13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (4046)

70. mál, ábúðarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Þetta mál hefir legið fyrir undanförnum þingum nú um nokkurt skeið eins og kunnugt er, og tvívegis sætt allrækilegri meðferð hér í þinginu, sem sé á seinasta vetrarþingi og í þetta sinn. Ég vænti því, að hv. landbn., sem sérstaklega hefir haft málið til meðferðar, hafi gert á því þær athuganir, sem mestu máli skipta. Hinsvegar má það vel vera, að í þessu efni sem öðrum sé unnt að gera enn frekari umbætur á frv. en þegar hafa verið gerðar. Á ég þar ekki einungis við efni þess, heldur engu síður við framsetningu og form. Slíkt er lengi hægt að bæta og laga, svo að það valdi ekki misskilningi, og að þeir, sem undir lögunum eigi að lifa, geti tekið heim þrifnaði, sem önnur skilyrði ein veita þeim, svo og að ákvæði laganna valdi engum torveldleika.

Um brtt., sem hér liggja fyrir af hálfu landbn., er það að segja, að ég get tjáð n. þakkir af hálfu okkar flm. fyrir þá alúð, sem hún hefir sýnt málinu og sýnist af till. hennar, að hún sé höfuðstefnu frv. fylgjandi. Þær brtt., sem hún gerir, raska í mjög fáum atriðum nokkuð verulega þeirri stefnu, sem í frv. felst. N. hefir að vísu orðið að taka alllangan tíma nú til þess að athuga málið Býst ég því við, að þar sem orðið er svo mjög áliðið þings, verði málið að ganga greiðar í gegnum þær umr., sem eftir eru, ef það á að ná fram að ganga á þessu þingi. Það er auðvitað síður tiltökumál, þótt athugun slíkra mála sem þessa taki alllanga stund. Þess ber að gæta, að hv. landbn. þessarar d. hefir haft allmörg mál til meðferðar á þessu þingi. Mér hefir að vísu hálfleiðzt, hve seint málið kemur frá n., en ég vil þó ekki á neinn hátt átelja landbn., allra helzt fyrir þá sök, að mér sýnist sem brtt. hennar séu í höfuðdráttum málefninu fylgjandi, og það varðar vitaskuld mestu, en getur þó því aðeins komið að notum að menn ræði ekki um það þing eftir þing, að málið sé ekki nógu vel úr garði gert og búningur þess geti tekið bótum og fresti því þess vegna á eftir ár. Yfirleitt get ég sagt það af hálfu okkar flm., að við getum verið n. þakklátir fyrir margar hennar brtt., sem ég tel ýmist til lagfæringar og sumar jafnvel til bóta, þótt að vísu í þeim felist atriði, sem ég tel hæpin og hvika nokkuð frá hinni upphaflegu stefnu frv. En þessháttar skoðanamunur er ekki mjög stórvægilegur og ekki óeðlilegt, að kunni að gæta eitthvað hér á þingi í meðferð mala. Hv-. 2. þm. Skagf. lét þau orð falla, að hann hefði jafnvel búzt við því af hálfu landbn., að það væri ekki tilætlunin, að þetta mál næði fram að ganga nú á þessu þingi. Ég verð að vona, að hér sé um misskilning að ræða og það hafi fullkomlega verið tilætlun n., að málið gengi nú fram, og ég vænti svo góðs til hv. 2. þm. Skagf., að hann noti tímann milli 2. og 3. umr. til þess að íhuga málið nánar og koma fram með þær brtt., sem hann telur málinu til bóta og álítur vert að komi fram.

Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í þessar brtt. eða tala mikið um málið almennt. Ég get einungis sagt það um málið í heild, að þörfin á lagasetningu í þessu efni er mjög brýn. Nær helmingur allra búenda landsins (bænda) eru leiguliðar, og það er ekkert vafamal, að mikill hluti leiguliða getur ekki tekið þrifnaði sökum ábúðarlöggjafarinnar. Þessi lög eru nú orðin nokkuð gömul og voru þá, er þau voru sett, mjög ófullkominn, og fullvíst er það, að engin menningarþjóð hefir slíka ábúðarlöggjöf. Ákvæði hinna íslenzku ábúðarlaga eru alveg einstök. Svo langt eru þau á eftir og fjarri því, sem tíðkast með öðrum menningarþjóðum, og gegnir furðu, hve seint hefir sótzt að fá leiðréttingu á þessu. Og enn undarlegra virðist þetta þar sem Alþ. 1923 gerði úr garði nýja löggjöf og ýtarlega mjög um búnaðarmál. Ég á hér við jarðræktarlögin. En þau koma ekki nema að litlu leyti að gagni fyrir þá, sem hafa jarðir á leigu, sökum þess, hvernig ábúðarlöggjöf landsins er háttað, og þrifnaði geta þessir menn ekki tekið í sínum búskap fyrr en fullkomnari og betri löggjöf er sett.

