29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í C-deild Alþingistíðinda. (4354)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Sveinbjörn Högnason:

Ég verð að segja það, að mig furðaði mjög á þeirri yfirlýsingu, sem hv. 2. þm. Skagf. gaf um afstöðu sína í þessu máli, þar sem hann lysti því yfir, að hann myndi haga atkv. sínu eftir því, hvaða afstöðu við, sem erum í andstöðuflokki hans, kynnum að taka gagnvart öðrum málum. Ennfremur vildi hv. þm. gefa til kynna, að tilgangur okkar flm. með þessu frv. væri eingöngu sá, að beina örvum að pólitískum andstæðing.

Ég hélt, að þessi hv. þm. tæki sínar ákvarðanir eftir gildi málanna, sem fyrir liggja í hvert sinn, en ekki eingöngu eftir pólitískum ástæðum. frá mínu sjónarmiði skiptir það engu máli, hvaða stjórnmalaflokki bankaftirlitsmaðurinn fylgir. Það, sem mér finnst mestu skipta í þessu efni, er það álit, sem almennt er ríkjandi, að embættið sé óþarft og að starf eftirlitsmannsins hefir engin áhrif haft eða árangur til bóta. Í öðru lagi finnst mér full ástæða til þess að spara þar, sem unnt er, og þá verður hendi næst að fella niður þetta óþarfa embætti.

Ég er sannfærður um, að þegar hv. 2. þm. Skagf. athugar nánar það, sem hann sagði um afstöðu sína í þessu máli. og minnist þess, að hann var upphaflega á móti þessu embætti, og sér nú, að það hefir ekki komið að gagni, þá verður hann bezti stuðningsmaður okkar með þessu frv.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að stj. hefði hið bezta tækifæri til að fylgjast með hag bankanna gegnum bankaráðin. Ef þetta er rétt, er það einmitt sterk sönnun fyrir því, að þetta embætti er óþarft. Sami hv. þm. gat um það sem merkilegan hlut, að eftirlitsmaðurinn hefði sent skýrslu eitt ár. Lítur ekki út fyrir, að slíkt sé algengur atburður.

Ég vil mótmæla því, að þetta frv. sé fram komið af illvilja til þess manns, sem nú gegnir þessu embætti. Við tók um einmitt greinilega fram, að við værum ekki að beina skeytum okkar að manninum, heldur að starfi, sem að okkar áliti er gagnslaust. Og við vitum, að það er réttmæt krafa almennings í landinu, að slík störf séu lögð niður á þessum tímum.