01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í C-deild Alþingistíðinda. (4012)

51. mál, Menningarsjóður

Jónas Þorbergsson:

Ég vildi leyfa mér, áður en frv. fer til n., að lýsa yfir því, að ég er andvígur stefnu þess. Hlutverk Menningarsjóðs er það fyrst og fremst eins og hæstv. dómsmrh. réttilega tók fram, að bera uppi að nokkru leyti nokkurn hluta þeirrar andlegu viðleitni, sem fram kemur með þjóðinni og ekki er borin uppi af fjárveitingarvaldi þingsins frá ári til árs. Er þetta í senn eitthvert örðugasta og óeðlilegasta viðfangsefni fjvn. þingsins og þingsins í heild sinni, að glíma við hinar mörgu umsóknir ýmissa listamanna, rithöfunda og vísindananna, sem leita á náðir þingsins um styrk á hverju ári, ýmist til þess að geta lært, fullkomnað sig í list sinni, eða til að geta iðkað menntir sínar. Ég lít svo á, að með stofnun Menningarsjóðs, þar sem um er að ræða að leggja til hliðar hluta af tekjum ríkissjóðs, sem sérstök stj. hefir með höndum útbýtinguna á meðal þeirra manna, sem ella mundu neyðast til að leita á náðir þingsins beint í þessu efni í hvert sinn, sé stefnt í rétta att, sem er að losa þingið við að glíma við þessi óeðilegu og óskemmtilegu viðfangsefni á hverju ári. Hv. flm., sem á sæti í fjvn. og er auk þess gamall þm., mun vafalaust vera mér sammála um það, hversu þessi viðfangsefni eru óskemmtileg og örðug fyrir þingið, og þó að ég efist ekki um, að tilgangur hv. flm. með þessu frv. sé góður í sjálfu sér, lít ég svo á, að ekki sé tilvinnandi fyrir lítilfjörlegan tekjuauka í tvö ár til handa ríkinu að hverfa frá þeirri stefnu, sem ríkið með þessum ráðstöfununi hefir tekið í þessu máli, og er ég af þessum ástæðum andvígur frv. — Það er að vísu rétt, að fjárhagur ríkissjóðs er ekki góður eins og stendur, en örðugleikar þeirra manna, sem góðs njóta af þessum ráðstöfunum, munu þó sízt minni; þegar kreppur steðja að, koma þær fyrst og fremst niður á þessum mönnum, sem við hin andlegu störf fast, en eru þó ekki bornar uppi af neinum sérstökum stofnunum. Á krepputímum selst minna af málverkum en ella, minna af bókum, og skemmtanir eru þá minna sóttar en ella, og þeir, sem að þessu vinna, fá af þessum ástæðum minna fyrir sitt erfiði en ella fá þeir hér er því greinilega ráðizt á garðinn þar, sem hann er lægstur, án þess þó að hér sé um nein bjargráð fyrir ríkissjóð að ræða. Ríkissjóð munar ekkert um þetta, til hvorugrar hliðarinnar, og þar sem hinsvegar hér er farið fram á að svipta okkar fátæku lista- og menntamenn þeim litlu fjárvonum, sem bundnar eru við þennan sjóð, mun ég ekki geta greitt málinu atkv. mitt til n., auk þess sem ég tel stefnu frv. einnig ranga að öðru leyti, eins og ég tók fram.