01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í C-deild Alþingistíðinda. (3916)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Ólafur Thors:

Ég held fast við það, sem ég sagði áður, að ég man engin dæmi þess, að þm., sem ætlar að hefja umr. í máli, hafi ekki getað fengið forseta til þess að hlutast til um, að þdm. séu viðstaddir í d. meðan umr. fara fram. Hinsvegar get ég ekki stillt mig um að láta í ljós ánægju mína yfir því, hvílík fyrirlitning málinu er sýnd með þessu. (Dómsmrh.: Ræðumanninum er sýnd). Því fremur sem hæstv. dómsmrh. hefir ekki tekizt að knýja þm. inn í d., þótt hann hafi nú smalað í stundarfjórðung. — Ég skal svo snúa mér að málinu, enda þótt ég játi, að það er ekki þess vert, að um það sé rætt.

Þetta frv. er nú borið fram hér á Alþingi í fimmta sinn, og í hvert skipti, sem það hefir verið flutt, hefir þingið ýmist ekki viljað afgr. það, eða frv. hefir beinlínis verið fellt hér í d. Ég verð nú að telja það ótilhlýðilega vanvirðu, sem hæstv. dómsmrh. sýnir Alþingi með þessari þrákelkni sinni, að flytja þetta frv. hér ár eftir ár. Venjulega hefir það verið hv. 1. þm. S.-M, sem flutt hefir frv. og staðið í eldinum fyrir ráðh., enda hefir það mjög oft komið á daginn, að þegar frv. hefir legið hér fyrir til umr., þá hefir ráðh. ekki reynzt fær um að verja málið fyrir geðofsa sínum og skapsmunaæsingi. Ég geri ráð fyrir, að þau vinahót, sem hv. 1. þm. S.-M. vottar ráðh. með þessu, hafi hann fengið endurgoldin, þegar ráðh. sendi varðskip austur á Mjóafjörð til þess að skjóta niður strompinn fræga, sem kunnugt er.

Hv. frsm. minni hl., þm. Vestm., hefir gert svo ýtarlega grein fyrir ástæðum mótstöðumanna þessa frv., að ég hefi ekki miklu við það að bæta. Á undanförnum þingum, og þá sérstaklega á vetrarþinginu 1931, hefir grg. þessa frv., sem hefir verið skrifuð af dómsmrh., verið svo ósæmileg, að það er Alþingi til hinnar mestu vanvirðu. Það má nú að vísu telja til bóta, að þessu gamla góðgæti hefir verð sleppt í þetta sinn úr grg. og reynt að halda sér við málið. Nú er aðaláherzlan lögð á það, sem hefir verið bent á áður, að einhver lögfræðingur, sem dómsmrh. telur bezta lögfræðing landsins, en er að líkindum stimamjúk undirtylla stj., sem lifir á launum úr ríkissjóði fyrir að veita stj. pólitískan stuðning, hafi gefið út álit um það, að þetta frv. sé miklu víðtækara en lög nr. 82 frá 1917, um rekstur loftskeytastöðva á Íslandi. Því var réttilega fram á Alþingi 1931, að í þessum lögum felist fullkomin heimild fyrir hlutaðeigandi ráðh. til þess að gera allar þær ráðstafanir, sem hann álítur nauðsynlegar. Í 2. gr. þeirra laga stendur þetta, með leyfi Hæstv. forseta: „Þráðlausar firðviðskiptastöðvar á erlendum skipum og í íslenzkri landhelgi má aðeins nota samkv. heim ákvæðum, sem ráðuneyti Íslands setur í reglugerð. Ráðuneytið getur bannað öll þráðlaus firðviðskipti innan íslenzkrar landhelgi og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja, til þess að banninu verði hlýtt“.

Og í 4. gr. sömu laga segir svo: „Innan íslenzkrar landhelgi og á Íslandi má aðeins að fengnu leyfi ráðuneytisins og með þeim skilyrðum, sem leyfið ákveður, setja upp og nota stöðvar eða annan útbúnað til þráðlausra firðviðskipta“.

