15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í C-deild Alþingistíðinda. (4535)

230. mál, efni í tunnur

Ólafur Thors:

Ég tók eftir því, að í þessari skýrslu, sem hv. þm. Seyðf. gaf, gat hann um, að eftir þeim skýrslum, er hann hafði fengið nýlega, myndi efniviður í 150 þús. tunnur kosta 330 þús. kr., ef hann væri óunninn og kominn hingað til Íslands. En það svaraði til þess, að efnið í hverja tunnu kostaði 2,20 kr. fyrir utan gjarðir, nagla og spons. Hinsvegar taldi hv. þm., að stafir í tunnurnar myndu kosta 2,60 kr. Væru þetta réttar tölur, er málaleitunin ástæðulaus. Hinsvegar tel ég þær rangar, og mun hv. þm. hafa í fyrra dæminu reiknað með íslenzkum krónum, en með norskum í hinu síðara.

Að því er snertir upplýsingar, sem hv. flm. þessa frv. gaf, skildist mér það vera hans álit, að vegna þess, að þessi iðnaður ætti hér á landi við erfið launakjör að stríða, þar sem þeir menn, sem að þessum iðnaði vinna her, gera hærri kröfur til kaups en stéttarbræður þeirra annarsstaðar, væri nauðsynlegt, að ríkið hlypi undir bagga á meðan þessi iðnaður væri í barndómi, svo að hann gæti orðið samkeppnisfær við erlenda keppinauta. Ég vil í sambandi við þá skoðun taka það fram, að ég tel hættulegt fyrir ríkissjóð að leggja út á þá braut að breyta tollalöggjöf sinni iðnrekstrinum til framdráttar, til þess að hann verði fær um að greiða hærra kaup en greitt er við tilsvarandi iðnrekstur erlendis.