Um einstakar brtt., sem bornar eru fram af hálfu n., ætla ég ekki að segja margt, en drepa einungis á fáar. Eftir því sem mér lízt á afgr. landbn. á malinu, þá hafa hugir manna dregizt saman og tel ég þá ekki vert að fjölyrða um málið í heild.

Brtt. við 3. gr. er um orðalagið, þar sem svo er að orði komizt, að þeir, sem eigi jarðir og selji á leigu, skuli selja þær á leigu gegn hóflegu eftirgjaldi, að dómi úttektarmanna. Ég ætla, að samkv. ákvæðum frv., eins og þau eru nú og eftir till. n., sé í raun og veru — nema þegar sérstakar ástæður eru þess valdandi, að breyt. hefir orðið á verðlagi — engin ákvæði í frv. sem segi fyrir um, á hvern hátt úttektarmenn eigi að meta þetta gjald. Ég skýt þessu fram aðeins til athugunar, því að það getur tæpast verið meiningin, að áður en jörð er byggð með þeim skilmálum, sem jarðeigandi hugsar sér, þá skuli bera það undir úttektarmenn, hvort þeir álíti skilmálana hóflega. Ég vil því víkja að þessu til frekari athugunar.

Þá er það 6. brtt., sem ég vildi minnast lítilsháttar á. Hún er um viðhald húsa og þá kvöð, sem lögð er á leiguliða, að þeir eigi að greiða sérstakt fyrningargjald af húsum, sem í frv. er kölluð leiguliðabót, þar sem svo er að orði komizt, að fyrningin eigi ekki að vera hærri en 1% af steinhúsum og 2% af timburhúsum eða byggingum úr öðru efni. Í sjálfu sér er ekki mikið við því að segja, þótt leiguliði greiði þetta gjald, því að það er ekki nema eðlilegt, að eigandi jarðar verði að fá gjald, sem nemur fyrningu þessara mannvirkja og þeirra fjármuna, sem í húsin eru settir. Ég get tekið undir þau ummæli hv. 2. þm. Skagf., að hyggilegra væri, bæði af leiguliða og eiganda jarða, að þetta gjald væri látið renna í sérstakan sjóð, svo að hann væri til taks, þegar þyrfti að endurbyggja hús á jörðinni. Ég álít, að hvorttveggja geti misst nokkuð marks eftir þessu ákvæði. Það er ekki vist, að efnahag jarðeigandans sé svo háttað, þegar þarf að endurbyggja á jörðinni, að hann geti það. En þeim hluta gjaldsins — þessari leiguliðabót — sem stendur inni hjá leiguliða, er þannig háttað, að ekki er víst, að hann geti innt þá greiðslu af hendi þegar endurbyggja þarf. Því held ég, að það sé langbest, að það ákvæði sé sett inn í lögin, að þessir fjármunir, sem leiguliðinn greiðir, séu lagðir í sérstakan sjóð, sem ekki megi eyða. Að sjálfsögðu er það rétt, að leiguliði greiði vexti af þeim fjármunum, sem í byggingarnar fara. Verður þá fyrningargjaldið að miðast við endingu húsanna. Þyrfti þetta helzt að vera útbúið þannig, að gjaldhæðin væri ekki meiri en nauðsynlega þarf.

