10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (4116)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Mér sýnist, að brtt. hv. þm. Mýr. eigi aðeins við fyrri hluta þáltill., og að hún fari aðeins fram á þá breyt. á till., að í stað þess, sem þar er ætlazt til, að stj. ráðgist um þessi efni við miðstjórnir landsmálaflokkanna, þá er í brtt. gert ráð fyrir, að hún fjalli um þessi mál í samráði við utanríkismálanefnd. Og ef það fer svo, að báðir stóru flokkarnir samþ. það, að við jafnaðarmenn getum komið að manni í nefndina, þá hefi ég ekkert við þessa brtt. að athuga. En aftur á móti virðist mér, að síðari hluti þáltill. megi vera óbreyttur. Ég vil því halda mér fast við það, að ef hv. þm. vilja samþ. brtt., þá sé það gert á þá leið, að í staðinn fyrir „landsmálaflokkanna“ í þáltill. komi: utanríkismálanefnd. Og ef þáltill. verður vísað til utanríkismálanefndar, þá legg ég það til, að brtt. verði einnig vísað þangað, til þess að n. geti samræmt þær.