Ég get ekki betur séð en að í þessum lögum felist fullkomin og tvímælalaus heimild fyrir ráðh. til þess að gera þær ráðstafanir, sem óskað er eftir með þessu frv. Í umr., sem fóru fram um þetta mál á Alþingi 1931, gerði ég samanburð á umsögn þessa „merka“ lögfræðings um nýmælin í þessu frv. við lögin frá 1917 og sannaði með þeim samanburði, að af 10 nýmælum, sem talin voru í þessu frv., finnast 8 í lögunum frá 1917. En um 9. atriðið er það að segja, að um brot gegn því eru sett viðurlög samkv. öðrum lögum, sem eru þyngri en þau, er ákveðin eru í þessu frv. Þá er aðeins eftir eitt af þessum fyrirmælum, sem nokkur tvímæli eru um, að felist í lögunum frá 1917, en yfirleitt kemur flestum saman um, að það skipti litlu máli. Það er því ekkert annað en barnaskapur hjá þessum „merka“ lögfræðing og hv. 1, þm. S.M. að halda því fram, að af því að þessi lög frá 1917 voru sett áður en loftskeytatæki voru komin á togarana, þá geti þau ekki átt við það, sem snertir notkun þeirra tækja, og ekki heimilað stj. að gera ráðstafanir um þau. Það er undravert, að svo barnalegar viðbárur skuli koma fram hér í þessari hv. þd. Það gefur að skilja, að lögunum frá 1917 verður jafnt beitt gagnvart þeim fyrirbrigðum eða brotum, sem koma fram eftir að lögin voru samþ. Það er svo um öll lög, enda þótt þau hafi ekki verið sett með sérstöku tilliti til þeirra fyrirbrigða, sem fram kunna að koma, eða með hliðsjón af þeim. Í þessu efni skiptir það mestu máli, að lögin frá 1917 eru svo rúm, að samkv. heim getur stj. gefið út reglugerð um eftirlit með loftskeytatækjum, sem felur í sér öll þessi 10 atriði, sem ég áður nefndi; að einu undanskildu, er öllum kemur saman um, að sé lítilsvert. Ég vil svo ekki þreyta sjálfan mig eða hv. þd. á því að endurtaka hér öll þau rök, sem ég bar fram á móti þessu frv. á þinginu í fyrra, því fremur sem ég þykist vita, að meiri hl. í þessari hv. þd. er svo fylgispakur við dómsmrh., að þeirri hjörð mun ætlað að láta frv. ganga hér fram.

Því hefir verið haldið fram af flm. frv., að fyrirmæli þess væru nauðsynleg, af því að útgerðarmenn stýrðu botnvörpuskipunum inn í landhelgina. En það væri nú gaman að leiða eitt vitni í því máli, ef það gæti talizt vitnisbært, sökum þess hvað það er ómerkilegt. Ég á við umsagnir dómsmrh., sem felast í grg. þeirri, sem fylgdi þessu frv. 1931, og skal nú athugað, hvað þær votta.

Í grg. segist dómsmrh. benda á rök fyrir því, að útgerðarmenn gefi skipunum. merki um að fara í landhelgina, og segir hann, að á fundum, sem hann hélt með hreppsnefndum í Ólafsvík og á Sandi, og á nokkrum stöðum í Gullbringu- og Kjósarsýslu í ársbyrjun 1931, hafi vitnisburðir hreppsnefndanna staðfest og sannað þessa staðhæfingu. Af fundinum í Ólafsvík hermir dómsmrh. þetta eftir hreppsn. mönnum, með leyfi hæstv. forseta:

„Í vetur sáust margir togarar hér á víkinni á þeim tíma, er hér greinir:

I. Meðan varpskipin voru að leita að togaranum Apríl. Oddviti leigði bát frá Sandi með 4 mönnum, og ráku þeir 3–4 togara úr landhelginni, en vegna þess að veður fór versnandi, náði báturinn eigi landinu og varð að liggja úti um nóttina, og var mönnunum stofnað í lífsháska. (Báturinn trillubátur). Ágangur togaranna helzt allan leitartímann.

II. Á jólanóttina sáust 6–7 togarar á vikinni. Var þá símað til Reykjavíkur, og þurfu þeir áður en varðskipið Óðinn kom á vettvang.

