25.05.1932
Sameinað þing: 11. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (4376)

714. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um áfengislöggjöfina

Einar Arnórsson:

Af þeirri ástæðu, að ég er einn af flm. þessarar till., vil ég leyfa mér að gera aths. við þær ræður, sem haldnar hafa verið bæði út af henni og þeim brtt., sem fyrir liggja. Ummæli hv. þm. Seyðf., sem ganga í þá átt, að það væri ekki nema samboðið þessu þingi að klykkja út með því að útvega landsmönnum í viðbót við „landa“, „Höskuld“ og smyglað vín brennivín, whisky og koníak, get ég ekki tekið til mín, því ég er ekki flm. þess frv., sem hv. þm. Seyðf. talaði um. Tilgangur okkar flm. með till. er einungis sá, að fá að heyra álit alþingiskjósenda um það, hvernig þeir vilja skipa þessum málum. Ég er sammála hv. þm. Seyðf. um, að till., sem var hér til umr. áður og laut að áfengislöggæzlu, hefði átt að koma fyrr á dagskrá, því meðan bannið stendur virðist mér ekki nema sjálfsagt, að þingið krefjist þess, að yfirvöldin athugi, hvort ekki megi gera meira til að halda því uppi, svo sæmilegt mætti kallast, heldur en gert hefir verið. Að því leyti er ég sammála hv. þm. Seyðf.

Þá erum við sammála um 3. atriðið, um að það sé rétt og sjálfsagt að leggja þá spurningu undir atkv. almennings, hvort leyfður skuli innflutningur á sterkum drykkjum, en greinir nokkuð á um orðalagið á till. og brtt., er fyrir liggja og snerta þetta atriði.

Hv. þm. Seyðf. og sömuleiðis hv. 2. þm. S.-M. héldu því fram, að þessi spurning. eins og hún er sett fram á þskj. 714, sé ekki með öllu refjalaust flutt frá hendi flm. Ég fæ nú ekki skilið, hvernig hv. þm. sjá ástæðu til að fara þessum orðum um fyrri till. á þskj. 714, þar sem lagt er til, að spurt verði, hvort kjósandinn telji rétt að nema úr lögum bann það, sem nú gildir um innflutning áfengra drykkja. Í stað þessa vilja hv. þm. orða spurninguna á þá leið, hvort kjósandinn vilji, að leyfður verði innflutningur á ákveðnum víntegundum, sem tilnefndar eru, svo sem brennivíni, whisky, koníaki og rommi.

Í raun og veru er spurt um alveg það sama í báðum tilfellunum; munurinn er aðeins sá, að flm. brtt. á þskj. 747 og 748 taka dæmi, en við leggjum spurninguna fyrir almennt. Við ætlum, að kjósendur landsins séu svo vel að sér, að þeir viti, á hvaða víntegundum er bannaður innflutningur og hvaða tegundum heimill, en hinir álíta aftur á móti, að kjósendurnir séu svo ófróðir, að ekki verði hjá því komizt að útlista fyrir þeim, hvaða vínteg. sé um að ræða. Ég býst við, að brtt. 747,2 og 748,3. séu fram bornar af þessari ástæðu, en ekki af því, að það sé tilgangurinn að spyrja ekki refjalaust; ég geri ráð fyrir, að það sé ekki spurt í því skyni að hafa áhrif á það, hvert svarið verði. Ég álít, að ekki væri forsvaranlegt af Alþ. að leggja þannig veiðandi spurningu fyrir kjósendurna. Það á að leggja spurninguna þannig fyrir, að ekki verði séð, hvernig þeir, sem spyrja, vilja, að henni verði svarað. Ef hinsvegar er álitið, að leiðbeina þurfi kjósendum um það, hvað felist í spurningunni á þskj. 714,1, þá hygg ég, að sú fræðsla yrði heppilegri á annan hátt, og ég treysti bannmönnum vel til að taka hana að sér, og enda andbanningum líka. Ég vil því halda fram og mæla með því, að 1. tölul. á þskj. 714 verði samþ. eins og hann er og ekki farið að breyta honum. Annars skal ég játa það, að ég tel hér ekki um neitt stórvægilegt atriði að ræða og tel nokkuð einu gilda, hver till. er samþ., hvort það verður þáltill. 714, brtt. 747,2 eða 748,3.