Þá vil ég minnast á aðra brtt., sem ég tel allmiklu máli skipta, 22. brtt., um endurbyggingu, þegar óviðráðanleg slys hér að höndum, annaðhvort jarðskjálfta, eldsumbrot eða snjóflóð o. s. frv. Hefir n. breytt nokkuð til frá því sem við höfum gert ráð fyrir. Í greininni frá okkar hálfu er undir þessum kringumstæðum lögð sú kvöð á leiguliða, að hann vinni eins og hann framast má með skylduliði sínu að veggjagerð og byggingu hússins eftir því sem hann frekast getur að dómi úttektarmanna. Ég skal játa, að slík ákvæði sem þetta eru enganveginn ákveðin. Það getur staðið misjafnlega á og verið mismikið, sem leiguliði lætur af mörkum til þessara verka, ef þessu orðalagi er haldið, en þeir, sem eiga um þetta að dæma, eru úttektarmennirnir. Eiga þeir að vera öllum háttum kunnir og þá auðvitað ástæðum leiguliða, hve mikið hann getur af mörkum látið. Eins og vitað er, getur það orðið talsvert misjafnt. En samkv. þessu orðalagi brtt. álít ég, að þetta geti verið hæpið ákvæði og mjög varhugavert og undir mörgum kringumstæðum ógerlegt að leggja slíka kvöð á leiguliða. — Það er sagt í brtt., að leiguliði eigi að svara leiguliðabót af húsum að því leyti, sem hún er ekki áður greidd. Þetta ákvæði „að því leyti, sem hún er ekki áður greidd“, þ. e. a. s. að því leyti sem það er fallið í gjalddaga vil ég skilja svo, en ekki á þann hátt, að leiguliði eigi að greiða allt gjaldið, sem ógreitt er af byggingunni. Hugsum okkur, að hús sé fyrir skömmu byggt, úttektarmenn hafi gert áætlun um, að það standi í 50 ár. Fimm ár líða frá því að húsið er byggt og svo eyðileggs það af einhverjum náttúruvöldum. Leiguliði ætti þá, ef þetta væri skilið bókstaflega, að greiða alla leiguliðábótina. Slíkt býst ég þó ekki við, að sé meiningin, heldur þann hluta hennar, sem stendur inni hjá leiguliða, þegar þetta ber við. (MG: Það sendur í till.: „að því leyti sem hún er ekki áður greidd“). En samkv. ákvæðum frv. hér að framan er sagt, að hann eigi að greiða „1/2 leiguliðabót ár hvert til landsdrottins“. Hinn helmingurinn stendur því hjá honum sjálfum. Ég skil það svo, að það sé sá hluti, sem hann á að greiða, en ég held, að hyggilegra sé að taka það fram, að það sé það, sem þá er fallið í gjalddaga, svo þetta geti ekki orkað tvímælis. Ennfremur á leiguliði að flytja að innlent efni og annast allan efnisflutning innanlands á staðinn. Sé hér átt við, að leiguliði eigi að flytja að ekki einungis það efni, sem tekið er á jörðinni til byggingarinnar, heldur einnig það, sem kann að þurfa að sækja til kaupstaðar, þá getur þetta orðið svo þungbær kvöð, að ekki nái nokkurri átt að leggja hana á leiguliða. Ef við hugsum okkur, að húsið sé byggt úr steini, þá er það ærin kvöð á leiguliða að flytja að allt byggingarefni, þótt nærtækt sé og auðvelt að koma því á staðinn, þar sem byggja á. Það getur, þótt ekkert sé óhagstætt, kostað mörg hundruð krónur. En nú hagar víða svo til, að sand og möl þarf að sækja langar leiðir, jafnvel yfir margra kílómetra veg, og það er ekkert tekið tillit til þess í þessu frv., hvort torvelt sé að flytja efnið eða ekki. Mér sýnist samkv. þessu, að eigandinn hafi, eins og eðlilegt er, ákvörðunarrétt um það, hvort hann vill byggja úr timbri eða hafa torf- og grjótveggi — byggja í gömlum stíl — eða byggja steinhús. Getur því flutningurinn á þessu innlenda efni orðið mjög misdýr og erfiður og kostað mikið fé undir vissum kringumstæðum. Þar að auki á leiguliði að annast allan flutning innanlands. Í þessu orðalagi getur auðeldlega falizt það, að hann eigi að flytja allt efni úr kaupstað á byggingarstaðinn, timbur og sement, sem til byggingarinnar þarf, og annað þessháttar. Þetta getur kostað mjög mikið fé, skipt mörgum hundruðum og jafnvel þúsundum króna. Ég vil taka dæmi. Við skulum hugsa okkur, að miðja vegu í Árnessýslu vildi jarðeigandi reisa byggingu, t. d. steinhús. Flutningur á að keyptu efni frá Rvík og austur til byggingar, sem rúmaði svona 8–10 heimilismenn, myndi hlaupa, með þeim taxta, sem nú er hjá bifreiðastöðvunum, upp í nær 1600 kr. Það er heldur ekkert orð sagt um það í frv., að flutningurinn skuli miðast við næsta verzlunarstað. Þó er það nú svo, að byggingarefni er misdýrt. Austur við Ölfusárbrú er það t. d. dýrara en hér í Reykjavík og er það ekki nema eðlilegt, þar sem efnið er flutt héðan. En mætti nú eigandinn velja um, hvar hann keypti byggingarefni, og þyrfti ekki að annast flutninginn, myndi hann að sjálfsögðu kaup það þar sem það væri ódýrara, t.d. hér í Reykjavík, og láta svo leiguliðann kosta flutninginn austur um fjall. Ef miðað er við 100 km. flutningsleið, myndi flutningur á efni í þessa steinbyggingu nema h. u. b. 1600 kr. Svo ætti hann til viðbótar að annast flutning málar og sands, og sjá þá allir, hve þetta allt nemur mikilli upphæð væri um timburhús að ræða, að stærð 12 X 12 með kjallara, myndi flutningskostnaður á aðkeyptu efni nema 1200 kr. Þetta er svo mikil kvöð, að ég teldi alls ekki rétt að lögfesta slík ákvæði. Ég er sannfærður um, að leiguliðinn myndi heldur ganga frá jörð en að leggja sér þessa byrði á herðar, m. a. af því þegar svo byggingunni er lokið, verður hún metin til verðs, og af þeim fjármunum, sem leiguliði hefir lagt fram bæði beint og óbeint, á hann að svara vöxtum eftir kostnaðarupphæð byggingarinnar, og síðan greiða fyrningargjald. Það væri ekki nokkur meining fyrir eigandann, að fjármunir, sem leiguliðinn hefir lagt þarna fram, væru ekki taldir með. Þegar byggingin er metin.

