07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (4094)

587. mál, milliþinganefnd um fjárhagsástand á Austfjörðum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hafði pata af því, að hv. 1. þm. S.-M. mundi leggjast gegn þessari till., en ég fékk ekki skýringu á því, hvers vegna hann gerði það, fyrr en nú. Hann upplýsti sem sé, að hann áliti, að hér væri nýtt blóðrautt sovietríki á ferðinni. Er þá skiljanlegt, að hv. þm. óttaðist um, hvað við sig yrði gert, þegar svo væri komið. Ég vil nú samt friða hv. þm. með því að fullvissa hann um, að hvorki hann né skoðanabræður hans munu verða beittir neinum þrælabrögðum, þó þessi till. verði samþ., og að hún mun hvorki seinka eða flýta fyrir myndun sovietríkis hér á landi. Hv. þm. taldi það móðgun við Austfirðinga að skipa slíka nefnd, og þá menn, er í henni tækju sæti, ekki í húsum hæfa. Hv. þm. ætti nú ekki að dæma nefndarmenn hart áður en þeir verða skipaðir, því vel má hugsa sér það, að hv. þm. yrði sjálfur settur í n., eða þá einhverjir álíka menn. Ég held ekki, að af slíkum mönnum stafaði nein soviethætta, eða að hv. þm. þyrfti að loka húsum sínum fyrir þeim. Mig satt að segja undra slíkar fullyrðingar hjá hv. þm.

Ég sagði ekki, að töpin eystra hefðu numið 7 millj. á síðustu tveimur árum. Um það veit ég ekkert. Ég gat þess aðeins, að talið væri, að 10–12 síðustu árin hefði tapazt eystra eftir áætlun kunnugra manna a. m. k. 15 millj. króna. Það þýðir ekki að tala um móðgun. Hv. þm. veit, að ástandið er ekki betra en það, að t. d. í einum hreppi, þar sem eru 33 búendur, eru 24 þeirra gjaldþrota og sumir eiga ekki meira en 1–2% upp í skuldir sínar, eftir rannsókn, sem þar um hefir verið gerð. Það er vitað, að á sumum fjörðunum er ástandið ofboðslegt. Á Seyðisf. eru ekki nema 8 þiljubátar. Og á Eskifirði er ástandið sízt betra. Einn togari, sem þar var, hefir verið seldur. Ég veit, að á Norðfirði er ástandið eitthvað skárra. En verra ástand en er sumstaðar á Austurlandi mun hvergi annarsstaðar. Ég held sannarlega, að ekki sé vanþörf á að gera sér grein fyrir, hvernig þarna er ástatt.

Fiskiveiðalöggjöfin hefir harðast komið við Austurland. Áður höfðu útlendingar mikil viðskipti þar, og jók það atvinnuna. En er þeir urðu frá að hverfa, minnkaði vinnan, þar sem skipakostur var ekki nægur. Til Eskifjarðar og Seyðisfjarðar voru fengnir gamlir og ónothæfir bátar, og jafnvel þeir eru allt of fáir til að byggja afkomu fólksins á. Hér er farið fram á, að athugað sé, hvernig ástandið er, hverjar orsakir liggja til þess og hver ráð séu líklegust til viðreisnar. Það er aðeins farið fram á, að hætt sé að fljóta sofandi að feigðarósi. Að tala um, að þetta sé móðgandi, er fjarstæða ein, þar sem þó hvert mannsbarn veit, að það er allt rétt, sem ég hefi um ástandið eystra sagt.

Hv. 2. þm. Skagf. vildi vísa þessu máli til fjhn. Ég sé enga ástæðu til þess, en geri það þó eigi að neinu kappsmáli, ef n. skilar fljótlega af sér. Nú er svo áliðið þings, að ekki má mikið tefja það, sem á að ganga fram.