29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í C-deild Alþingistíðinda. (4211)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Pétur Ottesen:

Ég þarf litlu að svara hv. 3. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að ég hefði áður verið með því að taka skemmtanaskattinn frá bæjar- og sveitarfélögum, en þetta er rangt. Ég talaði á móti því, þegar það var til umr. á þinginu 1923, og þetta getur hv. þm. kynnt sér, ef hann vill líta í Alþt. frá þeim tíma.

Ég er þakklátur hv. flm. fyrir það, hve vel hann tók undir aths. mínar og vænti þess jafnframt, að hv. n., er málið fær til meðferðar, taki þær til athugunar.

Hv. flm. vildi halda því fram, að hægara væri um vik fyrir sveitar- og bæjarfélög að afla sér tekna á erfiðum tímum heldur en ríkissjóðinn. En þetta nær engri att. Tekjurýrnun ríkissjóðsins stafar af þverrandi gjaldþoli borgaranna. Þetta hefir ekki síður áhrif á tekjuöflunarmöguleika sveitar- og bæjarfélaga. Sveitar- og bæjargjöld eru aðallega lögð á eftir efnum og ástæðum, þess vegna kemur erfitt árferði og þarafleiðandi þverrandi gjaldþol alveg sérstaklega hart niður á sveitar- og bæjarfélögum, eins og líka dæmin sýna, þar sem því er svo komið nú um ýms sveitarfélög, að þau rísa ekki undir útgjöldum. Hinir erfiðu tímar koma því engu síður hart niður á bæjar- og sveitarfélögum en ríkissjóði. Það er því sízt ástæða til að rýra tekjustofna þeirra frá því, sem nú er.