III. Meðan Ægir var að leita að skipinu Ulv í 2 nætur. Um kl. 4, er fiskibátar fóru til róðurs, sáu þeir mörg skip ljóslaus; er fyrsti báturinn kom út virtist einn togarinn höggva af sér veiðarfærin, en hinir lögðu á flótta. Öll þessi skip voru ljóslaus, svo að engin einkenni sáust“.

Síðar í grg. segir dómsmrh. frá því, að hann hafi haldið fundi með hreppsnefndum úr Gullbringu- og Kjósarsýslu í Keflavík. Um þennan fund segir ráðh.: „Litlu síðar var fundur 25 hreppsnefndarmanna úr Gullbringusýslu haldinn í Keflavík til að ræða um landhelgismálið. M. a., sem þar kom fram, bar oddviti Gerðahrepps, hr. Guðm. Þórðarson, að í vetur, meðan varðskipin voru að leita að togaranum Apríl, hafi togararnir margir verið á veiðum í Garðsjó, ekki eingöngu að nóttu til, heldur líka um hábjartan dag“.

Af þessum upplýsingum, sem dómsmrh. hefir fengið frá þessum hreppsnefndum. dregur hann þá öruggu ályktun að það hljóti að vera útgerðamenn, sem benda togurum í landhelgina Ráðh. fer um það í grg. svofelldum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Útgerðarmenn í Reykjavík halda nákvæman vörð um hreyfingar varðskipanna og gefa skipstjórum bendingar eftir því. Vitnisburður sjómanna í Garði og Ólafsvík er samhljóða um það, að veiðiskipin vaða uppi dagana, sem varðskipin eru að leita að Apríl“. Og ennfremur: „Saga úr Ólafsvík er engu að síður hér. Þrem sinnum á vetrinum er farið í landhelgina. Í öll skiptin getur hreppsnefndin gert grein fyrir, hvers vegna skipin fara inn einmitt þá. Í tveim tilfellum er verið að leita að sjómönnum í sjávarháska. Á meðan síma menn, sem sitja inni í mjúkum sætum í hlýjum stofum í Reykjavík, að óhætt sé að ræna í Ólafsvík þá nótt“.

Ég ætla nú að láta það ósagt og ekkert að dæma um, hvað hæft er í þessum skýrslum hreppsnefndanna, þó að þær gefi auðtrúa ráðh. tilefni til fráleitra ályktana; það skiptir ekki miklu máli. En hitt skiptir mestu máli, ef þær eru réttar, hvort þær sanna það eða afsanna, að það séu útgerðarmenn, sem bendi skipunum inn í landhelgina. Ég ætla nú að biðja hv. þdm. að veita því athygli, hvað dómsmrh. ber fram. Hann segir, að þrem sinnum sé kvartað undan ágengni togara í Ólafsvík; það er tekið fram, að í öll skiptin geti hreppsnefndin gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að skipin fara inn einmitt þá. Í öðru lagi segir hann, að einnig sé hægt að gera grein þess, hvers vegna togararnir fóru í landhelgi í Garðsjó einmitt á þeim tíma, sem það var gert. Ég verð nú að segja, að það þarf meira en í meðallagi sljóan eða vanheilan mann til þess að halda því fram, að það séu útgerðarmenn, sem gefi skipunum bendingar um að fara í landhelgina, ef aðeins er kvartað undan þessum landhelgibrotum á þessum slóðum og engum öðrum. Í öllum þeim tilfellum, sem nefnd eru í grg., stóð svo á, að togararnir gátu fengið fulla vissu um, hvar varðskipin voru stödd, frá öðrum en útgerðarmönnum, nefnilega með því að hlusta á skeytaskipti frá sjálfum ráðh. eða hans umboðsmanni. Hitt vita allir, að útgerðarmenn hafa mjög oft vitneskju um verustað varðskipanna, hvort heldur þau liggja í höfn eða eru í snattferðum með ráðh. Ef það væri svo, að útgerðarmenn gæfu togurunum alltaf slíkar upplýsingar, þá er næsta undarlegt, að kvartanir um landhelgibrot togaranna skuli aðeins koma fram í þau skiptin, sem togararnir geta sjálfir fengið á annan hátt vitneskju um varðskipin.

