29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í C-deild Alþingistíðinda. (4357)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Framsöguræða mín gaf ekki tilefni til að ræða um mann þann, er gegnir þessu starfi, heldur starfið sjálft. Enginn heldur því fram, að eftirlit sé gagnslaust, þótt menn greini á um, hvort embætti þetta sé nauðsynlegt eða ekki. Hv. þm. G.-K. hefir komið umr. inn á þær brautir, að ræða um bankaeftirlitsmanninn sjálfan. Það er hans sök, en engan veginn mín.

Hv. þm. G.-K. varð fjölrætt um bitlinga og talaði mikið um nauðsyn þess að uppræta bitlingafarganið hjá núv. stjórn. Þeir bitlingar, sem hv. þm. var einkum að fast um, heita á venjulegu máli laun greidd fyrir ýms störf, sem innt eru af hendi fyrir ríkið. Margir flokksmenn hv. þm. G.-K. hafa tekið laun fyrir slíka starfa, þótt af ástæðum, sem að vísu eru ekki óskiljanlegar, hafi verið gengið framhjá hv. þm. sjálfum, enda mun það valda gremju hans, að engum dettur í hug, að hægt sé að nota hv. þm. G.-K. til opinberra starfa. (ÓTh: Ætli ég fengi ekki bein, ef ég gengi í flokkinn). Nei, ekki einu sinni, þótt svo yrði.