Hv. þm. Seyðf. og hv. 2. þm. S.-M. hafa báðir talað um það, að till. okkar flm. væru svo óákveðnar, að ekki væri vel hægt að svara þeim með neii eða jái. Þetta er fullkominn misskilningur. Fyrri spurningin er blátt áfram sú, hvort leyfa eigi innflutning allra víntegunda, og við þeirri spurningu er vitanlega ekki hægt að segja nema annaðhvort nei eða já. Síðari spurningunni í till. okkar sagði hv. þm. Seyðf., að ómögulegt væri að svara, því að kjósendur vissu ekkert, hverskonar takmarkanir á vínsölu átt væri við. En ég get nú ekki stillt mig um að benda hv. þm. á, að ef þessi spurning okkar er óákveðin, þá er þó miklu óákveðnari spurningin í 2. lið í brtt. 748, þar sem kjósendurnir eru spurðir, hvort þeir vilji una við núv. fyrirkomulag með einhverjum þeim umbótum, sem ekki er nánar tiltekið, hverjar eigi að vera. Ef það er óákveðið spurt hjá okkur, hvort kjósendur vilji setja takmörk á innflutning, sölu og veitingu vína, þá er þó enn óákveðnari spurning, hvort bannlögin eigi að gilda áfram með einhverjum óákveðnum umbótum, sem ekkert dæmi er tiltekið um, hverjar skuli vera. Ég tel jafnvel, að spurning sú, sem lögð var fyrir þjóðina 1908, hafi raunar verið miklu óákveðnari heldur en 2. liðurinn í till. okkar er. Þá var þjóðin aðeins spurð, hvort hún vildi bannlög eða ekki, en ekkert um það, hvernig bannlög hún vildi, enda vissu kjósendur ekkert um það, hvernig þau l. mundu verða, sem þeir annaðhvort áttu að játa eða neita. Samt þótti spurningin, sem lögð var fyrir þjóðina 1908, ekki svo óljós, að þjóðin ætti ekki að geta svarað. Ef það er rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að svör við fyrri spurningu okkar sé einskis virði, þá gildir það ekki síður um 2. lið till. hans, og jafnvel um spurninguna um aðflutningsbannið 1908.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að einskis virði væri að fá svar við síðari spurningu okkar á þskj. 714, en í því sambandi hefi ég nú bent á atkvgr. um bannlögin 1908. Um brtt. hv. þm. Seyðf. og hv. 1. þm. Reykv. um það, hvenær þessi þjóðaratkvgr. á að fara fram og hvort beri að setja hana í samband við almennar alþingiskosningar, get ég sagt það, að ég geri það ekki að neinu aðalatriði, hvort atkvgr. fer fram einu ári fyrr eða seinna, og get því látið mér þá brtt. í léttu rúmi liggja. Ég hélt hinsvegar, að almenningur mundi þegar hafa áttað sig svo á þessu máli, að hann mundi vera viðbúinn að greiða atkv. um það með stuttum fyrirvara. Ef báðum aðiljum er það hugleiknara, að fyrirvarinn sé lengdur og atkvgr. fari ekki fram fyrr en 1933, og jafnvel þó aðeins annar flokkurinn í þessu máli óskaði þess, þá get ég fallizt á það fyrir mitt leyti. Hitt, hvort þessi atkvgr. fari fram í sambandi við almennar kosningar til Alþingis eða ekki, skiptir líklega ekki ýkjamiklu máli. Árið 1908 fór atkvgr. um bannlögin fram í sambandi við kosningu til Alþingis, og þá var einmitt kosið um eitt það mál, sem mestu getur skipt þessa þjóð, sem var sambandsmálið. Ég skal ekki segja nema það hefði verið heppilegra þá að hafa atkvgr. um bannlögin sér, og að eins geti verið nú. Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því, að verra er að hafa atkvgr. sérstæða: önnur er aukinn kostnaður og hin er minni þátttaka heldur en ef atkvgr. stæði í sambandi við kosningar. Ég býst við, að a. m. k. úti á landi mundu langtum færri kjósendur taka þátt í atkvgr., ef hún væri sérstæð, heldur en ef hún stæði í sambandi við kosningar, svo að atkvgr. yrði þá minna virði, hver sem úrslitin yrðu, en þetta tel ég ekki rétt, að gert verði að verulegu ágreiningsatriði. Það hefir heyrzt á flm: brtt. 747 og 748, að þeim þyki 2. liður þáltill. á þskj. 714 óþarfur. Það er ekki gott að skilja, hvað þeim finnst á móti því að fá að heyra, hvort þjóðin vill hafa lögboðnar takmarkanir á meðferð áfengra drykkja. Eins og ég hefi tekið fram, er þessi spurning okkar sízt óákveðnari heldur en 2. liður í brtt. 748, þar sem lofað er einhverjum óákveðnum endurbótum á bannlögunum. Ef mönnum er hinsvegar mjög illa við það, að kjósendur séu spurðir um þetta, þá gæti ég fyrir mitt leyti gefið það eftir, að þessi liður félli niður, ef það þykir hagkvæmara. Ég hafði þó skoðað það réttara að spyrja kjósendurna um þetta, því þó ég álíti það gefið, að meiri hl. þeirra muni hallast að því, að ráðstafanir beri að gera til þess að hefta eða takmarka innflutning og notkun vína í landinu, þá er mér hinsvegar kunnugt um það, að ýmsir áhugamenn eru á gagnstæðri skoðun og telja allar slíkar ráðstafanir hégóma og til einskis gagns. Ég geri ráð fyrir því, að þessir menn muni verða í miklum minni hl., en mér finnst ekkert á móti því, að hið rétta komi þar í ljós.

