10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (4117)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Bjarni Ásgeirsson:

Ég geri það ekki að kappsmáli, hvort till. verður vísað til n. eða að hún verður samþ. í því formi, sem ég hefi orðað hana; ég vænti, að niðurstaðan verði hin sama. Mér finnst það eiga að skiljast svo, ef till. er á þessu stigi vísað til nefndar, að þá eigi n. að skila henni aftur, til þess að hún verði rædd og afgr. Það er rétt skilið, að aðaltilgangur minn með brtt. er sá, að mér finnst viðkunnanlegra, að þessu máli sé vísað beint til stj. og utanríkismálan. heldur en að miðstjórnir landsmálaflokkanna hafi nokkuð með það að gera.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um, að hann vildi játa niðurlag þáltill. haldast óbreytt, þá vil ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég kann ekki við, að það sé verið að slíta einstök ríki út úr og gera sérstaklega ráð fyrir að leita viðskiptasambanda við þau. Heldur tel ég sjálfsagt, að gert verði allt, sem unnt er, til þess að halda opnum viðskiptaleiðum við hvaða ríki, sem kostur er á, hvort sem það heitir Rússland, Bretland, Frakkland, Spánn, Þýzkaland, Ítalía, Noregur, Svíþjóð eða Danmörk. Og ef um það er að ræða að semja við einstök ríki um viðskipti, þá finnst mér sjálfsagt að minnast á ívilnanir á tollum. Enda virðist það sjálfsagt, að ríkisstj. og utanríkismálanefnd hafi opin augun fyrir því á þessum erfiðu tímum, þegar um samninga er að ræða við aðrar þjóðir, að gæta hagsmuna Íslendinga á öllum sviðum. Þess vegna tel ég rétt að minna á það í till., að reynt sé að semja um tollívilnanir hjá öðrum þjóðum.