Þótt ég drepi nú á þessi atriði til frekari athugunar og umbóta, get ég ekki séð, að neitt sé á móti því, að brtt. í þessa átt verði. samþ., því að hægt væri að umbæta hana við 3. umr. Reyndar held ég, að ekkert væri að því, þótt frestað væri að bera hana upp. Yfirleitt væri e. t. v. heppilegra að fresta brtt. landbn. til 3. umr. Samt geri ég enga till. um það. Það má eins vel lagfæra við 3. umr. það, sem ábótavant kann að þykja í frv.

Þá er það 23. brtt., við 36 gr. um að gr. falli burt. Má vera, að það skipti í sjálfu sér ekki miklu um ákvæði þessarar gr. frv., en ég held þó, að hyggilegra sé vegna leggja málsaðilja að hafa ákvæði eitthvað svipuð þessu. Ég get viðurkennt, að það getur vel komið fyrir, að það gæti verið eins sanngjarnt, að um hækkun væri að ræða eins og lækkun, og fyrir mitt leyti gæti ég vel fallizt á, að ákvæðum gr. væri breytt í það horf, að bæði jarðeigandinn og leiguliðinn gætu fengið breytt afgjaldinu að dómi þeirra manna, sem um það eiga að fjalla.

Um að fella niður 37. gr., um að viðarreka megi undanskilja, þá skoða ég það ekkert meginatr. Það á óvíða við, og þar sem útlit er fyrir, að sú kvöð verði lögð á eigendur, sem þá eiga húsin og leggja til þeirra það, sem þarf, þá sé ég ekkert sérstakt athugavert við það, þótt þetta ákvæði sé fellt burt.

