31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í C-deild Alþingistíðinda. (4505)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Héðinn Valdimarsson:

Ég er fullkomlega sammála hv. þm. Mýr. um, að ólag sé mikið á mjólkursölunni, bæði hér og annarsstaðar, og að eitthvað þurfi að gera til þess að bæta úr því. En samt finnst mér þetta frv. hv. landbn., sem hér er til umr., vera mjög varhugavert. Þar er verið að setja lög um sölu mjólkur frá sveitum til kaupstaða alveg að forspurðum öðrum aðiljanum, bæjunum. Enda er í frv. eingöngu litið á hagsmuni sveitanna, en Rvík og kaupstaðirnir verða þar alveg út undan. Reyndar er gert ráð fyrir því í frv., að sett verði hámarksverð á mjólk, til þess að girða fyrir óeðlilega verðhækkun, en þó vantar mikið á, að nógu tryggilega sé gengið frá því atriði. Frá sjónarmiði neytenda er það aðalatriðið, hvernig sé hægt að fá mjólkina sem bezta og ódýrasta. Nú er það svo, að ýmsir bæir hér á landi hafa á síðari árum komið sér upp mjólkurbúum, og eiga flestir talsvert mikið land, og svo er líka um Rvík. Jafnaðarmennirnir í bæjarstj. hafa barizt fyrir því í mörg ár, að bærinn kæmi upp fullkomnu kúabúi, fyrst hann á nóg landrými; og gæti slíkt bú vafalaust fullnægt þörfum bæjarins. Þetta er ólíkt skynsamlegri leið en sú, sem farin hefir verið, að teygja mjólkurkaup bæjarins alltaf lengra og lengra burt frá honum. En verði þetta frv. samþ., mundu slík bæjarkúabú lenda undir stjórn sveitanna, og álít ég það mjög óheppilegt.

Ég get bent á, í sambandi við hugleiðingar hv. þm. Mýr. um sölukostnað, að einfaldasta ráðið til þess að lækka hann væri auðvitað það, að bærinn tæki í sínar hendur sölu allrar mjólkur til bæjarbúa. Í sumum kaupstöðum landsins er þetta vafalaust framkvæmanlegt nú þegar, í Rvík er það ekki hægt enn, en verður vonandi áður en langt um líður, er jafnaðarmenn hafa það meiri hl. bæjarstj. — Ég vil ennfremur geta þess, að með fyrirkomulagi, sem kaupfélag alþýðu hér í bæ hefir tekið upp á mjólkursölu, hefir sparazt meira en það, sem hv. þm. Mýr. taldi, að mundi verða við framkvæmd frv., ef að lögum yrði. Og þó er það fyrirkomulag enn á tilraunastigi. Neytendur fá mjólkina 5 aur. ódýrari lítrann, og ber ekki á öðru en mjólkurbúið, er selur, sé ánægt með viðskiptin. En ég held því fast fram, að ef ég á að geta fylgt þessu frv., þá verður að gera þær breyt. á því, að kaupstaðirnir fái sjálfir fullan umráðarétt yfir sölu mjólkur til sinna íbúa, og rekstri kúabúa, sem þeir kæmu upp, yrði tryggð tilvera, yfirleitt, að svo væri gengið frá því, að hagsmunum bæjanna væri hvergi gert lægra undir höfði en sveitanna.