19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (4148)

187. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Sveinn Ólafsson:

Frsm. sjútvn. er að þessu sinni fjarverandi sökum sjúkleika; verð ég því fyrir hans hönd að minna á erindi þetta, er hér liggur fyrir.

Eins og sjá má af nál. á þskj. 721, leggur n. til, að máli þessu verði vísað til stjórnarinnar. Samkynja erindi hafa tvisvar legið fyrir Alþingi áður, um að staðbinda varðskipin yfir lengri eða skemmri tíma við vissa landshluta, en það hefir farið á sama veg með þær kröfur og nefndin leggur til að fari með þessa till., þeim hefir verið vísað til aðgerða stjórnarinnar.

Á einni verstöðinni er að vísu eitt strandgæzluskipanna staðbundið, nefnil. við Vestmannaeyjar, en það er af góðum og gildum ástæðum, enda greidd árlega ákveðin upphæð fyrir þá gæzlu. Er vertíð þar mjög harðviðrasöm tíðast frá áramótum og nokkuð fram á útmánuðina. Þess vegna er líka sérstök þörf eftirlits þar. Það er nú að vísu svo, að vertíð er að vetrarlagi á fleiri stöðum en sunnanlands, svo er og t. d. á Vesturlandi. En þar gegnir öðru máli um leiðir og lendingar. Þar eru hafnir bæði margar og góðar og því að jafnaði öruggt að leita þar lands, en suðurströndin er, sem kunnugt er, hafnlaus og hættuleg, þó að nú megi telja Vestmannaeyjahöfn brúklega þegar henni er náð.

Þá er og kunnugt, að nú í seinni tíð er vetrarvertíð á Suðausturlandi og jafnvel á Norðausturlandi líka. Frá þessum stöðum hafa komið óskir um sérstakt gæzluskip, en þær hafa enga áheyrn fengið aðra en þá, að varðskipin skuli á ferðum sínum kringum landið hafa sérstakar gætur á, hvernig ástatt er með fiskibáta á hverjum stað. Ef fara ætti að staðbinda varðskipin fram yfir það, sem nú er gert, má ætla, að strandgæzlan sjálf færi að meira eða minna leyti út um þúfur við það. Skipin yrðu ekki eins tiltækileg þegar bregða þarf við í lengri eða skemmri ferðir til strandvarna við fjarlæga landshluta. Gæti það því leitt til þess, að landhelgivörnin yrði bæði stopulli og minni. Ef taka ætti það upp að staðbinda varðskipin við ákveðin svæði, þá virðist t. d. fullt eins mikil ástæða til þess að staðbinda eitt skipið við Suðausturlandið, og jafnvel Norðausturlandið líka, eins og við Vesturland. Þess vegna er það, að sjútvn. telur ekki rétt að ákveða frekar um þetta en gert hefir verið, en vill leggja áherzlu á það, að útgerðarstjórn skipanna hafi vakandi augu á því hverju sinni, hvar þeirra sé mest þörf, svo skipin geti samhliða gæzlunni litið eftir bátunum. Af þessum ástæðum leggur n. líka til, að till. verði vísað til stjórnarinnar.