Þá vil ég hér víkja að bráðabirgðaákvæðunum. Landbn. leggur til, að bráðabirgðákvæðunum eða ákvæðunum um stundarsakir, verði breytt í það horf, að lög þessi komi til framkvæmda jafnótt og leiguliðaskipti verða á jörðum. Þetta, hann að virðast sanngjarnt í sjálfu sér, en þá verður miklu lengri dráttur á því, að lögin öðlist gildi og verki eins og til er ætlazt. En vitaskuld geta menn viðurkennt, að það skipti ekki mestu máli, að lögin komi þegar í stað til framkvæmda. (BJ: Í mörgum tilfellum ganga þau fyrr í gildi á þennan hátt ). Ég veit ekki nema það hefði samt verið hyggilegra að tiltaka í l. einhvern ákveðinn tíma, er þetta skuli koma til framkvæmda. En fyrir mitt leyti geri ég ekki mikið úr þessu. Það er álitamál, sem vel má ræða um og mælir sitt með og móti hvoru.

Hv. 2. þm. Skagf. drap réttilega á, að í seinustu brtt. er um prentvillu að ræða, og hafa verið gerðar ráðstafanir til að leiðrétta það í skjalapartinum.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að ummælum hv. 2. þm. Skagaf. Það er mjög smávægilegt, því að mér þótti einmitt vænt um það frá hans hálfu, að mér virtist hann vera með þessu máli í höfuðatr. eins og það er fram borið. Hann gerði að umtalsefni 45. gr. frv., þar sem ákveðið er, að landsdrottinn bjóði leiguleiða ábýlisjörð til kaups við fasteingamatsverði. Í 45 gr. er það ákvæði, að ef landsdrottinn býður leiguliða ábýlisjörðina til kaups við fasteignamatsverði, þá sé honum skylt að kaupa jörðina eða víkja að öðrum kosti, ef eigandi þarf að selja hana. Er það rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., að þetta getur komið sér illa fyrir leiguliða, og það er ekki af því, að okkur sé það ekki ljóst, að við setjum þetta ákvæði. En þar sem þetta frv. er allt í öðrum búningi en okkar gamla ábýlislöggjöf, og þar sem miklar skyldur eru lagðar á jarðeigendur (þeir verða að leggja fram mikið fé til endurbóta, viðhalds o. s. frv.), þá þótti okkur ekki nema sjálfsagt, að þeir hefðu stundum rétt til þess að koma eign sinni í peninga. Getur staðið svo á, að jarðeigandi þurfi nauðsynlega að selja jörðina, en með lífstíðarábúð er það oftast nær ómögulegt fyrir hann. Töldum við því ekki nema sjálfsagt, að hann hefði svigrúm til þess að losa jörðina úr ábúð, ef' hann þarf að koma henni í peninga. En það hefir þó lengst af verið svo, að fæstir hafa viljað selja, nema nauðsyn bæri til. Held ég því, að þetta sé sanngjörn krafa og að ekki sé annað hægt en að veita jarðeigendum þessa sjálfsögðu tryggingu. Þetta var það, sem fyrir okkur vakti.

Hv. 2. þm. Skagf. drap á 1. brtt. n. Geri ég ráð fyrir því, að við 3. umr. málsins verði það athugað nánar. Held ég, að ég þurfi ekki að víkja miklu fleiri orðum að þessu. Vil ég svo þakka hv. landbn. áhuga hennar á málinu, enda þótt hv.2. þm. Skagf. vildi enn fara höndum um frv. og „helfla“ það, eins og hann komst að orði. Það er nú auðvitað gott og blessað, en ég vil þó benda á það, að enda þótt margt mætti þar betur fara, skiptir hitt mestu, að þetta mál nái fram að ganga. En þar sem hv. 2. þm. Skagf., sem er þessum vinnubrögðum vanur, vill gera sitt bezta til þess að fá málið athugað, þá vona ég, að með slíkri athugun fleiri góðra manna geti frv. orðið vel úr garði gert eftir næstu umr. Annars vil ég geta þess, að frágangur málsins var í byrjun lakari en við ætluðum, því að meiningin var um haustið þegar við sömdum frv., að við færum yfir það aftur eftir áramótin, en þá kom einn manna, ekki hingað suður, og þótti okkur þá skylt að flytja frv. hér, eins Og það var, þegar hann skildi við það með okkur flm.

Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að hv. d. og Alþingi öllu sé ljós nauðsynin á lagasetningu um þessi efni, og enda þótt æskilegt hefði verið, að málið yrði betur athugað, er ekki fyrir því ástæða til þess að láta það nú daga uppi í 4. eða 5. sinn.