29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í C-deild Alþingistíðinda. (4345)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Magnús Guðmundsson:

Mér virðist, að þeim, sem tekið hafa til máls í umr. um þetta mál, komi saman um það, að ef þetta starf er vel rækt, þá komi það að gagni. En hjá sumum hefir það gægzt fram, að þeir áliti, að starfið hafi verið rækt svo illa, að það hafi að engu gagni komið.

Ég skal viðurkenna það, að þegar þetta eftirlit var sett á stofn, gerði ég heldur lítið úr því. nú heyrist mér vera gert talsvert mikið úr því í sjálfu sér, en það eru sumir, sem álita, að það hafi verið illa stundað. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. að því, fyrst og fremst hvort hann telji þetta starf gagnslaust, og í öðru lagi, hvort hann áliti, að embættinu sé svo slælega gegnt, að engin not verði af því af þeim sökum. Ég trúi honum vel til að segja það, sem hann álítur sannast og réttast um þetta mál, og því sjálfsagt, að það komi fram, hvernig hann, yfirmaður þessa embættismanns, lítur á málið. Ég veit að sönnu, að þeir hafa ekki starfað saman lengi, en mér er þó kunnugt um, að hæstv. ráðh. hefir falið bankaeftirlitsmanninum einhverjar rannsóknir af sinni hálfu.