Þau atriði, sem ég vil sérstaklega minnast á út af þeim brtt., sem fyrir liggja, felast í brtt. 748, frá hv. 2. þm. S.-M. og hv. 3. landsk., þar sem lagt er til að bera þá spurningu upp til atkv. fyrir þjóðinni, hvort kjósendur vilji algert aðflutningsbann á áfengi, hverju nafni sem nefnist. Viðvíkjandi slíkri spurningu er ýmislegt, sem þarf að athuga og snertir hag landsins bæði inn á við og ekki síður út á við. M. ö. o., það er ætlazt til með þessari spurningu, að hver kjósandi í landinu greiði atkv. um mikilsvarðandi og mjög viðkvæmt utanríkismál og verzlunarmál. Hv. flm. þessarar brtt. er sjálfsagt ekki ókunnugt um það, sem gerðist fyrir 10 árum, þegar mikilsverðir verzlunarsamningar voru gerðir við Spánverja, þar sem við fengum þau hlunnindi að mega njóta beztu tollkjara þar í landi með okkar stærstu útflutningsvöru, saltfiskinn, sem aðallega er þangað seldur. Á móti þurftum við aftur að leyfa innflutning á Spánarvínum, eins og kunnugt er, en sú ívilnun, sem þá var gefin, skipti hvorki meira né minna en því, hvort fært yrði að reka eftirleiðis stærsta og arðmesta atvinnuveg landsmanna eða ekki. Síðan þetta gerðist höfum við búið við óbreytta þessa samninga. Hinsvegar er nú á það að líta, að sú stefna er nú að ryðja sér til rúms í milliríkjaverzlunarmálum að taka upp og hækka verndartolla og sömuleiðis það, að eitt ríki veiti öðru ríki samsvarandi gagnkvæm hlunnindi á jafnmiklu vörumagni. Nú er það svo, að yfir 1/3 af okkar útfluttu vörum er seldur til Spánar. Hinsvegar kaupum við mjög lítið af þeim, svo að við stæðum mjög illa að vígi, ef Spánverjar heimtuðu, að við keyptum eins miklar vörur af þeim og þeir kaupa af okkur. Ég hefi góðar heimildir fyrir því, að komið hafi til mála á Spáni að gera slíkar kröfur til okkar, og fylgdi með sú ráðlegging, að hollast mundi að hreyfa sem minnst við viðskiptum okkar við Spán að fyrra þragði. Þess vegna tel ég, að það sé óvarlegt af flm. þessarar brtt. að fitja upp á umr. um þetta mál nú, og ennþá fremur að leggja spurninguna fyrir kjósendur. Það er ekkert líklegra en að ef útrýming Spánarvínanna fengi nokkurt fylgi, þá mundi hinn aðilinn rísa upp og segja: Úr því þið viljið spyrna á móti víninu og eruð óánægðir með samningana, þá langar okkur ekkert til að halda þeim áfram. Hv. flm. virðast ekki hafa athugað það, hversu stórfenglegt verzlunarmál það er, sem 1. liður í brtt. þeirra grípur inn í, og þó svo fari, að 1. liður í till. þeirra verði samþ., þá ætti hæstv. stj. ekki að leggja þessa spurningu fyrir þjóðina. Ég veit ekki til, að hv. flm. hafi komið með nokkur ráð til þess að bæta þjóðinni það upp, ef hún verður af saltfiskmarkaðinum á Spáni. En meðan það er ekki gert, er málið ekki leyst á viðeigandi hátt, og þá ættu Íslendingar ekki, og sízt Alþingi, að gera leik til þess að gera útlitið í þessu efni verra en það er. Ég get ekki betur séð en að það væri hreint og beint glapræði af Alþingi að samþ. þessa till., og því meira að leggja hana undir þjóðaratkvæði. Ég mun því greiða atkv. á móti till., en heppilegast hefði verið, ef hv. flm. hefðu viljað taka hana aftur.