Allar þessar sannanir sýna það, að togararnir fá ekki aðvaranir frá útgerðarmönnum, og að rógburður dómsmrh. í því efni er algerlega rakalaus. Ég veit ekki, hvernig unnt er að finna sterkari rök gegn þessum rógi ráðh. en einmitt þm., sem hann sjálfur af sljóleik sínum hyggst að nota til að sanna sök útgerðarmanna.

Ég vil annars beina því til Hæstv. forseta, að mér þykir leitt, að dómsmrh. skuli ekki hafa kjark til að sitja hér í sæti sínu í d. á meðan ég deili á hann, en það má vera, að hann sé einhversstaðar á hleri til að þjóna eðli sínu. Hitt hefði þó verið skemmtilegra.

Ég get sannað það, að þessum rógburði ráðh. gegn útgerðarmönnum er haldið fram móti betri vitund. Þetta sanna ég með því að vitna í áður nefnda grg., sem hann hefir sjálfur samið, með leyfi hæstv. forseta: „Á fundinum í Keflavík var staddur hr. Pálmi Loftsson útgerðarstjóri. Garðbúar höfðu staðið í símasambandi við hann meðan varðskipin voru að leita að Apríl. Nú kom í ljós, er borin var saman skeytasending hans til varðskipanna og reynsla Garðbúa, að hinir brotlegu togarar höfðu farið burt úr Garðsjónum einum degi áður en þeir „þurftu“ af því að útgerðarstjórinn hafði sent varðskipunum tvírætt skeyti, sumpart á mæltu máli og sumpart á dulmáli, þegar fór að líða á leitartímann. Óvissan um síðasta sólarhringinn af leitartímanum varð þess valdandi, að togararnir fóru burt úr Garðsjó svo snemma, að enginn möguleiki væri til, að varðskipin hittu þá þar í það sinn, er þau kæmu úr leitinni“.

Hér segir ráðh. það beinlínis sjálfur, að togararnir hafi fengið vitneskju um varðskipin í símskeyti, sem Pálmi Loftsson sendi þeim. Samtímis segir hann, að togararnir hafi farið burt úr Garðsjó á ákveðnum, degi samkv. bendingu frá útgerðarmönnum. Hvernig er hægt að halda því fram samtímis, að togararnir hafi fengið bendingu samkv. skeyti Pálma til varðskipanna, og jafnframt, að það séu útgerðarmenn, sem hafi gefið þeim vitneskju um varðskipin?

Alveg sama máli gegnir um þær togaraveiðar, sem Hæstv. ráðh. segir, að orðið hafi á jólanótt, því að hann segir í grg., að það sé föst venja, að varðskipin séu til skiptis inni á jólanótt. Get ég því ekki annað séð en að í þessari grg. liggi skýr játning hæstv. ráðh. um róg gegn heilli stétt manna. Þessi játning er að vísu einskis virði, vegna þess, hve ómerkur hann er. Menn hafa hér í d. tekið þá afstöðu til þessa máls að samþ. það, og er því ekki ástæða til að ræða það mjög. En í sambandi við þessa hræsnisviðeitni hæstv. ráðh. er rétt að varpa fram þeirri spurningu, hvernig þessi maður stendur að vígi sem vandlætari í þessu máli. Hann segir í grg., að meðvitundin um það, hvar varðskip, séu inni eina nótt, jólanóttina, nægi til að brjóta niður þann varnargarð, sem ríkið hafi reist með 700000 kr. tilkostnaði árlega. Þetta vex honum í augum. — Hann talar um, að sjómenn hafi verið rændir fyrir þetta. En hvernig er nú aðstaða hans sjálfs í þessu efni? Þessi maður, sem hefir ekki einungis dag og dag, viku og viku, heldur jafnvel heila mánuði tekið varðskipin í snattferðir fyrir sig og hyski sitt, hann segir, að meðvitundin um það, hvar varðskipin hafi verið inni eina jólanótt, hafi orðið til þess, að landhelgin hafi verið rænd. Hver er nú mestur ræningi í þessu efni? Er það ekki sá, sem fer heilan mánuð í pólitískar snattferðir á varðskipunum og auglýsir það, svo að togarar og sökudólgar geti fylgzt með því.

Ef Hæstv. ráðh. hefir kjark til að koma og reyna að sýna lélega viðleitni til að standa fyrir sínu máli, þá getum við talazt við nánar.