jafnmikil nú og þegar ríkistekjurnar voru hærri, eða um 14–17 millj. kr. árl., — því þær hljóta að fara minnkandi, ef eigi fast nýir tekjustofnar. Hinsvegar hlýtur svo að fara, þegar heimtuð eru mikil útgjöld úr ríkissjóði, og er hv. þm. Seyðf. einn af þeim, sem slíks krefjast, að þá komi allmikil útgjöld á hvert meðalheimili í landinu.

Að lokum vil ég aðeins segja þetta: Þó að hv. þm. Seyðf. og hans flokksbræður vilji hafa einokun á málstað fátæklinganna í landinu, ef þeir svo ættu að bera ábyrgð á ríkisbúskapnum, þá hygg ég, að minna yrði um efndirnar gagnvart þeim fátæku en nú er af látið. Þeim mundi reynast örðugt að innheimta tekjur hjá burgeisunum, sem því miður munu reynast fáir nú á þessum tímum, því að kreppan gengur yfir alla. Ég býst við, að það færi fyrir þeim líkt og var í Hafnarfirði í vetur, þegar átti að taka allt af þeim ríku til þess að hægt væri að greiða fátæklingum styrki, sem næmu fullum daglaunum, að þá fundust aðeins 6 menn, sem gátu látið nokkuð af mörkum í skattgreiðslum. þennan sannleik munu allir stjórnmálaflokkar, sem með völd fara á þessum tímum, reka sig á.