Í þriðja lagi er það að athuga við þessa spurningu, að það er ætlazt til, að þjóðin svari því, sem henni er ómögulegt að svara. Hún á að segja til um það, hvort hún vill hafa þetta atriði svona eða svona, atriði, sem hún þó engu getur ráðið um.

Um brtt. 748,2 er það að segja til viðbótar við það, sem þegar hefir verið sagt um þennan lið, að hann væri óákveðinn, að þar er einnig minnzt á að afnema Spánarsamningana. Þó þetta sé nú í raun og veru meinlaust, þá hefði verið hægt að orða það þannig að segja aðeins: „Vill kjósandinn una við núgildandi áfengislöggjöf með þeim umbótum, sem hægt er að gera“. Þetta niðurlag, án þess að afnema Spánarsamningana, er næstum því eins og hortittur á eftir því, sem á undan er komið. Það liggur í upphafi spurningarinnar, að það er miðað við núgildandi áfengislöggjöf, og þarf því ekki að taka það fram, að meint sé, að Spánarsamningarnir eigi að standa áfram.

Ég skal geta þess, að 1. liður brtt. 748 hefir verið ræddur í utanríkismálanefnd, og held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að allir hafi verið þar á einu máli um, að þann lið mætti ekki samþ. á Alþingi, og því síður, að bera mætti hann undir þjóðarafkvæði. Fyrir utan þennan lið sé ég ekki betur en að við séum sammála um kjarna málsins, þann, að spyrja eigi þjóðina, hvort eigi að leyfa innflutning sterkra vína. Það virðist ekki annað bera á milli en mismunandi orðalag á till., sem ætti að vera unnt að bræða saman, því að orðalagið er náttúrlega fulllítið tilefni til þess að deila um. Þó ég hafi nú vikið að flestum atriðunum í þeim till., sem fyrir liggja, þá var það aðalástæðan til þess að ég stóð upp, að ég vildi vekja athygli á hinu þýðingarmikla utanríkismáli, sem brtt. 748 fer inn á. Ég hefi nú sagt mitt álit um það, hvaða áhrif þessi brtt. gæti haft í þessum efnum; ef hún verður samþ., og nú kemur til kasta Alþingis að láta í ljós sitt álit.